Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
vinnslustöðin Vestmannaeyjum, Glófaxi ehf,, sjávarútvegur
vinnslustöðin Vestmannaeyjum, Glófaxi ehf,, sjávarútvegur
Fréttir 14. ágúst 2017

VSV kaupir Glófaxa ehf.

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vinnslustöðin hf. hefur eignast öll hlutabréfin í Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. í Vestmannaeyjum og tekur við félaginu 1. september 2017.

Kaupsamningurinn milli Vinnslu­stöðvarinnar hf. og Glófaxa ehf. var undirritaður með venjulegum fyrirvara um fjármögnun, samþykki stjórnar Vinnslustöðvarinnar og samþykki Samkeppnis­eftirlits á kaupunum. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Í tilkynningu á heimasíðu Vinnslu­stöðvarinnar segir að útgerðarfélagið Glófaxi ehf. geri út tvo báta, nótaskipið Glófaxa VE-300 og línu- og netabátinn Glófaxa II VE-301.

Halda 50 þorskígildistonnum

Seljendurnir, Bergvin Oddsson og fjölskylda hans, halda eftir Glófaxa II og 50 þorskígildistonnum og stunda útgerð áfram.

Bergvin Oddsson, Hrafn Odds­son og Sævaldur Elíasson keyptu Glófaxa VE-300 árið1974 og stofnuðu útgerðarfélagið Snæfell sf. um reksturinn. Bergvin keypti Hrafn og Sævald út 1986 og árið 1994 var nafni félagsins breytt í Útgerðarfélagið Glófaxi.

Með samningi sínum um kaupin á Glófaxa ehf. eykur Vinnslustöðin heildaraflamark sitt um 800 þorsk­ígildistonn.