Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á faglegum nótum 26. febrúar 2019
Vinnuskilyrði undir LED-ljósum
Höfundur: Christina Stadler, Börkur Halldór Bl Hrafnkelsson.
Hefðbundin viðbótarlýsing er mjög orkufrek og kostnaðarsöm. Þess vegna hefur verið leitað eftir ljósum sem nýta orkuna betur og hafa LED ljós verið einn kostur. Það er aukinn kostnaður í upphafi þar sem lamparnir eru dýrari en þeir endast lengur án viðhalds heldur en ljósin sem hafa verið notuð hingað til.
Í tilraunahúsi Landbúnaðarháskólans á Reykjum var gerð tilraun á ræktun jarðarberja með LED ljósum á dimmasta tíma ársins og verður fjallað um þann þátt sem snýr að vinnu undir þeim.
Litamismunur
Rauða birtan sem ljósin gefa frá sér er mjög afgerandi. Það virkar sem litaðir fletir verði dekkri (blöð) og hvítir (hvít beð, hitarör, vökvunarslangir) eða ljósari fletir (ber) endurkasti rauða litnum (mynd 1). Það gerir það að verkum að erfitt er að greina á milli hvort berin séu hálf rauð eða full lituð og þá hvort þau séu fullþroskuð.
Við vinnu með LED ljós þarf að kaupa sérhæfð gleraugu sem draga úr áhrifum rauða ljóssins (mynd 2). Það tekur 15–20 mín. fyrir augun að venjast ljósinu með þessum gleraugum. Ef lítil eða engin náttúruleg lýsing er utandyra þá er allt dekkra en það er í raun. Því er erfitt að vinna við plönturnar á dimmasta tíma ársins þar sem litamunurinn sést ekki. Vegna þess að það lítur út fyrir að allt sé dekkra er líka erfitt að vinna við plönturnar sjálfar: t.d. draga fram klasana, þar sem þarf að horfa á milli blaða til að ná þeim fram og meta hvort blóm er frjóvgað. Þegar kemur til uppskeru, er einnig erfitt að sjá og meta hvort berin séu orðin þroskuð (mynd 3), skemmd, súr eða sprungin. Það er því mikilvægt að skoða vel berin sem fara í öskjurnar þar sem erfitt er að greina ástand þeirra á meðan verið er að tína þau í klefa sem er LED lýstur. Því gæti verið nauðsynlegt að flokka úr öskju eftir á ómarkaðshæf ber. Af þessum orsökum má því álykta að ber sem ræktuð eru með LED lýsingu krefjast mun meiri tíma og athygli en í hefðbundinni lýsingu.
Hins vegar minka áhrifin frá LED ljósunum á sjónina eftir því sem náttúruleg birta eykst og litamismunurinn verður skýrari (bera mynd 4 saman við mynd 3). Því gætu ræktendur á suðlægum slóðum upplifað áhrif LED ljósa minna en ræktendur á Íslandi þar sem áhrif ljóssins eru meira og minna alltaf eins og á mynd 4. Ef LED ljós er notað í bland við aðra lýsingu minnka auðvitað áhrif LED ljóssins á sjónina.
Ef unnið er án sérhæfðra gleraugna í klefanum með LED ljósunum þá virkar birtan fyrir utan klefa sem grænn litur. Það tekur nokkrar mínútur fyrir augun að venjast og hætta að sjá ljósið sem grænt þegar maður fer út fyrir klefann. Það getur komið móða á gleraugun meðan unnið er.
Mismunur á vexti
Undir LED ljósum eru klasarnir og blöðin styttri í samanburði við ræktun undir HPS ljósum. Því er ekki hægt að draga klasana fram eins snemma á ræktunartímabilinu eins og við HPS lýsingu.
Meindýr og sjúkdómar
Mjög erfitt er að sjá hvort meindýr og sjúkdómar séu á plöntunum og það er erfitt að koma auga á mygluð ber.
Christina Stadler,
Börkur Halldór Bl Hrafnkelsson.