Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurðar í kjölfar riðutilfella sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að búið væri að semja við bændur í Miðfirði um bótagreiðslur vegna niðurskurðar á tveimur bæjum í apríl.
Bændur segja hins vegar að það sé ekki rétt og raunar sé langt í land. Staðhæfing Svandísar kom fram í viðbrögðum við ræðu Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og formanns efnahags- og viðskiptanefndar, sem var málshefjandi sérstakrar umræðu um riðu. „Þetta er nú ekki rétt hjá Svandísi,“ segir Dagbjört Diljá Einþórsdóttir á Urriðaá.
Gekk ekki að vera launalaus
„Við erum að vísu búin að skrifa undir samkomulag um greiðslu á hluta bótanna, sem við teljum að taki mið af úreltri reglugerð, eins og hefðbundnar afurðatjónsbætur og bústofnsbætur – og einnig um þá hluti sem átti að farga úr fjárhúsunum.
Við fórum fram á það að fá þetta greitt svo við gætum haldið áfram að leita réttar okkar, það gekk ekki að vera launalaus í allt haust og vetur. En það hefur nú ekki gengið þrautalaust að fá þetta greitt, ríkið reynir stanslaust að láta okkur skrifa undir samkomulag sem þvingar okkur inn í reglugerð og setur okkur þá skorður seinna meir ef við leitum réttar okkar, eins og hefur sýnt sig í dómsmálum tengdum svipuðum málum.
Ekki búið að skrifa undir heilan samning
Sagði Svandís í ræðu sinni að samkvæmt sínum heimildum innan úr matvælaráðuneytinu hefðu samningar við Miðfjarðarbændur verið undirritaðir á föstudaginn og væri samningaviðræðum þar með lokið.
„Það að við séum búin að skrifa undir heilan samning er ekki rétt og enn langt í land með það býst ég við,“ segir Dagbjört hins vegar.
Mögulegur stuðningur við að taka hraðar inn verndandi arfgerðir
Dúi Jóhannesson Landmark, upplýsingafulltrúi í matvælaráðuneytinu, segir í svari við fyrirspurn um málið að samningar hafi verið undirritaðir við bændur um bætur vegna niðurskurðar vegna riðu sem greindist í Miðfirði í vor.
„Samningarnir ná til þeirra þátta sem sambærilegir samningar hafa gert hingað til og útreikningar byggja á sömu viðmiðum.
Umræddir bændur gerðu í samningunum fyrirvara við ákveðna þætti og munu taka afstöðu til hvernig verði með þá farið. Jafnframt er verið að skoða hvort fýsilegt sé að styðja umrædda bændur við að taka hraðar inn sauðfé með verndandi og hugsanlega verndandi arfgerðir,“ segir í svari Dúa.