Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Líf og fjör í Minjasafninu
Menning 21. apríl 2023

Líf og fjör í Minjasafninu

Höfundur: Haraldur Þór Egilsson.

Árið 2022 var sögulegt í mörgum skilningi hjá Minjasafninu á Akureyri sem fagnaði þá 60 ára afmæli.

Afmælisárið var það fjölsóttasta í sögu safnsins, en 48.848 gestir sóttu sýningar, viðburði og fræðslu safnsins. Til að gera gott ár enn betra hlaut Minjasafnið á Akureyri íslensku safnaverðlaunin 2022.

Minjasafnið á Akureyri er í elsta bæjarhluta Akureyrar, Innbænum, við Aðalstræti. Undir það heyra fjögur önnur fjölbreytt söfn. Minjasafnið hefur frá upphafi verið í Kirkjuhvoli, reisulegu íbúðarhúsi frá 1934. Í því og sýningarsölunum sem byggðir voru árið 1978 eru sýningar safnsins. Þar eru nú sýningarnar Hér var verzlun, Tónlistarbærinn Akureyri, Akureyri, bærinn við Pollinn og örsýning um öskudag á Akureyri.

Stærsti gripur Minjasafnsins, svartbikuð timburkirkja, stendur í Minjasafnsgarðinum. Hún stóð upphaflega á Svalbarði austan megin Eyjafjarðar. Hana byggði kirkjusmiðurinn Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni árið 1846 og er hún gott dæmi um íslenskar sveitakirkjur sem reistar voru á Íslandi um miðbik nítjándu aldar.

Næsta hús við kirkjuna er Nonnahús, eitt af kennileitum Akureyrar. Það var bernskuheimili rithöfundarins og jesúítaprestsins Jóns Sveinssonar, sem ólst þar upp til 12 ára aldurs þegar honum bauðst að fara til náms í Frakklandi. Í húsinu er sögð saga hans og fjölskyldunnar en einnig eru þar örsýningar. Þessa dagana er sýning um mat og málshætti en á sumardaginn fyrsta verða sumargjafir í forgrunni.

Litlu norðar við Aðalstræti stendur Friðbjarnarhús, sem nú er kallað Leikfangahúsið af börnum á öllum aldri, enda húsið fullt af leikföngum og auðvitað hægt að leika í leikstofunni. Á efri hæð hússins er fundarsalur góðtemplarahreyfingarinnar sem var stofnuð í þessu húsi af Friðbirni Steinssyni.

Við Bjarkarstíg 6 stendur annað skáldahús sem er undir regnhlíf Minjasafnsins, Davíðshús, heimili skáldsins Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Davíð var fagurkeri á fleira en orðsins list. Húsakynnin bera smekkvísi hans glöggt merki, full af bókum, listaverkum og persónulegum munum, eins og hann skildi við árið 1964, næstum eins og hans sé að vænta innan skamms.

Handan við fjörðinn á leiðinni til Grenivíkur er Gamli bærinn Laufás, einn af merkustu sögustöðum í Eyjafirði. Í Laufási hefur verið búseta frá fyrstu tíð og að líkindum staðið kirkja frá fyrstu kristni. Laufásbærinn er stílhreinn burstabær, dæmigerður fyrir íslenska bæjagerð þess tíma, en þó allmiklu stærri. Bærinn á sér óslitna byggingarsögu allt aftur á miðaldir. Laufásbærinn var endurbyggður á árunum 1853-1882 í tíð séra Björns Halldórssonar en í honum má finna eldri húsakynni og viði til að mynda brúðarhúsið sem er að stofninum til frá 18. öld. Laufásbærinn er í dag búinn húsmunum og áhöldum líkast því sem tíðkaðist í kringum aldamótin 1900.

Bærinn er hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins en Minjasafnið á Akureyri sér um starfsemina og Gestastofuna þar sem er lögð er áhersla á fræðslu um sögu staðarins, hægt að kaupa einfaldar veitingar eða líta í handverks- og minjagripaverslunina þar sem gefur að líta fjölbreytt vöruúrval af frá eyfirsku handverksfólki.

Börn eru alltaf sérstaklega velkomin á söfnin okkar og í sumar verður boðið upp á ratleik milli safnanna. Í sýningum safnsins er lagt upp með að börn og fullorðnir geti leikið sér með einum eða öðrum hætti, þannig má grípa í hljóðfæri, bregða sér í föt fortíðarinnar sem verslunin Tízkan hefur upp á að bjóða, fara í pokahlaup, leika sér með gömul leikföng, ráða dulmál í Davíðshúsi svo nokkuð sé nefnt.

Safnaflóran er því afar fjölbreytt og til að allir geti notið sem oftast gildir aðgöngumiðinn fyrir fullorðna á öll söfnin, út árið, og er ódýrari en þú heldur.

Skylt efni: söfnin í landinu

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...