Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að mæta fæðuþörf íbúa og ferðamanna hér á landi, samkvæmt greiningum Bændasamtaka Íslands.

Margrét Ágústa Sigurðardóttir

„Þetta verða stjórnvöld að hafa í huga og það verður fróðlegt að sjá hvort einhver flokkur í komandi kosninga baráttu hafi kjark til að gefa þessu gaum,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri samtakanna.

Undirbúa kerfið fyrir vöxt

Greiningin er hluti af vinnu Bændasamtaka Íslands við að áætla kolefnisspor landbúnaðarins til næstu þrjátíu ára og tekur hún mið af gögnum Hagstofu Íslands um magn matvæla sem fer um hagkerfið. Miðað við spár Hagstofunnar um fólksfjölgun og þróun í komu ferðamanna mun þeim sem verða daglega í mat hér á landi vera nær helmingi fleiri eftir þrjátíu ár en eru í dag og segir Margrét Ágústa að sú staðreynd kalli á stórfellda aukningu íslenskrar landbúnaðarframleiðslu.

„Hvað ætlar allt þetta fólk að borða og hver á að framleiða matinn? Það þarf strax að hefjast handa við að undirbúa landbúnaðarkerfið fyrir þennan vöxt.“

Halda þurfi bújörðum í rekstri, tryggja nýliðun, fjölga bændum og búfé og styðja við aukna og skilvirkari framleiðslu.

„Markmið og forsendur innlends landbúnaðar er að standa skil á þeirri frumframleiðslu sem þarf fyrir þjóðina. Við viljum framleiða hér á landi þær landbúnaðarvörur sem við getum, annað þurfum við að flytja inn. Efla þarf afkomu í landbúnaði, tala fyrir auknum fjárfestingum en um leið tryggja að við byggjum upp landbúnað í takt við kröfur til loftslagsmála og nýtingu auðlinda.“

Margrét Ágústa bendir á að hlutfall innfluttra matvara hér á landi séu um 55–60 prósent. „Við getum ekki reitt okkur á að hafa aðgengi að þessum vörum til frambúðar, í ljósi þess að fram til ársins 2050 þurfa þjóðir heimsins að mæta sömu áskorunum vegna fólksfjölgunar og auka matvælaframleiðslu margfalt frá því sem hún er í dag.“

Samdráttur í losun á hverja framleidda einingu

Aukinni framleiðslu fylgir óhjákvæmilega aukin losun gróðurhúsalofttegunda og segir Margrét Ágústa að því verði erfitt að leggja þá kröfu á landbúnaðinn að draga úr heildarlosun.

„Landbúnaðinn ætti frekar að mæla út frá losun á hverja framleidda einingu. Frá árinu 2005 hefur til að mynda náðst tæplega 30 prósenta samdráttur á hverja framleidda einingu íslenskra matvæla. Þessi árangur er fyrst og fremst tilkominn vegna aukinnar framlegðar í búskap, hvort sem litið er til afurða eða skilvirkari nýtingu aðfanga.

Hins vegar er það aðkallandi verkefni að við framleiðum meira til að við getum mætt þessari auknu eftirspurn og í því skyni þarf að tryggja rekstrarskilyrði landbúnaðarins. Við þurfum að vera sjálfbær því það verður einfaldlega enginn matur hér á borðum ef ekki verður fyrir bændur.“

Ábyrgðarlaust að setja ekki skýra stefnu

Hún segist vonast til þess að málefni landbúnaðar verði sett á dagskrá í kosningabaráttunni. „Það er til lítils að vinna í öðrum stefnumálum ef við höfum ekki burði til að fæða þjóðina með öflugum landbúnaði. Þá er „enginn bóndi – enginn matur“ ekki bara slagorð, heldur einfaldlega staðreynd. Ætlum við virkilega að vakna þegar síðasti bóndinn í dalnum slekkur ljósin? Með skýrri og afdráttarlausri framkvæmd, sem veitir bændum þau verkfæri og stuðning sem þeir þurfa, geta stjórnvöld stuðlað að öflugum og sjálfbærum landbúnaði þannig að við getum haft mat á borðum fyrir alla sem hér búa í náinni framtíð. Ef fram heldur sem horfir, þá er hins vegar vegið að okkar fæðuöryggi, matvælaöryggi og ekki síður þjóðaröryggi. Ég ætlast einfaldlega til þess að frambjóðendur kosninganna taki það til umræðu og setji sér skýra stefnu um það hvernig þeir ætli að efla íslenskan landbúnað þannig að við höfum hér mat á borðum þegar fram í sækir. Annað væri ábyrgðarlaust.“

Skylt efni: matvælaframleiðsla

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...