Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður undir kjötvinnslufyrirtækið Esju gæðafæði.
Að sögn Hinriks Inga Guðbjargarsonar, framkvæmdastjóra beggja fyrirtækja, er það gert til að einfalda rekstur og hagræða í bókhaldi.
Hann segir að með sameiningu ýmissa rekstrarkerfa megi minnka fastan kostnað fyrirtækjanna. Nefnir hann í því samhengi til dæmis bókhaldskerfi. Bæði félögin eru í fullri eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Hinrik Ingi segir það vera stefnu stjórnar þess að fækka kennitölum. Engin breyting er fyrirhuguð á rekstri Sláturhússins á Hellu vegna þessa og starfsgildum mun ekki fækka.
Afurðir Sláturhússins á Hellu fer að mestu leyti í vinnslu til Esju gæðafæðis en Hinrik segir að þeir selji einnig til Kjöthallarinnar og Ferskra kjötvara auk þess sem heimtaka fari vaxandi.
Rekstur beggja fyrirtækja sé stöndugur en helstu áskoranir felist í fækkun sláturgripa. „Ég vildi óska að fleiri gripir væru í boði en ég heyri að öll sláturhús séu að glíma við þetta. Það þarf eitthvað samhent átak til að auka framleiðslu hér heima,“ segir Hinrik Ingi.
Hann segir sölu á kjöti ekki fara minnkandi. „En ég heyri að neyslan er að breytast, menn eru að leita að ódýrara próteini.“ Þannig fari sala á fuglakjöti sífellt vaxandi á kostnað sölu lambakjöts.
Hlutafélagið Sláturhúsið Hellu hf. var stofnað árið 2001en Kaupfélag Skagfirðinga keypti sig inn í fyrirtækið árið 2014. Í dag starfa hjá fyrirtækinu um rúm 20 einstaklingar og er megináhersla þess slátrun og
vinnsla nautgripa og hrossa.
Esja gæðafæði ehf. hefur verið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga frá því árið 2016. Kjötvinnslan er staðsett að Bitruhálsi í Reykjavík sem þaðan vinnur vörur og selur til mötuneyta, veitingahúsa, hótela og verslana. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 75 talsins.