Að fullu kolefnisjafnað
Sölufélag garðyrkjumanna og Kolviður hafa undirritað samning sem felur í sér að flutningur á grænmeti frá grænmetisbændum í Sölufélagi garðyrkjumanna í verslanir verður kolefnisjafnaður að fullu.
Íslenskt grænmeti er því orðið enn grænna en áður og neytendur fá tryggingu fyrir því að kolefnisfótspor á flutningi grænmetisins eru jöfnuð að fullu af vottuðum aðilum.
Samningurinn felur m.a. í sér að haldið er sérstakt kolefnisbókhald til að reikna út kolefnisfótspor í flutningum frá bónda og í verslanir. Út frá þeim gögnum er trjám plantað á tilgreindum svæðum og eru þau vernduð í 60 ár. Þannig er allur akstur vörunnar kolefnisjafnaður.
Kolviður er sjóður sem starfar samkvæmt skipulagsskrá samþykktri af stjórnvöldum 2006 og lýtur eftirliti Ríkisendurskoðunar. Stofnendur sjóðsins eru Skógræktarfélag Íslands og Landvernd með stuðningi ríkisstjórnar Íslands, en markmið hans er binding kolefnis í gróðri og jarðvegi til að draga úr styrk koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti.