Keldur skipta sköpum
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er vísinda- og rannsóknastofnun þar sem fram fara rannsóknir og greiningar á dýrasjúkdómum.
Keldur eru eini vettvangurinn í landinu þar sem rannsóknir fara fram á dýrasjúkdómum og eru í raun dýraheilbrigðisstofnun landsins. Sjúkdómar í flestum spendýrategundum Íslands og allmörgum fugla- og fisktegundum eru rannsakaðir. Starfsemin er mjög fjölþætt og aðferðum margra fræðigreina er beitt í grunn- og þjónusturannsóknum, þ.e. líffærameinafræði, örverufræði, ónæmisfræði, sníkjudýrafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði.
Rannsóknastarfsemi hófst á Tilraunastöðinni fyrir hartnær áttatíu árum, m.a. fyrir tilstuðlan Rockefeller Foundation – styrks í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Ríkið keypti jörðina Keldur í Mosfellssveit með öllum mannvirkjum, ásamt eyðibýlinu Keldnakoti árið 1941.
Í fyrstu var aðstaðan á Keldum nýtt til dýrahalds en fyrsta rannsóknastofuhúsið reist árið 1948 og varð stofnunin á komandi árum einhver öflugasta vísindastofnun Evrópu.
Rannsóknir Björns Sigurðssonar forstöðumanns og samstarfsmanna hans á Keldum á mæðivisnu í sauðfé lögðu grunninn að þekkingu vísindanna á sjúkdómsvöldum lentiveira sem er ættkvísl í fjölskyldu retroveira. Til lentiveira heyrir m.a., auk mæði-visnuveirunnar, einnig eyðniveiran (HIV) sem veldur eyðni (AIDS) í mönnum. Þegar síðan eyðniveiran uppgötvaðist í mönnum um 1982 var sá þekkingarsjóður sem til hafði orðið á Keldum við rannsóknir á mæði-visnu í sauðfé enn mikilvægari.
Keldur standa enn mjög föstum fótum akademískt en líða að einhverju marki hin seinni ár fyrir fjárskort til uppbyggingar starfseminnar. Í dag fer starfsemin fram í u.þ.b. 5.000 m2 af sérhæfðu rannsóknahúsnæði, í þremur meginbyggingum, auk öryggisrannsóknastofuhúss, krufningarhúss og gripahúsa, þ.m.t. einangrunarhúsa, í fallegu dalverpi þar sem tún teygja sig til sjávar og gróskumiklar hæðir eru ofan við.
Dýraheilbrigði forsenda
Tilgangur rannsókna á Keldum er að efla skilning á eðli sjúkdóma og skapa nýja þekkingu. Heilbrigð dýr eru enda forsenda arðvænlegs landbúnaðar og fiskeldis. Einnig er mikilvægi heilbrigðra dýra sem bera ekki sjúkdóma í menn, hvati að hagnýtingu rannsóknanna, að sögn forstöðumanns Keldna, Sigurðar Ingvarssonar prófessors.
Tilraunastöðin er í nánu samstarfi við atvinnulífið, má þar nefna landbúnað, fiskeldi, matvælaframleiðslu og líftækniiðnað. Starfið er rótgróið og gott dæmi um samlegðaráhrif vísindastarfs og atvinnulífs.
Keldur tengjast læknadeild HÍ en stofnunin er sjálfstæð A-hluta ríkisstofnun með sérlög, stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Um fimmtíu manns starfa þar að jafnaði og nú eru stöðugildin 47, samkvæmt Kristínu Kalmansdóttur framkvæmdastjóra. Keldur heyra undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. Um helmingur af rekstrarfé kemur af fjárlögum og hinn helmingurinn eru greiðslur fyrir þjónusturannsóknir, en er þó breytilegt. Þá fær stofnunin á hverjum tíma þó nokkra styrki úr samkeppnissjóðum til grunnrannsókna.
Áform um nýtt blandað íbúða- og atvinnuhverfi í Keldnalandi munu, að sögn Kristínar, ekki hafa mikil áhrif á núverandi starfsemi, heldur þvert á móti bjóða upp á ýmis ný tækifæri. Keldur verði áfram á sínum stað en væntingar eru um að stækka megi og byggja frekar upp aðstöðu, sem vaxandi þörf er fyrir.
Grundvallarrannsóknir
Á Keldum er fagleg forysta á ýmsum fræðasviðum og mikil þekking og reynsla. Helstu fræðasviðin eru príonfræði (prótínsýklar), veirufræði, bakteríufræði, sníkjudýrafræði, meinafræði, ónæmisfræði, sameindalíffræði og tilraunadýrafræði.
