Þýzka stálið
Bændablaðið fékk til prufu dráttarvél af þriðju kynslóð 300 línunnar hjá Fendt sem hefur verið á markaðnum frá 2015. Þetta eru meðalstórir alhliða traktorar sem hafa getið sér orðspor fyrir áreiðanleika og þægindi.
Vélin í þessum prufuakstri er Fendt 314, sem er öflugasti traktorinn í þessari línu, eða 142 hestöfl. Hann er fríður á velli og með fallega grænum lit sem samsvarar sér vel í íslenskri sveit og náttúru. Þetta er annar tónn en einkenndi Fendt vélar á árum áður. Þá gefa rauðar felgurnar og hvítt þakið skemmtilegt mótvægi. Ámoksturstækin eru græn og eru framleidd af Fendt.
Útlitið að utan er annars mjög sambærilegt því sem er á öllum öðrum traktorum, enda sama uppskrift og hefur verið notuð í ómunatíð: Stór hjól að aftan, minni að framan, ökumannshús að aftan, ílangt húdd og ámoksturstæki.
Að aftan er hið hefðbundna þrítengi, öll helstu vökvatengi og tengi fyrir loftbremsur á vögnum. Þá er einnig skotkrókur sem er ótengdur þrítenginu. Í staðinn fyrir að sitthvor hreyfingin skjóti út/inn og slaka niður/upp, þá fer þessi út og niður eða upp og inn í einni bogahreyfingu. Útsýnið aftur á krókinn er í meðallagi gott og þarf að halla sætinu og teygja álkuna til að sjá hann í innstu stöðu. Aflúrtak og þrítengi er að framan.
Innrétting vönduð
Þegar gengið er um borð tekur á móti manni mjög vönduð innrétting. Öll efnin eru úr þykku hágæða plasti og þungt tauáklæði á sætunum. Stór tölvuskjár er fyrir framan stjórnborðið. Notandinn getur ýmist notað hann sem snertiskjá eða með stjórnhnappi – svipað og í BMW bifreiðum. Auðvelt er að rata í gegnum viðmótið og gefast fjölmargir möguleikar í stillingum. Ekki gafst færi til að leggjast yfir alla eiginleika tölvubúnaðarins og má allt eins gera ráð fyrir að þeir sem hafa aldrei snert á þessu stýrikerfi áður verði lengi að komast alfarið til botns í eiginleikum þess. Fyrir framan stýrið er margmiðlunarskjár sem þjónar hlutverki mælaborðs. Þar er myndin skýr og stór og allar nauðsynlegar upplýsingar í beinni sjónlínu.
Sætið er afar þægilegt, með loftpúðafjöðrun og fjölmarga stillimöguleika. Þetta tiltekna sæti fjaðrar til allra átta, nema til hliðanna. Eiginleika sem var sárt saknað þegar ekið var hratt yfir óslétt tún og vélin sveiflaðist til og frá. Hægt er að stilla hversu stíf fjöðrunin er til að henta þyngd ökumannsins. Í sumum vélum er það gert sjálfkrafa í hvert sinn sem vélin er ræst, en hér þarf að stilla handvirkt. Allt snýst þetta um hversu mikið viðkomandi vill borga fyrir aukahluti og er eflaust hægt að fá sæti í Fendt með öllum þessum eiginleikum.
Hellingur af tökkum
Stjórnborðið er veisla fyrir þá sem hafa ánægju af því að ýta á takka, enda eru þeir liðlega fimmtíu, og er marga hægt að sérstilla eftir höfði hvers og eins. Þarna er allt úr plastefnum sem eru þægileg viðkomu og og er armhvílan með stamt og fóðrað yfirborð. Þá er mjög létt að stilla stöðu stjórnborðsins út frá stærð notandans.
Stjórnpinninn fyrir ámoksturstækin er vel staðsettur á stjórnborðinu og því getur notandinn verið slakur í hendinni. Þá er einnig takki til að stjórna vendigírnum í áðurnefndum stjórnpinna, sem gerir tækjavinnu enn auðveldari. Fljótlegt er að stilla hraðann á hverjum vökvatjakki í gegnum skjáinn, sem kemur sér vel ef maður er annars vegar í fínvinnu og vill að tækin hreyfist hægt, eða ef maður er hins vegar í grófvinnu og vill að hlutirnir gerist hratt.
Traktorinn er einstaklega hljóðlátur. Þegar ekið er á fullum hraða gerist ekki nokkur þörf á að hækka róminn. Þessi tiltekni traktor var ekki með útvarpi (sem stóð til bóta) og gafst því notandanum hið fullkomna tækifæri til að slaka á og hugleiða í þögn og notalegu sæti.
Útsýnið á ámoksturstækin er ekki það besta sem býðst og þegar tækin eru í neðstu stöðu skyggir húddið býsna mikið á. Því þarf að stjórna þeim eftir minni og tilfinningu. Framrúðan er há og sveigir upp á þakið sem gefur nær óhindrað útsýni á tækin í efstu stöðu, nema ef sætið er stillt ofarlega og aftarlega. Útsýni til hliða og aftur er prýðilegt og virðist þykkur strompurinn ekki spilla miklu.
Speglarnir eru auðveldlega stillanlegir. Notandinn ýtir á hnapp með mynd af spegli og þá birtist valmynd á tölvuskjánum. Þá er bara að velja einn af fjórum (það eru tveir sjálfstæðir hvorum megin) og hreyfa BMW stjórnhnappinn til.
Stiglaus skipting
Fendt dráttarvélar eru frægar fyrir stiglausar Vario skiptingar. Þegar ekið er af stað þarf rétt að taka úr handbremsu og ýta á vendigírinn. Traktorinn sér svo um rest og gerir ekkert fyrr en ýtt er á inngjöfina eða réttum stjórnpinna ýtt fram. Hægt er að festa snúningshraða eða aksturshraða óháð hvort öðru eða láta traktorinn sjá um þetta sjálfur. Inngjafarfetillinn er upphengdur og er greinilegt að Fendt hefur lagt mikið á sig til að gera fótstig sem er gott í notkun.
Cruise control er virkjað með einni hreyfingu á stjórnpinnanum. Svo er hægt að fínstilla aksturshraðann með því að snúa litlu hjóli. Aksturshraðinn breytist um minnst 0,1 kílómetra fyrir hvern smell á hjólinu. Nákvæmnin á stillingu snúningshraðans er engu síðri.
Vel er hugsað um öryggi og neitar traktorinn að keyra ef það vantar þyngd í ökumannssætið. Ef maður er til að mynda eitthvað að laga sig til í sætinu og lyfta sér upp, þá er traktorinn fljótur að kvarta. Þegar stigið er úr vélinni drepst á aflúrtökunum og því engin hætta á að bóndinn sé að flækjast í kringum búnað sem er í gangi.
Að lokum
Helsti galli Fendt 314 er hátt verð, en það kom undirrituðum á óvart að munurinn á þessari dráttarvél og öðrum sem eru álitnar ódýrar er ekki meiri. Fendt er ekki tvöfalt dýrari en aðrir traktorar – bara nokkrum milljónum. Fendt er ein af þessum vélum sem fólk fær dellu fyrir og eftir þennan prufuakstur skilur undirritaður vel af hverju.
Vélin í þessum prufuakstri var svo gott sem splunkuný og myndi sambærileg vél með aukahlutum kosta 22.500.000 krónur án vsk. á gengi evru 150. Án aukahluta kostar Fendt 314 Vario 18 milljónir án vsk.