Áburðarframleiðsla í augsýn
Sú söguskoðun þekktist og þótti fín að Íslendingar hefðu ekki átt skilið hlutdeild í Marshall-áætluninni eftir síðari heimsstyrjöld vegna þess að þeir hefðu hagnast á stríðsárunum. Þá gleymist að útflutningsmarkaðir brugðust í efnahagshörmungum fyrstu eftirstríðsáranna, síldin hvarf og kreppa og skömmtunaraðgerðir tóku við af hagvexti um fjögurra ára skeið.
Svo hafa sagnfræðingar bent á að Heklugosið 1947 hafi valdið slíkum kuldum í Bretlandi og víðar að kolanámur hafi botnfrosið og Evrópa í raun orðið eldsneytislaus. Þá loks hafi Bandaríkjamenn horfst í augu við ástandið og samþykkt að Marshall-áætlunin tæki við af land- og leigusamningunum sem fjármögnuðu stríðið og sagt hafði verið upp.
Varasöm óvissa í áburðarmálum
Samkvæmt þessu var eldgos á Íslandi ekki minni áhrifavaldur heldur en framsókn kommúnista i Evrópulöndum eftir stríðið sem bandarískum stjórnvöldum stóð einnig ógn af. Marshall-áætlunin bjargaði miklu á Íslandi. Hún var nýtt meðal annars til þess að byggja upp íslenskt atvinnulíf, með virkjunum í Soginu og Laxá og með byggingu Sementsverksmiðjunnar og Áburðarverksmiðjunnar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum eru nú miklar hræringar á áburðarmarkaði vegna sveiflna á gasverði í Evrópu. Framleiðsla á áburði hefur verið skorin niður í álfunni og því fæst ekkert verð í framleiðslu næsta vors með tilheyrandi óvissu. Framleiðslu áburðar á Íslandi lauk með einkavæðingu Áburðarverksmiðjunnar árið 2001 og lokun hennar í framhaldinu. Síðan þá hafa bændur þurft að reiða sig á áburð erlendis frá. Óvissan nú sýnir hversu varasamt það getur verið. Spurt er, hvað er til ráða?
Grænt ammóníak sem orkumiðill
Um daginn skrifuðu Fjarðabyggð, Landsvirkjun og Copenhagen Infrastructure Partners undir viljayfirlýsingu um að koma á fót grænum orkugarði á Reyðarfirði. Viðskiptalíkanið virðist byggja á því að framleiða grænt ammóníak sem rafeldsneyti með umframraforku sem er til staðar í kerfinu á þeim slóðum. Ammóníak er að komast í tísku þessi misserin sem valmöguleiki í orkuskiptum, enda heppilegri og meðfærilegri orkumiðill heldur en hreint vetni. Hægt væri að nota ammóníak sem miðil til að flytja orku og nota svo í rafhlöðum eða fljótandi í tönkum til brennslu. Kosturinn við slíkt er að svo lengi sem endurnýjanleg orka er notuð við rafgreininguna og framleiðsluna losnar lítið sem ekkert kolefni. Þannig mætti ná fram orkuskiptum í stærri tækjum og á lengri leiðum, í skipavélum, flutninga- og vinnuvélum og jafnvel í flugvélum. Mikilvægt er að klára sem fyrst rafvæðingu bílaflotans en það þarf aðrar lausnir fyrir stærri vélar sem þurfa meira afl. Ætli samfélagið á næsta og hæsta stig í orkuskiptum er ammoníaklausnin meðal þess sem koma skal.
Stutt í áburð sé ammoníak til
Verði þessi framleiðsla á ammóníaki að veruleika má ætla að fullkomlega raunhæft sé að setja upp áburðarverksmiðju á nýjan leik fyrir austan. Áburðarverksmiðjan var í raun fimm verksmiðjur sem framleiddu vetni, köfnunarefni, ammóníak og saltpéturssýru auk einnar sem blandaði áburð og sekkjaði. Ef gert er ráð fyrir að ammóníakframleiðsla sé fyrir hendi er ákaflega stutt leið eftir í mark til að framleiða Kjarna – frumframleiðslu Áburðarverksmiðjunnar. Eingöngu þarf verksmiðju sem framleiðir ammóníumnítrat úr nitursýru og ammóníaki.
Ammóníakverksmiðja þyrfti ekki að vera í þeim ógnarskala sem ráðlagt er erlendis til að slík iðjuver gangi upp þar sem fyrirhuguð eru önnur not á ammóníakinu en eingöngu til framleiðslu áburðar. Áburðurinn gæti verið útvegur græns orkugarðs á Reyðarfirði til að dreifa áhættu og fjölga vörum.
Í Bandaríkjunum hafa sprottið upp fjölmargar „litlar“ ammóníaksverksmiðjur síðustu ár, sem allar eru að vísu mun stærri en gamla „ammóníakeining“ Áburðarverksmiðju ríkisins. Ein sú minnsta af þeim framleiðir rúmlega tíu sinnum meira ammóníak heldur en gert var í Gufunesi, eða um 250 tonn af ammóníaki á dag. Fjármagnsþörfin í því verkefni var um 14 milljarðar, eða 160 þúsund krónur á hvert tonn af ammóníaki. Ástæðan fyrir því að þessar verksmiðjur spretta upp er að markaður er fyrir vöruna á svæðunum og eftirspurn eftir áburði með lítið kolefnisspor eykst stöðugt.
Allir innviðir sem þarf fyrir framleiðslu eru til staðar fyrir austan, rafmagn, vatn og hafnaraðstaða í Reyðarfirði, auk þess sem nóg er af lofti til að nota sem köfnunarefnisgjafa. Jarðgas er notað við framleiðslu áburðar víðast hvar. Með því að hefja áburðarframleiðslu að nýju á þann hátt sem hér hefur verið lýst mætti draga úr kolefnisspori við framleiðslu þess áburðar sem óhjákvæmilegt er að nota í landbúnaði. Margar leiðir eru einnig til þess að draga úr þörfinni á tilbúnum áburði en það er önnur saga. Og nú þurfum við enga Marshall-aðstoð!
Kári Gautason
Höfundur er sérfræðingur í úrvinnslu hagtalna hjá Bændasamtökum Íslands.