Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Guðmundur Gunnarsson, Jóhanna Eldborg Hilmarsdóttir og Kristófer Freyr Guðmundsson eignuðust útihús í Fjárborg í Reykjavík í lok árs 2020 og verða með 23 kindur í vetur. Guðmundur er úr Dýrafirði, Jóhanna er alin upp í Vestmannaeyjum og er Kristófer fæddur og uppalinn Skagfirðingur.
Guðmundur Gunnarsson, Jóhanna Eldborg Hilmarsdóttir og Kristófer Freyr Guðmundsson eignuðust útihús í Fjárborg í Reykjavík í lok árs 2020 og verða með 23 kindur í vetur. Guðmundur er úr Dýrafirði, Jóhanna er alin upp í Vestmannaeyjum og er Kristófer fæddur og uppalinn Skagfirðingur.
Mynd / ál
Viðtal 26. nóvember 2024

Fjárbændur í borginni

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Jóhanna Eldborg Hilmarsdóttir, Guðmundur Gunnarsson og Kristófer Freyr Guðmundsson standa saman að fjárbúskap í Fjárborg í Reykjavík.

Á Hólmsheiðinni í útjaðri byggðar Reykjavíkur er fjárhúsahverfið Fjárborg þar sem Jóhanna, Guðmundur og Kristófer eiga saman 23 kindur. Þau eignuðust fjárhúsin í lok árs 2020, en þau ákváðu að fara þessa leið í sauðfjárrækt þar sem þau höfðu ekki færi á að kaupa sér jörð og flytjast búferlaflutningum af höfuðborgarsvæðinu.

Þau segjast hafa lengi blundað með þann draum í maganum að fara í fjárbúskap, en þau eru öll utan af landi og komin undan bændum. Guðmundur er úr Dýrafirði og eiga Jóhanna og Kristófer ættir að rekja til Fljótanna í Skagafirði. Jóhanna og Guðmundur eru hjón og er Kristófer náfrændi Jóhönnu.

„Þetta er mikið til landsbyggðarfólk sem er hérna í sauðfjárrækt,“ segir Jóhanna. Þremenningunum telst til að það séu kindur í ellefu fjárhúsum í hverfinu. Í þremur húsum hafa fleiri en einn tekið sig saman um reksturinn en svo eru dæmi um einstaklinga sem vilja eiga eina eða tvær kindur og fá aðstöðu hjá öðrum. Í Fjárborg eru samtals 177 vetrarfóðraðar kindur. Á höfuðborgarsvæðinu er jafnframt sauðfjárhald í Garðabæ, Álftanesinu, Kópavogi, Mosfellsbæ og Kjalarnesi. Þar að auki eru kindur hjá dr. Ólafi Dýrmundssyni í Breiðholtinu.

Í Fjárborg í Reykjavík eru 177 vetrarfóðraðar kindur í ellefu fjárhúsum.
Endurnýjuðu fjárhúsin

Þegar þau byrjuðu með fjárbúskapinn árið 2020 segir Jóhanna að þau hafi oft „hringt í vin“ fyrstu misserin, en faðir Kristófers gat gefið ráð þar sem hann hefur lengi stundað fjárbúskap. „Svo er það þannig hérna í Fjárborg að fólk hjálpast að. Maður getur farið yfir til nágranna og það er rölt yfir með manni og spáð og spekúlerað og fundnar lausnir,“ segir Jóhanna. „Þetta er eins og með allt dýrahald. Þú kemur þér í samband við þá sem eru reynslumeiri, vita meira og kunna meira.“ Guðmundur bætir við að þau hafi orðið sér úti um mikið fræðsluefni sem þau hafa lesið til að læra sem mest um sauðkindina.

Þríeykið hefur endurnýjað fjárhúsin á undanförnum árum. Fyrst voru kindurnar á taði en í fyrrasumar endurbyggðu þau hluta mannvirkisins og komu fyrir grindum og stækkuðu rýmið. Gaflinn af gamla húsinu sést enn þá þegar farið er inn í fjárhús og sést stærðarmunurinn ágætlega.