Yfirgripsmikil rannsóknarverkefni síðustu ára eru fjölmörg, m.a. ónæmis- og sjúkdómafræði fiska, sýklalyfjanæmi, sumarexem í hestum og veirur í sauðfé, nautgripum og hestum, sauðfjárriða og skyldir sjúkdómar, frjósemisrannsóknir og rannsóknir á erfðum. Dæmi um verkefni á borði Keldna nýverið er greining fuglainflúensu í kalkúnum. Þegar sýni eru jákvæð, þ.e. smit staðfest, tekur Matvælastofnun við boltanum og skipuleggur eftirlit og aðgerðir. Samvinna er við Hafrannsóknastofnun og einnig Matís, sem einbeitir sér þó fremur að matvælum, en Keldur að dýraheilbrigði.
Deildaskipt starfsemi
Á Keldum eru þrjár meginfagdeildir og landsbundnar tilvísunarrannsóknarstofur á sjö fagsviðum, sem eru í samstarfi við tilvísunarrannsóknarstofur í Evrópu, hver á sínu sviði. Unnið er eftir vottuðu gæðakerfi og faggilding er á völdum prófunaraðferðum samkvæmt alþjóðlegum staðli.
Kristín útskýrir að stofnunin sinni þjónusturannsóknum þar sem send eru inn sýni og greitt er fyrir greiningu, síðan eru grunnrannsóknir og þá frumkvæðisrannsóknir. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að sem flest sýni berist Keldum til að unnt sé að hafa yfirsýn yfir sjúkdómastöðu í landinu.
Tilraunastöðin hefur þjónustuskyldu við greiningar á dýrasjúkdómum og smitefnum, en þær eru unnar í nánum tengslum við grunnrannsóknirnar til að samlegðaráhrif verði sem mest. Auknar kröfur eru í eftirliti og gæðamálum, m.a. vegna útflutnings og því hafa skimanir fyrir smitefnum, sem ekki hafa greinst í landinu, aukist á síðustu árum.
Fæstir gera sér líklega grein fyrir að t.d. kjúklingum er ekki slátrað fyrr en komið er grænt ljós frá Keldum um að þeir séu hæfir til neyslu. Öll fuglainflúensusýni eru sömuleiðis greind á PCR-rannsóknastofunni og voru höfð snör handtök þegar rökstuddur grunur var um slíkt á kalkúnabúi nýverið og því unnt að stöðva smitmögnun samdægurs.
Zophonías O. Jónsson, stjórnarformaður Keldna, segir þá sem yfir fjármagninu ráða ekki gera sér fulla grein fyrir mikilvægi tilvísunarrannsóknarstofanna og huga mætti betur að því að tryggja vöxt þeirra og viðgang í vaxandi verkefnum. Dæmin hafi sannað hversu áríðandi sé að þær hafi mannafla og tæki til að bregðast hratt við.
Þau benda á að séu sýni send erlendis geti greining dregist um marga daga, auk þess sem ekki sé víst að þau hljóti forgang umfram önnur í þeim hafsjó sýna sem verið sé að afgreiða.
Stjórnsýsludeild annast auk fjármála og reksturs búsýslu og dýrahald. Um 45 hross og 20 kindur eru haldin á Keldum um þessar mundir. Þá eru oft á tíðum fiskar í kerjum til rannsóknar þótt svo sé ekki í augnablikinu. Keldur eiga skv. lögum að ala og halda tilraunadýr fyrir rannsóknastofur landsins, s.s. mýs, rottur og marsvín, og er aðstaða fyrir þau dýr.
Þá er á torfunni aðgerðastofa þar sem læknar á Landspítalanum geta gert aðgerðir á kindum, sem eru svæfðar og sofna svo svefninum langa. Þar geta m.a. fæðinga-, bæklunar- og bráðalæknar æft og viðhaldið handtökum í aðgerðum sem sjaldan eða aldrei eru framkvæmdar á fólki og er gríðarlega mikilvæg þjálfun fyrir þá.
Viðbragðssjóðs er þörf
Forsvarsmenn Keldna telja vanta nokkurs konar viðbragðssjóð. Undanfarin tvö til þrjú ár hafi komið upp hið minnsta ein krísa á ári tengd ógn við dýraheilbrigði, eitranir, sjúkdóma o.fl. Matvælastofnun stýrir aðgerðum og sendir rannsóknabeiðnir til Keldna, sem rukkar Matvælastofnun fyrir, en stofnunin þarf svo að herja á matvæla ráðuneytið í kjölfarið um aukafjármagn til að greiða fyrir vinnuna. Viðbragðssjóður myndi leysa þann hnút og fjármagnsskortur í viðbragði getur haft áhrif á ákvarðanir, t.d. um hversu langt sé gengið.
Mest púður hafi farið í riðuna, sem sé þó ekki eina né endilega stærsta ógnin. Meinvirk gerð fuglaflensu sé t.a.m. búin að vera í villtum fuglum sl. þrjú ár en nú hafi hún stungið sér niður á alifuglabúi, sem sé verulegt áhyggjuefni. Smitandi hósti í hrossum hafði gríðarleg áhrif á þá grein og inflúensa eða alvarlegar herpesveirur megi alls ekki berast í íslenska hestinn. Faraldur hitasóttar í hrossum 1998 hafi valdið kórónuveiru sem á þeim tíma var óþekkt í hrossum. Einnig má geta caliciveirusmits í kanínum sem drápust unnvörpum. Afrísk svínapest grasseri erlendis, fari frá villisvínum inn á svínabúin og geti borist með matarúrgangi. Þannig sé margt að varast.
