Geitaís, geitaostur, geitajógúrt og geitaskyr á boðstólum
„Við fengum okkar fyrstu geitur 2008 frá Fjallalækjaseli við Þórshöfn, tvær huðnur og tvo hafra. Síðan þá höfum við fjölgað smátt og smátt í stofninum og erum komin með ellefu geitur og ætlum að fjölga enn frekar,“ segir Bettina Wunsch í Brautartungu í Háfshverfinu í Þykkvabænum.
„Mér finnst þetta frábærar skepnur, vinalegar og góðar.“
Prófar sig áfram með afurðir úr geitamjólkinni
Bettina mjólkar fjórar geitur daglega og er að prófa sig áfram með afurðir úr geitamjólkinni eins og geitaís, geitajógúrt, geitafetaost og geitaskyr.
„Viðtökurnar eru mjög góðar, fólki sem ég gef að smakka finnst þetta allt mjög gott og spennandi,“ segir hún. Allar geiturnar í Brautartungu hafa nafn og má þar nefna Gjósku, Dalíu, Þrá, Freyju, Rönd, Rósu, Gasellu, Jónsa og Presley.