Milljónir húsdýra drukknuðu í eigin úrgangi
Talið er að 3,4 milljónir hænsna og 5.500 alisvín hafi drepist í flóðum vegna fellibylsins Flórens sem gekk yfir Norður-Karólínu í Bandaríkjum Norður-Ameríku fyrir skömmu.
Flest dýrin munu hafa drukknað í eigin úrgangi þegar opnar rotþrær eða hauggryfjur flæddu yfir og milljónir tonna af búfjárúrgangi flæddu inn í gripahús.
Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkja Norður-Ameríku hefur staðfest að fjöldi hænsna sem hafi drepist vegna saurflóða sé 3,4 milljónir og svína 5.500 en að búast megi við að sú tala eigi eftir að hækka þegar endanlega sjatnar í flóðunum.
Kjúklinga- og svínakjötsframleiðsla í Norður-Karólínu er ein sú mesta í Bandaríkjunum og talið að í ríkinu sé að finna 830 milljónir hænsnfugla og níu milljón alisvín.
Samkvæmt því sem yfirvöld umhverfismála í ríkinu segja skemmdust að minnsta kosti þrjátíu hauggryfjur illa í fellibylnum og í sumum tilfellum sprungu veggir þeirra þannig að innihaldið flæddi út í grunnvatnið.