Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna stóð í stað árið 2016
Mynd / TB
Fréttir 21. ágúst 2017

Mjólkurframleiðsla Norðurlandanna stóð í stað árið 2016

Höfundur: Snorri Sigurðsson, sns@seges.dk
Árið 2016 var afar viðburðarríkt ár þegar litið er til evrópskrar mjólkurframleiðslu en þetta var fyrsta heila árið sem leið eftir að mjólkurkvótinn var aflagður í Evrópusambandinu. Þessi breyting á framleiðslukerfi hafði veruleg áhrif á þróun mjólkurframleiðslunnar á síðari hluta ársins 2015 og samhliða aukinni mjólkurframleiðslu það ár og framan af árinu 2016 hrundi afurðastöðvaverð til bænda í flestum löndum með frjálsa framleiðslu. Það leiddi til verulegra breytinga á högum margra kúabúa, s.s. vegna ótímabærra lokunar kúabúa, og sjást þess berleg merki þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar á Norðurlöndunum síðasta ár, þar sem þrjú af fimm löndum eru í Evrópusambandinu.
 
5,5% fækkun kúabúanna
 
Niðurstöður uppgjörs síðasta árs sýna skýrt að þróunin heldur ótrauð áfram og fækkaði kúabúum Norðurlandanna áfram á milli ára og fækkaði þeim í öllum löndunum. Alls nam fækkunin 1.353 búum eða sem svarar til 5,5% (sjá töflu 1). Þetta er þó aðeins minni hlutfallsleg fækkun en varð árið 2015, en þá fækkaði kúabúum Norðurlandanna um 6,4%. Mest hlutfallsleg fækkun búa varð í Evrópu­sambandslöndunum þremur sem ekki búa við kvótakerfi. Langmest hlutfallsleg fækkun búa varð í Svíþjóð er nærri eitt af hverjum tíu búum lögðu upp laupana, alls 380 bú. Þar á eftir komu svo Danmörk með 7,7% fækkun  og Finnland með 7,3% fækkun.
 
Norðurlöndin framleiddu 12,3 miljarða kg
 
Eins og sést við skoðun á töflu 1 þá endaði mjólkurframleiðsla Norður­landanna í 12,3 milljörðum kg árið 2016 sem er nánast sama framleiðsla og varð árið 2015 (12.285 milljónir árið 2015 og 12.297 milljónir árið 2016). Afar misjafnt var þó á milli einstakra landa hvernig framleiðslan þróaðist á árinu og mestu breytingarnar, í kílóum mjólkur talið, urðu í Svíþjóð annars vegar og Danmörku hins vegar. Breytingin innan þessara landa var þó gjörólík en á meðan landsframleiðslan í Svíþjóð dróst saman um 71 milljónir kílóa þá jókst framleiðslan í Danmörku um 98 milljónir kílóa. Skýringin á þessari þróun felst þó m.a. í heildarframleiðslunni enda eru 98 milljónir kílóa ekki nema 1,9% af 5,4 milljarða kílóa landsframleiðslu.
Eins og við er að búast vegur mjólkurframleiðslan hér á landi ekki þungt í mjólkurframleiðslu Norður­landanna og þar tróna dönsku kúabændurnir á toppnum með 43,7% heildarframleiðslunnar og hækkaði þetta hlutfall á milli ára um 0,8 prósentustig. Svíþjóð er enn næst stærst með 23,3% og þar á eftir kemur svo Finnland með 19,4%.
 
1,4 milljónir mjólkurkúa
 
Á sama tíma og kúabúunum fækkar nokkuð ört, hefur sama hlutfallslega fækkunin á mjólkurkúnum ekki átt sér stað. Þeim fækkaði þó nokkuð á síðasta ári og fór fjöldi þeirra úr 1.453 þúsund kúm í 1.411 þúsund kýr og fækkaði þeim því um 42 þúsund eða um 2,9%. Mest hlutfallsleg fækkun kúa varð í Svíþjóð en þar fækkaði þeim um 5,3%.
 
Þessar kýr mjólka eðlilega mis­mikið eftir löndum, kúakyni og framleiðsluaðferðum en sé horft til þeirrar mjólkur sem skilar sér í afurðastöðvar og svo heildar fjölda kúnna á Norðurlöndunum kemur fram einkar áhugaverð mynd. Mestar afurðir er að finna í Danmörku þar sem 9.443 kíló mjólkur skilar sér í afurðastöð og þar á eftir koma svo sænsku kýrnar sem skila af sér rætt tæplega 9 tonnum af mjólk í afurðastöð. Að jafnaði skilaði hver kýr í afurðastöð 8.715 kílóum mjólkur árið 2016, sem er töluverð framför frá árinu 2015 eða um 258 kíló.
 
