Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hrúturinn Gimsteinn frá Þernunesi var fyrsti gripurinn sem var greindur með samsætuna ARR á Íslandi í lok árs 2021. Í tillögum sérfræðingahópsins er lagt til að ræktun miði að arfhreinum ARR arfgerðum á Íslandi.
Hrúturinn Gimsteinn frá Þernunesi var fyrsti gripurinn sem var greindur með samsætuna ARR á Íslandi í lok árs 2021. Í tillögum sérfræðingahópsins er lagt til að ræktun miði að arfhreinum ARR arfgerðum á Íslandi.
Mynd / Eyþór
Fréttir 22. nóvember 2023

Heimilt að hlífa gripum með verndandi arfgerðir og mögulega verndandi arfgerðir

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í nýrri skýrslu sérfræðingahóps eru lagðar til útfærslur á aðgerðum gegn riðuveiki í sauðfé, með nýrri nálgun og ræktun fjár með verndandi arfgerðir. Lögð er áhersla á að ekki verði hvikað frá niðurskurðarstefnunni en þó verði heimilt að undanskilja frá niðurskurði hjarða fé sem ber verndandi arfgerðir og einnig mögulega verndandi arfgerðir.

Tiltekið er að þetta verði heimilt að því gefnu að smitvarnir séu strangar og ræktun miði að arfhreinum ARR arfgerðum.

Þá er gert ráð fyrir að notkun á sæðingahrútum sem bera verndandi arfgerð verði sauðfjáreigendum að kostnaðarlausu eða verulega niðurgreitt og arfgerðagreiningar sömuleiðis.

Missmitnæmar samsætur

Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um hvernig arfgerð príon prótein gensins hafi afgerandi áhrif á smitnæmi kinda fyrir riðu. Af þeim sjö genasamsætum sem hafi fundist í fé á Íslandi, séu ARQ og VRQ sérstaklega næmar fyrir smiti – einkum þó VRQ. Aðrar samsætur eru taldar vera minna næmar, mögulega verndandi eða verndandi.

Til minna næmra samsæta teljast AHQ og N138 (AN138RQ). Til mögulega verndandi samsæta teljast samkvæmt skýrslunni C151 (AC151RQ) og T137 (AT137RQ), en ARR telst verndandi. Lagt er til að megináherslan verði á fjölgun ARR samsætunnar, en einnig að tíðni T137 verði aukin og að tíðni C151 verði viðhaldið í það minnsta.

Í greinargerð um ARR segir að arfgerðir þar sem minnst önnur genasamsætan er ARR og hin genasamsætan er ekki VRQ, séu alþjóðlega viðurkenndar sem verndandi arfgerðir gegn riðuveiki. „Stefna ætti að fjölgun arfbera ARR og í fyllingu tímans arfhreinna ARR/ARR kinda eins og kostur er. Vegna mjög lágrar tíðni ARR samsætunnar í upphafi þarf að hafa áhrif vals fyrir ARR á erfðafjölbreytni og skyldleikarækt í stofninum í huga.“

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland

Svandís Svavarsdóttir matvæla­ráðherra skipaði hópinn í maí síðastliðnum sem skyldi vera yfirdýralækni og Matvælastofnun til ráðgjafar og felast í greiningu á núverandi stöðu, útfærslu á aðferðarfræði við ræktun fjár með verndandi arfgerðir og mat á breyttri nálgun aðgerða gegn riðuveiki.

Sérfræðingahópurinn leggur áherslu á að gefin verði út sameiginleg landsáætlun um riðuveikilaust Ísland innan tiltekins árafjölda. Áætlunin ætti að vera sameign matvælaráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands og Matvælastofnunar. Athygli vekur að í áherslum hópsins er gert ráð fyrir að hvatafyrirkomulagi verði komið á með fjármögnun sæðisskammta úr hrútum sem bera verndandi arfgerð og mögulega verndandi arfgerðir þannig að notkun þeirra verði sauðfjáreigendum að kostnaðarlausu eða þeir verulega niðurgreiddir.

