Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að samkvæmt 5. grein nýlegra breytinga á búvörulögum sé eingöngu fyrstu framleiðendum kjötafurða, sem annast slátrun eða vinnslu þeirra, heimilt að nýta sér nýtt undanþáguákvæði frá samkeppnislögum til samvinnu.
Voru þetta viðbrögð ráðuneytisins við spurningum ESA um tiltekin óvissuatriði breytinganna. Spurt var meðal annars um hversu víðtækar breytingarnar væru og um möguleg áhrif þeirra á félög sem nytu góðs af undanþágunni en væru með aðra starfsemi á sínum vegum sem gæti eftir sem áður fallið undir samkeppnisákvæði EES- samningsins.
Félög sem sinna einnig annarri starfsemi
Sérstaklega óskaði ESA eftir svörum um stöðu þeirra félaga sem undanþágan næði til, en störfuðu einnig í aðfangakeðjunni og við ýmsa aðra þjónustu við bændur.
Matvælaráðuneytið fór ekki út í sjálfstæðar túlkanir á hinum nýja lagatexta í sínu svari, heldur vísaði beint í 5. grein laganna um framleiðendafélög, eins og áður segir. Að í henni komi einnig fram að skýrt skuli tekið fram í samþykktum félags sem starfi sem framleiðendafélag að tilgangur þess sé að starfa sem framleiðendafélag til samræmis við undanþáguákvæðið (71. gr. A).
Ísland hafði heimild
Erindi ESA var sent í byrjun maí, þar sem fram kemur að ESA hafi verið gert viðvart um breytingarnar sem urðu á búvörulögunum og um að matvælaráðuneytið hafi í kjölfarið sent bréf til atvinnuveganefndar, þar sem lýst var áhyggjum af því hvort breytingarnar samræmdust skuldbindingum Íslands gagnvart EES-samningnum.
Í byrjun júní var svo birt álit Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) báðu um til að skera úr um hvort undanþágan um kjötafurðirnar frá samkeppnislögum gengi gegn EES- samningnum.
Niðurstaða Baudenbacher var sú að Ísland hafði heimild til að setja undanþáguheimild frá samkeppnislögum, um kjötafurðir, geymslu og flutning þeirra, í sína löggjöf.