Súðavíkurhlíð lokaðist nær 40 sinnum á fyrstu þremur mánuðum ársins
Höfundur: HKr.
Í Súðarvíkurhreppi við Ísafjarðardjúp búa nú um 200 manns, en hreppurinn nær yfir mjög stórt landsvæði. Hann nær frá Súðavíkurhlíð í norðri og inn í botn á Ísafirði, innsta firðinum við Ísafjarðardjúp. Samgöngur eru því eðlilega ofarlega á blaði hjá Súðvíkingum.
Súðavík er komið í ágætar vegasamgöngur við aðra landshluta og samfellt bundið slitlag er á veginum frá Reykjavík til Súðavíkur. Þá er nú unnið að endurbótum og breikkun vegarins í Seyðisfirði og Hestfirði. Það tekur samt um einn og hálfan til tvo klukkutíma að aka á milli enda í sveitarfélaginu. Þá ber að geta þess að vegurinn til Ísafjarðar, þangað sem Súðvíkingar sækja að mestu sína þjónustu, liggur um Súðavíkurhlíð sem oft er lokuð á vetrum vegna snjóflóða eða yfirvofandi snjóflóðahættu. Gripið er til lokana þegar snjóalög eru í hlíðinni og í samræmi við veðurspár og mat á snjóflóðahættu.
Ekkert að frétta af jarðgöngum
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir engar fréttir vera af gerð jarðganga sem leysi af veginn um Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði sem líka geti lokast vegna snjóflóða. Jarðgöng séu ekki á vegaáætlun og algjör óvissa um framvindu þess máls.
„Það var verst að missa Álftafjarðargöng út úr samgönguáætlun. Þótt málinu hafi eitthvað verið hreyft á Alþingi hefur það ekki fengið neinn sérstakan hljómgrunn.
Hátt í 40 lokanir á þrem mánuðum
Það voru hátt í fjörutíu lokanir á Súðavíkurhlíð á fyrstu þrem mánuðum ársins, allt að sólarhring í hvert skipti og stundum lengur. Það þýðir að fólk hefur verið einangrað hér í marga daga og ekki getað sótt þjónustu á milli byggðarlaga. Samt hafa menn hugmyndir um að hér á norðanverðum Vestfjörðum eigi að vera eitt byggðarlag í átaki um sameiningu sveitarfélaga. Hér háttar enn svo til að við verðum jafnvel að senda sjúklinga á milli staða sjóleiðina með björgunarskipi,“ segir Bragi.
Hann segir að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika hvað samgöngur varðar, þá sé gríðarlega gott að búa í Súðavík og mikil samheldni sé meðal íbúa.