Smámunasafnið á sínum stað
Margir óttuðust að Smámunasafni Sverris Hermannssonar í Sólgarði í Eyjafirði yrði lokað eftir að það spurðist út að sveitarfélagið ætlaði sér að selja húsnæðið og pakka safninu niður.
Um fimmtíu þúsund munir eru á safninu, sem Sverrir safnaði í sjötíu ár. Nú er ljóst að safnið verður að minnsta kosti næstu tíu árin í viðbót í Sólgarði því Fjárfestingafélagið Fjörður, sem er í eigu Kristjáns Vilhelmssonar og Kolbrúnar Ingólfsdóttur, hefur keypt húsnæðið og ákveðið að lána Eyjafjarðarsveit aðstöðuna undir safnið og sýningu þess. Safnið verður því opið frá 1. júní til 10. september í haust og sambærileg opnun verður næstu sumur.