Kristófer stendur við gafl fjárhúsanna þar sem stærðarmunurinn á nýju og gömlu byggingunni sést.
Þurfa ekki að skipta dögum

„Þetta er vinna, en þetta er skemmtileg vinna,“ segir Jóhanna. Þau fara í húsin minnst einu sinni á dag til að gefa en vakta kindurnar stöðugt í gegnum myndavélabúnað. „Okkur finnst þetta svo skemmtilegt að við hittumst öll hérna að vinnudegi loknum og gefum í staðinn fyrir að skipta dögunum á okkur,“ segir Jóhanna.

„Það er rosalega friðsælt eftir annasaman dag að koma í húsin og fara í þessa verklegu vinnu við að hreinsa jöturnar og gefa,“ heldur Jóhanna áfram. Kristófer bætir við að umgengnin í kringum sauðféð feli í sér ákveðna núllstillingu.

Fullnýta skepnuna

„Það á ekkert að vera einlitt,“ segir Guðmundur. Jóhanna tekur fram að þau séu markvisst að rækta sem flesta sauðfjárliti en hún segist hafa gaman af fleiri hliðum ræktunar. „Ég velti því mikið fyrir mér hvernig maður á að para saman til að fá sem sterkasta og heilbrigðasta afkvæmið með góða byggingu,“ segir hún.

Í stofninum eru fjórar hvítar kindur sem eru sérstaklega hugsaðar til að gefa af sér væn lömb, en Jóhanna segir nauðsynlegt að fá kjöt í frystikistuna. „Við slátrum heima til einkaneyslu en það sem er umfram það hefur verið sent í sláturhús,“ segir hún og bætir við að þau reyni að nýta skepnurnar eins mikið og hægt er. Til að mynda hafa þau látið spinna ullina af sínum ám og hefur Jóhanna prjónað peysur.

Þá gera þau svið og nýta allan innmat og segist Jóhanna hafa lagt sig fram við að hitta eldri húsmæður úr sveitum til að fá gamlar uppskriftir af bjúgum og hangikjöti og til að læra verklagið við nýtingu innmatarins. Með því segir hún sauðfjárræktina gefa þeim mun meira en ef þau létu duga að senda lömbin í sláturhús.

Ákveðin núllstilling felst í því að fara í fjárhúsin eftir vinnu til að sinna kindunum.
Samkomuhús og viðburðir

Í Fjárborg er fjáreigendafélag og er mikil samvinna í kringum skepnuhaldið, eins og þegar kemur að viðhaldi girðinga, dreifingu áburðar á tún og fleira. Í götunni er samkomuhús og hefur félagið staðið fyrir aðventukaffi og þorrablótum. Þegar blaðamaður ræddi við þríeykið var hafinn undirbúningur að hrúta- og gimbrasýningu sem fór fram þann 16. nóvember síðastliðinn. „Það verður bikar fyrir flottasta hrútinn og flottustu gimbrina og viðurkenning fyrir flottasta litinn,“ segir Jóhanna. Hún bendir á að fjáreigendurnir í hverfinu séu með mikinn metnað og kemur matsmaður á staðinn til að taka sýningargripina út.

Jóhanna segir að fjáreigendafélagið sé núna að berjast fyrir því að fá að nýta áfram beitartún sem er rétt við Fjárborg en er búið að deiliskipuleggja sem byggingarland. „Við erum mjög háð því að hafa tún,“ segir hún og telur að ef þau missi aðgengi að beitarhólfi verði fjárhaldi á staðnum sjálfhætt, enda
nauðsynlegt að geta sleppt kindunum út á vor- og haustbeit.

Guðmundur bendir á að ekki hafi tekist að undirrita lóðaleigusamninga fjáreigenda við borgina þrátt fyrir að þeir séu svo gott sem tilbúnir. Hann telur að það aftri uppbyggingu í hverfinu, en það á eftir að koma fyrir frárennsli, hitaveitu og götulýsingu. Hann er bjartsýnn á að samningar náist en þetta hafi verið óklárað verkefni of lengi.

5 hlutir sem þau Jóhanna, Guðmundur og Kristófer geta ekki verið án

1. Kaffistofan: „Hérna tengjast allir.“

2. Myndavélakerfið: „Nauðsynlegt til að fylgjast með.“

3. Smágrafan: „Við nýtum hana í nánast allt.“

4. Skóflan: „Ég get notað skóflu í ýmislegt.“

5. Hjólbörurnar: Gagnast til að flytja hluti.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt