Í lok vertíðar
Eftir því sem líða fer að sumri ljúka áhugaleikhús landsins sýningum sínum, en að sama skapi verður skemmtilegt að fylgjast með þegar þau taka upp þráðinn að hausti. Leikhúsin á Eyrarbakka, Hofsósi og í Vestmannaeyjum standa þó enn keik á fjölunum og ættu áhugasamir að bregða undir sig betri fætinum hið snarasta og njóta sýninganna.
Leikfélag Vestmannaeyja setti nýverið á svið gamanleikinn Beint í Æð eftir Ray Cooney í leikstjórn Árna Grétars Jóhannssonar. Þessi klassíski farsi segir frá taugalækni sem er á lokametrunum við mikilvægan undirbúning alþjóðlegrar ráðstefnu samlækna sinna. Honum að óvörum mætir gömul hjásvæfa hans á svæðið og kynnir til leiks son þeirra sem kominn er til manns. Má segja að taugalæknirinn fari nánast á taugum og neyðist til að hagræða sannleikanum þannig að úr verður eitt allsherjar klúður og misskilningur af bestu gerð. Höfundur verksins er þekktur fyrir að gera frábæra farsa og því hægt að búast við góðri skemmtun. Miða má nálgast í síma 852-1940, miðaverð er kr. 4.200 og sýnt verður á Heiðarvegi 19, Vestmannaeyjum föstudags- og laugardagskvöld allar helgar í apríl.

Söngleikurinn Stöndum saman eftir Huldu Ólafsdóttur, í leikstjórn hennar sjálfrar, er nú kominn á svið Rauða hússins á Eyrarbakka, frumsýnt nú í kvöld 10. apríl. Á sviðinu kynnast leikhúsgestir ungu pari sem heldur fast í að láta drauma sína rætast þó lífið geti verið flókið – og fær til þess aðstoð sinna nánustu en eins og flestir vita er mest um vert að standa saman og halda í gleðina – hið eina sem þýðir þegar á reynir. Álfrún Auður Bjarnadóttir hjá leikfélagi Eyrarbakka segir leikritið innihalda bæði húmor og ýkjur en þó einnig vera tilfinningaþrungið og alvarlegt. Frumsýnt verður í Rauða húsinu á Eyrarbakka klukkan 20 og geta gestir kynnt sér sérvalinn leikhúsmatseðill sem er í boði fyrir sýningar. Sjö sýningar eru áætlaðar, fram til 2. maí, en miða og frekari upplýsingar má finna á tix.is.

Leikfélag Hofsóss frumsýndi á dögunum gamanleikinn Ærsladrauginn eftir Noel Coward í leikstjórn Barkar Gunnarssonar. Aðspurð segir formaður leikfélagsins, Fríða Eyjólfsdóttir, verkið gerast á yfirstéttarheimili bresks rithöfundar sem er forvitinn um starfsemi miðla og býður einum slíkum í heimsókn. „Skemmst er frá því að segja að ýmislegt fer á annan veg en hann sá fyrir sér enda eins og nafn verksins bendir til kemur óútreiknanlegur æarsladraugur við sögu,“ segir Fríða. „Komu margar hendur að sýningunni en félagið býr að góðum mannauði sem er fús að leggja á sig mikla vinnu í hvert sinn sem leikrit er sett upp, sem er að jafnaði annað hvert ár.“ Ærsladraugurinn er sýndur í Höfðaborg á Hofsósi og hægt að nálgast miða í síma 837-5045. Miðaverð er kr. 4.000 f. fullorðna, kr. 3.500 f. ellilífeyrisþega og kr. 2.500 f. börn 6–14 ára.