Langstærstu búin í Danmörku
 
Meðalbústærðin á Norðurlöndunum er nú komin í 60 árskýr og jókst bústærðin í öllum löndunum á síðast ári í samanburði við árið 2015. Sem fyrr eru dönsku kúabúin langstærst, ekki einungis í samanburði við hin Norðurlöndin heldur einnig eru búin með þeim stærstu í allri Evrópu, og eru að jafnaði með 187 kýr nú. Bústærðin jókst að jafnaði um tæplega 1 árskú í hverjum einasta mánuði síðasta árs í Danmörku. Þar varð einnig hlutfallsleg mest stækkun eða sem svarar til 5,7% á einu ári og er þessi þróun heldur áfram verður fjöldi árskúa í dönskum fjósum kominn yfir 200 snemma árs 2018. Rétt eins og með fækkun búanna, þar sem löndin sem búa við kvóta voru með minnsta fækkun búa þá snýst dæmið við hér og stækka búin mest í þeim löndum sem ekki eru með kvóta-kerfi.
 
Meðalbúið með 526 þúsund kíló
 
Sé horft til ársframleiðslu búanna þá helst hún vel í hendur við bústærðina. Meðalbúið á Norðurlöndunum lagði inn 526 þúsund kíló mjólkur árið 2016 og er þetta í fyrsta skipti í sögunni sem meðalframleiðslan fer yfir hálfa milljón kílóa. Alls nam aukningin 5,8% á milli ára og munar þar mestu um gríðarlega mikla aukningu dönsku kúabúanna, en þar jókst ársframleiðslan um 165 þúsund lítra að meðaltali á hverju búi eða um 10,3%. Meðalbúið í Danmörku lagði inn 1,8 milljónir kílóa á síðasta ári, meðalbúið í Svíþjóð 749 þúsund kíló og finnsku búin voru að  leggja inn 327 þúsund kíló. Norsku kúabúin er þau lang minnstu á Norðurlöndunum en þau voru að jafnaði að leggja inn 177 þúsund kíló mjólkur árið 2016.
 
Ólík þróun með mjaltaþjóna
 
Síðustu árin hefur mjaltaþjónum fjölgað nokkuð jafnt og þétt bæði hér á landi, Noregi og í Finnlandi en þróunin er þveröfug í Danmörku og Svíþjóð. Á mynd 1 má sjá þróun útbreiðslu mjaltaþjónabúa á Norðurlöndunum og eins og sjá má fækkar búnum bæði í Danmörku og Svíþjóð og þá hefur heldur hægst á þróuninni í Finnlandi. Á móti kemur að bæði hér á landi og í Noregi heldur hlutfallsleg fjölgun mjaltaþjóna hratt áfram.
 
Þróun og útbreiðsla mjaltaþjónabúa á Norðurlöndum frá 1998.
 
Mjaltaþjónabúum, upptalin sem starfandi bú 31. desember 2016, fjölgaði á árinu úr 4.444 í árslok 2015 í 4.629 um síðustu áramót eða alls um 185 bú. Um liðin áramót voru mjaltaþjónar á 19,8% kúa-búa Norðurlandanna en hæsta hlutfall þeirra er að finna í Svíþjóð þar sem 26,3% kúabúa landsins eru með mjaltaþjóna. Lægst er þetta hlutfall í Finnlandi þar sem einungis 13,6% kúabúanna eru með mjaltaþjóna. Hér á landi var hlutfallið 25,3% um síðustu áramót.
 
Þá fjölgaði mjaltaþjónum Norð­ur­landanna um 268 á milli ára og fór fjöldi þeirra úr 7.179 um þarsíðustu áramót og í 7.447 mjaltaþjóna um síðustu áramót. Mestan fjölda er enn að finna í Danmörku eða 2.153 mjaltaþjóna, sem er þó fækkun um 41 mjaltaþjón frá árinu á undan. Hér á landi varð mest hlutfallsleg aukning á fjölda mjaltaþjóna en alls fjölgaði þeim um 23 á milli ára sem svarar til fjölgunar upp á 13,9%.
 
 
Snorri Sigurðsson, sns@seges.dk
Sviðsstjóri Mjólkurgæðasviðs, Dýralækninga- og gæðadeildar, SEGES, Danmörku
 
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...