SAH Afurðir hækka afurðaverð um 6,7 prósent og Fjallalamb um 5,7 prósent
Afurðaverð til sauðfjárbænda vegna sauðfjárslátrunar haustið 2020 liggja nú fyrir frá SAH Afurðum á Blönduósi og Fjallalambi á Kópaskeri. SAH Afurðir hækka verð um 6,7 prósent, ef miðað er við verðskrá 2019 að viðbættum álagsgreiðslum. Fjallalamb hækkar verð um 5,7 prósent miðað við verðskrá og álagsgreiðslur 2019.
Reiknað meðalverð SAH Afurða er 492 krónur á hvert kíló dilka, en það er 13,1 prósents hækkun miðað við upphaflegu verðskrána á síðasta ári. Verð fyrir afurðir af fullorðnu verður 114 krónur á kílóið, en það er óbreytt milli ára.
Verð lækkar fyrir kjöt af fullorðnu
Reiknað meðalverð hjá Fjallalambi er 483 krónur á hvert kíló dilka, sem er hækkun um 12,1 prósent frá verðskrá haustið 2019. Verð fyrir afurðir af fullorðnu lækkar hins vegar um 8,6 prósent, úr 121 krónu á kílóið í 111 krónur.