Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ford Bronco Wildtrak er einn flottast jeppinn á markaðinum í dag. Úr verksmiðjunni kemur hann á 35 tommu dekkjum og vekur sterkt útlitið athygli hvert
 sem ekið er. Allt hefur verið lagt í að útbúa eins gott torfærutæki og kostur er á – en lúxusinn hefur borið skarðan hlut á móti.
Ford Bronco Wildtrak er einn flottast jeppinn á markaðinum í dag. Úr verksmiðjunni kemur hann á 35 tommu dekkjum og vekur sterkt útlitið athygli hvert sem ekið er. Allt hefur verið lagt í að útbúa eins gott torfærutæki og kostur er á – en lúxusinn hefur borið skarðan hlut á móti.
Mynd / ÁL
Líf og starf 15. febrúar 2023

Alvöru græja

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í lok síðasta árs bárust Brimborg fyrstu eintökin af nýrri gerð Ford Bronco – bílategund sem risið hefur upp frá dauðum eftir að hafa verið burtkölluð árið 1996.

Þessir bílar eru útspil Ford til höfuðs Jeep Wrangler, sem um árabil hefur verið eini hrái torfærujeppinn á markaðnum. Broncoinn sem Bændablaðið fékk til prufu var af gerðinni Wildtrak, sem er á 35 tommu dekkjum og með 330 hestafla bensínvél.

Að utan sést að hönnunardeildin hefur haft fyrstu kynslóð Bronco, sem framleidd var á árunum 1966-77, til hliðsjónar. Hringlaga aðalljósin, langt húddið og kassalaga formið vekja hjá áhorfanda hugsanir um gamla tíma. Hlutföllin eru sambærileg og á forveranum, en hér er um stærri bíl að ræða með fernar dyr, í stað tvennra. Þrátt fyrir að bíllinn í þessum prufuakstri hafi verið í hversdagslegum gráum lit var greinilegt að útlitið vakti mikla athygli hvert sem farið var.

Beinar línur og rétt horn er þemað í innréttingunni. Stór margmiðlunarskjárinn sýnir skýra mynd af því sem fram undan er þegar sett er í lága drifið.

Lúxus í lágmarki

Þegar prílað er um borð sést að Ford Bronco er engin lúxuskerra, því fyrir utan leðrið á sætum og stýri er allt meira og minna úr hörðu plasti og gúmmíi – eins og á atvinnubílum. Smekkleg hönnunin og vönduð samsetningin vegur þó upp á móti stífum efnunum og er útkoman í heildina góð. Þemað er beinar línur og rétt horn.

Úti á þjóðvegum fæst endanlega staðfest að munaður hefur ekki verið í forgangi við útfærsluna á Bronco. Mikið veg- og vindhljóð gerir það að verkum að bílstjóri og farþegi þurfa að hækka róminn til að eiga í samræðum. Þakið er útbúið þannig að auðvelt er að taka það af, sem útskýrir litla hljóðeinangrun samanborið við hefðbundnari bíla. Að því sögðu má reikna með að kaupendur þessa jeppa séu tilbúnir til að lifa með þessum vanköntum, því Bronco skarar fram úr sem torfærujeppi.

Ferköntuð hönnunin minnir á jeppa frá gamalli tíð. Ólíkt því sem allir eldri Broncoar áttu sammerkt, þá er þessi með fernar dyr í stað tvennra.

Í sérflokki á vegleysum

Þegar ekið er út fyrir malbikið er bíllinn kominn á sinn heimavöll. Stór dekkin og mikil veghæð gerir akstur yfir vegleysur áhyggjulausan.

Margar akstursstillingar eru í boði og er fljótgert að skipta úr afturdrif í fjórhjóladrif þegar færðin spillist. Þegar drifið er á öllum hjólum er valkvætt að hafa læstan millikassa og því er engum lipurleika fórnað fyrir betra grip. Um leið og smellt er í lága drifið birtist skýr mynd á stórum margmiðlunarskjánum í miðju mælaborðsins sem sýnir það sem er beint fyrir framan bílinn. Þetta er mikill kostur þar sem hátt og langt húddið skyggir annars útsýnið.

