Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Kýr undir Eyjafjöllum
Kýr undir Eyjafjöllum
Á faglegum nótum 24. febrúar 2025

Hugleiðingar um innflutning á nýju kúakyni

Höfundur: Sara María Davíðsdóttir, bóndi á Torfum í Eyjafjarðarsveit.

Nú hefur umræðan um innflutning á nýju kúakyni verið hávær upp á síðkastið eða allt frá því að skýrsla Landbúnaðarháskólans kom út um hagkvæmni þess að flytja hingað til lands nýtt kúakyn.

Sara María Davíðsdóttir

Fyrst eftir að skýrslan kom út ákvað ég að horfa á þetta með mjög opnum hug og íhugaði það lengi hvort þetta væri mögulega lausn fyrir okkur bændur að fara í. Þetta kemur eflaust mörgum bekkjarsystkinum mínum úr Landbúnaðarháskólanum á óvart en jú, þetta gerði ég.

Ég skil vel og finn sjálf sem bóndi að einhvern veginn þarf að brúa bilið í rekstri íslenskra kúabúa þannig að bændur geti greitt sjálfum sér ásættanleg laun, ráðið inn starfsfólk til að minnka vinnuálag, geti viðhaldið búum sínum og tækjakosti og þar fram eftir götunum. Það þarf að finna lausn á því með einhverjum hætti. Hins vegar eftir vandlega íhugun finnst mér þeir bændur sem kalla eftir innflutningi á þessum tímapunkti vera að falla ofan í brunn töfralausnanna.

Ef við hugsum þetta aðeins betur. Jú, vissulega myndu flest erlend kyn, skv. skýrslu Landbúnaðarháskólans, gefa okkur fleiri lítra af mjólk þannig að hagræðing ætti að geta átt sér stað innan hvers bús. Hvað myndi svo gerast? Þau eru ekki mörg fjósin í landinu sem uppfylla reglugerðir fyrir erlend kúakyn og ég þori að leyfa mér að efast um að bændur myndu fara í að fækka kúnum sínum og halda sömu framleiðslu. Allir sem mögulega gætu myndu fara í að byggja fyrir jafnmargar og jafnvel fleiri kýr en menn voru með fyrir af þeim íslensku. Þetta kallar á að framleiðslan í landinu myndi stóraukast, kvótinn yrði marklaus, eða allt flæðandi í umframmjólk, og hér yrði umframframleiðsla sem myndi leiða til lækkunar mjólkurverðs til bænda. Það gefur því auga leið að sú hagkvæmni sem átti að verða við að flytja inn nýja kynið yrði að engu. Bæði þyrfti að fara í gríðarlegan kostnað til að byggja yfir stóru kýrnar en einnig myndi verð á mjólkurlítranum lækka þannig að bændur fengju minna fyrir mjólkina þó svo að hún yrði meiri í lítrum talið. Ég er því voðalega hrædd um að við myndum með þessu útrýma okkur sjálfum.

Þeir sem ekki gætu verið stærstir myndu ekki lifa þetta af og framleiðslan myndi þjappast saman á nokkra staði á landinu í örfá risastór bú. Ég velti fyrir mér hvort að þetta sé það sem við viljum? Hvað með byggðastefnuna? Hvað með að reyna að framleiða landbúnaðarafurðir í sem flestum landshlutum? Hver okkar ætla að víkja til að aðrir geti blómstrað?

Annað sem ég velti fyrir mér er hvort þeir bændur sem þrýsta nú á innflutning hafi hugsað út í það hvernig á að halda íslenska kyninu við? Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að vernda íslenska kúakynið. Hvernig hafa bændur sem vilja innflutning á nýju kyni hugsað sér að gera það? Ætla menn að hafa nokkrar skepnur hér og þar sem gæludýr eða á að reyna að halda í kynið sem ræktunarkyn? Kynið er nú þegar það lítið að ég þori að leyfa mér að efast um að hægt væri að halda áfram ræktun á kyninu ef kúnum myndi fækka.

Á seinustu árum hafa miklir fjármunir farið í arfgerðargreiningaverkefnið sem á að vera stökkpallur fyrir ræktunarstarfið og nú seinast verkefnið með kyngreint sæði sem er á algjörum núllpunkti. Ég velti fyrir mér af hverju við ætlum ekki að gefa þessum verkefnum tækifæri. Við vitum öll að til að sjá þann árangur sem við viljum af báðum þessum verkefnum þurfum við að sýna þolinmæði og gefa þessu mun lengri tíma. Ætla bændur nú bara að henda því frá sér sem er búið að kosta greinina gríðarlegar upphæðir og stökkva í næsta verkefni án þess að gefa þessu einu sinni séns? Ég verð að viðurkenna að sú hugsun fyllir mig vonbrigðum.

Hvað ætlum við svo að gera þegar við eru hálfnuð í þeirri vegferð að flytja hér inn nýtt kyn og áttum okkur á að þetta hafi verið mistök? Gætum við snúið við? Ég held að það yrði ógjörningur.

Við þurfum því að hugsa þetta afskaplega vel og ná að svara öllum þeim mögulegu spurningum sem við bændur höfum áður en þrýst er meira á þetta verkefni. Við getum ekki látið draumóra og töfralausnir stjórna framtíð íslenskrar mjólkurframleiðslu.

Við bændur þurfum að standa saman og einbeita okkur að málum sem er samstaða um í greininni. Það hefur sjaldan verið jafnmikil þörf á því og nú.

Skylt efni: erlent kúakyn

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...