Í áherslum hópsins er einnig lagt til að hægt verði að fresta niðurskurði á smitnæmu fé í hjörðum þar sem riða er staðfest – ef hjarðirnar eru mikilvægar til varðveislu einstakra erfðaeiginleika sem tilefni er til að varðveita á landsvísu, svo sem forystufé, feldfé og þess háttar.

Breytingar á reglum um hreinsun og fjárleysistíma

Í tillögum hópsins er einnig gert ráð fyrir talsverðum breytingum á reglum um hreinsun í kjölfar tilfella um smit. Samhliða ræktun fjár sem er ónæmt fyrir riðusmitefninu minnki þörf á fullri upprætingu smitefnisins á riðubæ og þörf á löngum fjárleysistíma minnkar.

Engu að síður sé nauðsynlegt að fjarlægja efni og hluti sem innihalda einkum smitefni, þrífa, þvo og sótthreinsa til að lágmarka smitmagnið í húsum og umhverfi eftir niðurskurð.

Endurskoða ætti núverandi fyrirkomulag um víðtæka förgun innréttinga, efna og hluta auk tímalengdar fjárleysis, hvort tveggja leiðir til minnkunar fjárútláta.

Reglur um hreinsun þarfnist endurskoðunar, þannig að þær taki mið af nýlegum rannsóknum um viðloðun príóna. Endurskoða ætti einnig reglur um meðhöndlun og/eða nýtingu skíts, heyja og þess háttar.

Ræktunaráætlun Fagráðs fær jákvæðar undirtektir

Eyþór Einarsson, sauðfjárræktar­ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, situr í Fagráði sauðfjárræktar. Honum líst vel á skýrsluna. „Hún er góð samantekt um sögu riðuveikinnar á Íslandi og um þær baráttuaðferðir sem hingað til hefur verið beitt, hverju þær hafa skilað og hvað er gert í öðrum löndum.

Ráðleggingarnar sem koma fram í henni varðandi framhaldið og hvernig sé hægt að nýta verndandi og mögulega verndandi arfgerðir eru í ágætu samræmi við það sem bæði rannsóknarhópur erlendra og innlendra aðila og bændur hafa lagt til. Sú ræktunaráætlun sem Fagráð í sauðfjárrækt hefur lagt fram fær þarna jákvæðar undirtektir. Vissulega koma líka fram sjónarmið um að fara þurfi varlega, en það er líka eðlilegt. Það þarf að vanda til verka hvernig hlutirnir verða útfærðir, þannig að þessi leið skili því að ná sigri í baráttu við riðuna og lækka allan kostnað í kringum þá baráttu. Mér sýnist að það sé að nást góður samhljómur milli allra aðila varðandi breytta nálgun. Ég er allavega bjartsýnn á framhaldið.“

Horft til tillagna sauðfjárbænda

Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, segist mjög ánægður með að skýrslan skuli vera komin út. „Við sjáum ekki annað en að talsvert hafi verið horft til tillagna sauðfjárbænda í vinnu hópsins.

Nú er verkefnið fram undan vinna við landsáætlun um riðulaust Ísland eins og lagt er til í skýrslunni og þar er gert ráð fyrir samráði við bændur og sjáum við ekkert annað en að það eigi að vera jákvætt.

Það er heilmikil vinna fram undan og bændur munu ekki láta sitt eftir liggja í því verkefni.“

Leiðrétting:
AHQ mögulega verndandi

Genasamsætan AHQ telst vera mögulega verndandi í öllum arfgerðasamsetningum. 

Í greinargerð um samsætuna í skýrslunni er hvergi getið um að hún sé mögulega verndandi, einungis minna næm fyrir riðu. Í meðfylgjandi töflu, þar sem yfirlit er að finna um flokkun arfgerða í næmar, verndandi og mögulega verndandi, var í fyrstu útgáfu skýrslunnar AHQ-samsætan flokkuð sem næm arfgerð í samsetningu með N138-samsætunni.

Í leiðréttri útgáfu skýrslunnar er samsætan flokkuð sem mögulega verndandi í öllum tilvikum nema með ARR-samsætunni, þar sem hún er flokkuð sem verndandi arfgerð.

Síðari útgáfa töflunnar þar sem AHQ er flokkuð verndandi (með ARR) eða mögulega verndandi með öðrum samsætum.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...