Sérstaða landsins
Á Íslandi eru einstakar aðstæður fyrir ýmis rannsóknar-, vöktunar- og skimunarverkefni. Aðstæðurnar hafa skapast vegna landfræðilegrar legu landsins og stærðar þess. Einnig skiptir máli að vöktun, eftirlit og skráning dýrasjúkdóma ersívaxandi.Vegnaeinangrunarhafa húsdýr á Íslandi ekki verið útsett fyrir mjög mörgum smitefnum og/ eða mismunandi stofnum þeirra í sama mæli og víðast erlendis. Vegnaþessgeturfjöldiþekktraoglítt þekktra smitefna valdið faröldrum hérlendis í dýrum. Einnig fyrirfinnst tegundafæð í íslenskri náttúru. Rannsóknir á slíkum efnivið hafa gefið Keldum sérstöðu, að sögn forsvarsmanna. Vaxandi lífsýnasöfn gefi jafnframt aukna möguleika á nýjum samanburðarrannsóknum af ýmsum toga.
Stöðug þróun er á fræðasviðum sjúkdómalíffræðinnar varðandi þekkingu og aðferðir. Nýjar aðferðir sem auka greiningarhæfni, afkastagetu og afkastahraða eru teknar í notkun. Sjálfvirkni og tölvuvæðing mælingatækja, auk tengsla þeirra við myndgreiningar, eru í hraðri þróun. Flókin úrvinnsla gagna er tölvuvædd í auknum mæli.
Mæta þarf breytingum
Ýmsar áskoranir eru fram undan, að sögn forsvarsmanna. Má þar nefna aukna hnattvæðingu með ferðalögum og vöruflutningi sem skapar ný viðmið í allri hugsun um dreifingu smitsjúkdóma í mönnum, dýrum og plöntum. Með auknum innflutningi ferskra landbúnaðarvara og aukinni ferðamennsku, er einstakri smitsjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna ógnað. Hætta er á að ný smitefni, sem munu hafa áhrif á heilsu manna og dýra, berist út í lífríkið. Sýklalyfjaónæmar bakteríur valda auknum heilsufarsvandamálum. Aðstæður í umhverfigetahaftáhrifádreifingu sjúkdóma, s.s. loftslagshlýnun og breytingar á vistkerfum (t.d. skóglendi og votlendi). Fiskeldi er stundað í auknum mæli. Vinna þarf eftir nýjum tilskipunum Evrópusambandsins og innleiðingu löggjafar.
„Framtíðarsýnin er skýr m.t.t. þess hvernig efla má fræðasviðin,“ segir Sigurður. „Breytingar eru fram undan á loftslagi, ferðamannastraumi, flutningi fóðurs, matvæla og dýraafurða, vexti í fiskeldi, inngripum mannsins í vistkerfi o.fl. Þetta kallar á uppbyggingu innviða og aukinn viðbúnað og viðbragðsþjónustu. Mikilvægt er að við rannsökum hvaða þýðingu þessar breytingar hafa fyrir dýrasjúkdómastöðuna á Íslandi,“ segir hann.
Tilraunastöðin er í öflugu tengslaneti vísindastarfs á alþjóðavísu.
Hlutverk Keldna skv. lögum er m.a.:
- Að stunda grunnrannsóknir í líf- og læknisfræði dýra og manna.
- Að annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdóms- greininga og sjúkdómavarna fyrir búfé og önnur dýr í samstarfi við yfirdýralækni og þróa aðferðir í því skyni. Enn fremur að vera yfirdýralækni til ráðuneytis um allt er varðar sjúkdóma í dýrum og varnir gegn þeim.
- Að þróa, framleiða, flytja inn og dreifa bóluefni og lyfjum gegn sjúkdómum í búfé og öðrum dýrum.
- Að veita háskólakennurum og öðrum sérfræðingum, sem ráðnir eru til kennslu og rannsókna á sviði stofnunarinnar, aðstöðu til rannsókna eftir því sem við verður komið.
- Að annast endurmenntun dýralækna, eftir því sem aðstæður leyfa, og miðlun upplýsinga til þeirra í samvinnu við yfirdýralækni.
- Að annast eldi á tilraunadýrum fyrir vísindalegar rannsóknir í landinu.
- Að taka þátt í rannsóknum og þróunarvinnu í þágu líftækniiðnaðar í landinu.
- Að auki er Keldum ætlað sérstakt hlutverk við rannsóknir á fisksjúkdómum, skv. lögum nr. 50 frá 1986.