Fræðst um forystufé
Sunnudaginn 17. mars hefur verið boðað til fræðslu- og skemmtiferðar um forystufé þar sem áhugafólk um féð kemur saman til að spjalla saman um forystuheiminn í sauðfjárrækt, auk þess sem nokkur bú verða heimsótt.
Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð tekur á móti skráningum í ferðina til 13. mars í gegnum skilaboð á Facebook-síðu sinni. „Það stefnir í mjög skemmtilega ferð þar sem fræðst er um forystufé, fjallað er um umdeilt efni á borð við blendinga, forystufé í göngum, skilgreiningu út frá ættum eða eiginleikum eða útliti. Fé verður skoðað á nokkrum bæjum, hlustað á sögur, við deilum reynslu, spyrjum spurninga og fræðumst á skemmtilegan hátt, en þá er tilgangi dagsins náð,“ segir Karólína. Aðalfundur Forystufjárræktarfélags Íslands verður haldinn fyrir hádegi sama dag á Laugarbakka í Miðfirði. Hefst ferðin kl. 13 á bænum Bjargi í Miðfirði en nokkrir bæir verða heimsóttir og forystufé skoðað. Ferðalok eru áætluð klukkan 22.30. Hægt er að vera með allan daginn eða einungis á ákveðnum stöðum.