Frá Grundarfirði á Snæfellsnesi.
Frá Grundarfirði á Snæfellsnesi.
Mynd / Tómas Freyr
Á faglegum nótum 27. nóvember 2024

Gestir eru boðnir velkomnir á Snæfellsnes, á forsendum heimamanna, og undirbúningsvinna er mikilvæg

Höfundur: Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsnes, M.Sc í umhverfisfræðum frá NMBU (Umhverfis- og lífvísindaháskóla Noregs).

Ferðaþjónusta hefur vaxið ört á Snæfellsnesi á þessari öld. Þegar mörg hundruð þúsund gestir heimsækja árlega samfélag þar sem rúmlega 4.000 manns búa allt árið um kring, þá skapast sannarlega bæði tækifæri og áskoranir.

Tómas Freyr

Undirrituð hélt erindi um þá reynslu Snæfellinga á norrænu skipulagsráðstefnunni PLANNORD í haust. Sveitarfélög eru það stjórnvald sem næst er íbúum sínum og skipulagsvaldið er sterkt. Við þurfum þekkingu, samvinnu og rannsóknir til að búa til sem besta umgjörð fyrir ferðaþjónustu á forsendum heimamanna. Samfélög manna þurfa húsnæði, vegi o.fl. Það þarf að tryggja að hægt sé að koma fiskum úr bátum við hafnir og á markað, án þess að gestir, sem eðlilega eru forvitnir um atvinnulíf og almennt menningu heimamanna, þvælist fyrir. Ekki má fæla lömb frá mæðrum sínum á sumrin því mjólkin og móðurástin er forsenda þess að lömbin vaxi og dafni vel. Gestir þurfa að fara varlega bæði við skoðun á villtum dýrum og húsdýrum svo dæmi séu tekin. Best er að búið sé að byggja upp aðstöðu fyrir slíkt og a.m.k. stýra aðgangi. Við viljum að íbúar og gestir geti farið um Snæfellsnes gangandi, hjólandi, ríðandi, á skíðum o.fl., það er gott bæði fyrir lýðheilsu og umhverfi. Hér hafa verið byggð upp fjölmörg almenningssalerni sem mörg eru opin allan sólarhringinn. Hér eru ekki hættulegir staðir en það er til hættuleg ferðahegðun og vönduð upplýsingagjöf er mikilvæg. Við viljum að gestir komi aftur, dvelji lengur og mæli með Snæfellsnesi við aðra.

Þetta eru allt stór verkefni og verða eflaust aldrei endanlega búin en mikilvægt er að taka eins stór skref og hægt er hverju sinni og vinna eftir skipulagi og áætlun. Alveg eins og þegar við bjóðum gestum heim; húsráðendur ákveða hvar gestirnir dvelja og hvað boðið er upp á. Það koma eðlilega upp hagsmuna- árekstrar, milli atvinnugreina og íbúa. Það er þó flestum íbúum á Snæfellsnesi ljóst að ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein sem skapar tekjur og störf. Það er gestum okkar líka að þakka að íbúar geta nú valið úr góðum veitingastöðum og farið í atvinnuleikhús svo eitthvað sé nefnt. Við viljum því svo sannarlega fá gesti og vanda okkur saman við að taka á móti þeim.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes rekur íbúa- og gestastofu Snæfellsness í félagsheimilinu Breiðabliki og þar er opið alla daga ársins.

Snæfellsjökulsþjóðgarður er Snæfellingum og gestum okkar dýrmætur og rekur m.a. tvær þjónustu- og gestastofur.

Upplýsingamiðstöðvar eru að auki starfræktar á vegum sveitarfélaga á Snæfellsnesi.

Þannig að það á að vera auðvelt að fá upplýsingar og skipuleggja ábyrga og ánægjulega ferð á Snæfellsnes.

Með þessum orðum er ekki reynt að segja að öll verkefni séu komin í höfn, langt frá því. En Snæfellingar hafa búið til farveg fyrir samstarf og unnið saman; sveitarfélögin og félög úr atvinnulífi. Snæfellingar hafa alltaf þorað að taka slaginn og það er hraustleikamerki að þegar fólk er ekki sammála sé til farvegur til að ræða mál til niðurstöðu.

Eitt af því sem unnið er að er að koma fallegu þorpunum og bæjunum á norðanverðu Snæfellsnesi; Stykkishólmi, Grundarfirði, Ólafsvík, Rifi og Hellissandi, betur á framfæri sem áfangastöðum í ferðaþjónustu. Margir staðir hafa líka verið byggðir upp á sl. árum um allt Snæfellsnes; hellir, fossar, margvíslegar gönguleiðir og útivistarstígar.

Gott samstarf er við Markaðsstofu Vesturlands, heimamenn koma á framfæri hvað eigi að markaðssetja, bæði í náttúru og menningu, og ekki allt er í boði. Eingöngu staðir og ferðaleiðir sem hlotið hafa leyfi viðkomandi landeigenda og sveitar- félags eiga að vera markaðssettir.

Mikil gróska er í listum og menningu.

Á Snæfellsnesi hefur náttúruvernd og sjálfbær landnýting byggst á framsýni og áhuga íbúa, atvinnulífs og sveitarfélaga síðustu áratugina og samstarf er sjálfsagður útgangspunktur. Yfir 200 Snæfellingar tóku t.d. þátt í að búa til Svæðisskipulag Snæfellsness 2014–2026; Andi Snæfellsness, auðlind til sóknar, en öllum íbúum var boðið að vera með í að búa til þá stefnumarkandi aðgerðaáætlun.

Þar er fléttað saman vernd, sjálfbær nýting og áhersluverkefni í byggðaþróun. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var svo stofnaður 2014 til að framkvæma þau verkefni sem Snæfellingar ákveða árlega að ráðast í saman. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er fjölþætt samstarf allra fjögurra sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og félaga úr atvinnulífi. Hlutverk svæðisgarðsins er að efla samfélagið, vinna sameiginlega að því að bæta lífsgæði og lífskjör og auka upplifun og vellíðan íbúa og gesta á Snæfellsnesi.

Grasrótarverkefni um svæðisbundið samstarf, þar sem sjálfbær auðlindanýting er höfð að leiðarljósi, getur verið gríðarlega öflugur drifkraftur í byggðaþróun.
Þegar upp er staðið er þetta allt gert til þess að auðvelda ungu fólki á hverjum tíma að grípa tækifæri til að lifa og starfa á Snæfellsnesi. Til þess þurfa auðlindir að vera í góðu ástandi og gróska í samfélaginu.

Við blasa stórar áskoranir og við viljum enn meiri samvinnu, frekari rannsókir og þekkingarmiðlun.

Við lifum á tímum breytinga og hluti ferðamanna vill velja eða dvelja, læra um náttúru og menningu, borða snæfellskan mat, upplifa og jafnvel gefa til baka t.d. með þátttöku í lýðvísindaverkefnum.

Hluti af heimavinnu íbúa á Snæfellsnesi er svæðismörkun og kjarninn í henni eru sögur og að tengja þær við staði og hvert annað

Á Snæfellsnesi virða íbúar einstakan náttúru- og menningararf, nýta og viðhalda honum, með áherslu á byggðaþróun, atvinnustarfsemi, skóla- og rannsóknarstarf og daglegt líf. Svæðið er því eftirsótt til búsetu og ferðalaga og Snæfellsnes er sterkt vörumerki. Nýja heimasíðan, www. snæfellsnes.is, auðveldar bæði íbúum og gestum að fylgjast með því sem í boði er.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...