Dílaskarfur
Dílaskarfur er stór sjófugl sem heldur til við Ísland allt árið. Varpstöðvarnar eru að langmestu leyti í hólmum og skerjum í Faxaflóa og Breiðafirði. En á veturna finnast þeir með ströndinni í kringum allt landið. Ein önnur náskyld tegund, toppskarfur, finnst einnig á Íslandi en hann er nokkuð minni. Dílaskarfur er fiskiæta og veiðir fiska með því að kafa eftir þeim. Hans helsta fæða eru botnfiskar líkt og koli og marhnútur en einnig aðrar tegundir. En dílaskarfur ólíkt toppskarfi eiga það til að leita upp með ám og í ferskvatn og veiða silung. Dílaskarfar hafa sést nokkuð langt inn til landsins m.a. við vötn inni á hálendi. Skarfarnir gleypa fiskinn í heilu lagi og jafnvel fiska sem virðast nokkuð stórir miðað við fuglinn. En skarfurinn á myndinni gerðist helst til gráðugur þegar hann náði sér í ansi vænan urriða efst í Elliðaám. Urriðinn hefur líklega verið 1 til 1,5 kg og tókust þeir á nokkurn tíma þar sem skarfurinn gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til að gleypa þennan stóra urriða. Á endanum hafði
urriðinn betur og komst undan.