Kosið um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps í febrúar
Áætlað er að kosning um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps fari fram 19. febrúar á næsta ári og að kynningarfundir um sameininguna verði haldnir í sveitarfélögunum í lok janúar eða í byrjun febrúar.
Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja hefur tekið til starfa að því er fram kemur í frétt á vef húna og verða upplýsingar um verkefnið aðgengilegar á vefnum Húnvetningur en síðan er núna í endurskoðun.
Í samstarfsnefndinni sitja Guðmundur Haukur Jakobsson, Jón Örn Stefánsson og Arnrún Bára Finnsdóttir fyrir hönd Blönduósbæjar og Jón Gíslason, Ragnhildur Haraldsdóttir og Þóra Sverrisdóttir fyrir hönd Húnavatnshrepps.