Karl Bretaprins hvetur fólk til að klæðast ull
Hans konunglega tign, Karl Bretaprins, skrifaði pistil í The Telegraph fyrr í þessum mánuði þar sem hann mærir ull og hvetur fólk til að klæðast ullarfatnaði á vetri komandi.
Greinin hefst á því að spyrja hvað sé betra en efnið sem er ræktað á náttúrulegan hátt, þurfi bara vatn og gras og að hægt sé að búa til úr því hlýjan og góðan fatnað og hafi teygju og styrk í endingargóð teppi og áklæði.
Efni sem sé fyrirtaks varma- og hljóðeinangrun og heldur hita þrátt fyrir að blotna og sé brunaþolið og taki ekki í sig lykt. Og það sem meira er, það brotnar niður á náttúrulegan hátt í náttúrunni.
Það furðulegasta af öllu er að þetta undraefni er til og hefur verið til í langan tíma og er ull. Það að ull sé ekki nýtt efni og að ekki þurfti að finna hana upp hefur hugsanlega valdið því að við höfum misst sjónar á henni og notum hana ekki sem skyldi nú á tímun.
Ekki er þörf fyrir jarðefnaeldsneyti til að framleiða náttúrulegar afurðir eins og ull og hægt er að endurnýta þær. Slíkar afurðir koma til með að verða sífellt mikilvægari í framtíðinni og baráttunni við hlýnun jarðar.
Næst segir Karl frá því að hann ætla að standa fyrir ullarráðstefnu í Skotlandi þar sem saman munu koma fjöldi aðila sem tengist ull og framleiðslu úr henni. Vonast prinsinn að vegur ullar muni aukast og að verð á henni til bænda hækki í kjölfar ráðstefnunnar.