Í torfærum er gott að virkja „eins fetils akstur“. Þegar bíllinn er í drive hreyfist hann ekki fyrr en ýtt er á inngjöfina – og rétt lötrar hann þá áfram. Um leið og bensíngjöfinni er sleppt staðnæmist bíllinn – svona eins og þegar gleymist að taka bíl úr handbremsu. Þessi eiginleiki er góður þegar klöngrast er yfir grjót og varasamt yfirborð því ökumaðurinn fær fullkomna stjórn á aksturshraðanum.

Bronco blómstrar í ófærð og snjó. Heilsársdekkin undir bílnum ná góðu gripi og er hægt að aka með miklu sjálfsöryggi þó svo að vegurinn sé háll. Í mjúkri fönn líður bíllinn áfram og er hægt að njóta ferðarinnar áhyggjulaust. Örlítið tækifæri gafst til að reyna bílinn í raunverulegri ófærð og sást að hann hefur allt sem þarf til að brjótast í gegnum dýpstu skafla – enda útbúinn driflæsingum á báðum öxlum.

Aftursætin rúma ágætlega fullorðið fólk.

Alveg praktískur líka

Hvað hinum praktísku hliðum líður þá er gott rými í öllum fimm sætum bílsins – jafnvel fyrir hávöxnustu farþega. Farangursrýmið er 1.019 lítrar að stærð og formað þannig að góð nýting fáist. Afturhlerinn er tvískiptur og opnast vel.

Nóg pláss fyrir farangur í skottinu. 1.019 lítrar.

Margmiðlunarskjárinn er 12 tommu stór og einn af þeim bestu sem í boði eru. Fljótlegt er að tengja símann þráðlaust með Apple CarPlay eða Android Auto og er auðvelt að ráða sig fram úr hinum og þessum stillingum. Valmyndin er yfirleitt tvískipt og er því hægt að sjá bæði útvarpið og akstursstillingar í einu. Blessunarlega er öllu því sem viðkemur miðstöð stjórnað með hnöppum.

Ford Bronco er alfarið bensínbíll. Enginn möguleiki er að fá hann sem tvinnbíl – hvað þá sem rafmagnsbíl. Kaupendur bílsins mega því búast við háum rekstrarkostnaði, því við bestu aðstæður er eldsneytiseyðslan 14 lítrar á hundrað kílómetra. Í þessum prufuakstri var meðaltalið nálægt 19 lítrum, enda ekki ekinn sparakstur og bíllinn í fjórhjóladrifinu mest allan tímann. Vegna mikils útblásturs á hvern kílómetra er hann annars vegar í hæsta vörugjaldaflokknum, sem skýrir hátt kaupverðið, og hins vegar verða bifreiðagjöldin með hæsta móti.

Hægt er að taka þakið af öllum Ford Bronco. Hér sést einn slíkur í Raptor útgáfu, en þeir bílar eru á 37 tommu dekkjum.

Tölur

Ford Bronco Wildtrack kostar 21.360.000 krónur m.vsk. Helstu mál eru: lengd 4.811 mm; breidd m. speglum 2.014 mm; hæð 1.913; veghæð 279 mm; vaðdýpt 924. Eiginþyngd er 2.252 kg og heildarþyngd er 2.785 kg. Vélin er fjögurra strokka 2,7 lítra EcoBoost bensínvél með 330 hestöflum og 557 Nm tog.

Í stuttu máli

Ef þig vantar bráðskemmtilegt leikfang og átt rúmar tuttugu kúlur á lausu – þá er Ford Bronco Wildtrak afburðaskepna. Sé leitað að praktískum lúxusjeppa er rétt að horfa annað.

Skylt efni: prufuakstur

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...