Tveir nýir feldhrútar á sæðingastöð
Eins og nýlega hefur verið greint frá hér í blaðinu er feldfjárrækt nú komin inn í Fjárvís og í nýútkominni Hrútaskrá má finna tvo nýja „feldhrúta“ sem komnir eru á sæðingastöð.
Árni Brynjar Bragason, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að hrútarnir séu ólíkir.
„Annar þeirra, Silfurprúður, kemur úr gamalgrónu ræktuninni á Melhól og dæmdist mjög vel sem lamb, feldlega séð,“ útskýrir Árni.
„Hinn heitir Bárður, en hann er aftur afrakstur sæðinga síðustu ára utan V-Skaft. Fæddur á Bjarnahöfn á Snæfellsnesi þar sem feldfjárrækt hefur aðeins verið reynd en faðir hans er fæddur hjá Ólafi Helga Ólafssyni, frístundabónda í Ólafsvík, sem aðeins er að prófa þessa ræktun líka.“
„Þessi stöðvarhrútur var síðan seldur sem haustlamb að Glitstöðum í Norðurárdal þar sem hann hefur verið að gefa ótrúlega góð feldgæði þó hann sé aðeins 63 prósent af feldfjárættum. Hann er tekinn inn á stöð núna til að fá nýtt blóð að hluta og þá ekki síst hugsaður til nota fyrir stærstu hjarðir feldfjár á Suðurlandi,“ segir Árni enn fremur um Bárð.
Hrútaskráin er nú aðgengileg á vefnum, hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, þar sem hægt er að fá ítarlegri upplýsingar um þessa tvo tvo nýju feldhrúta.