Svipuð mjólkurframleiðsla
Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur verið framleitt 85,6 prósent af heildargreiðslumarki landsins í mjólk. Hlutfallið er það sama og á sama tíma og í fyrra.
Heildargreiðslumark ársins 2024 er 151,5 milljón lítrar og hafa verið lagðar inn rétt tæplega 130 milljón lítrar. Þegar mjólkurframleiðsla áranna 2023 og 2024 eru borin saman er framleiðslan afar svipuð. Heldur meira var þó framleitt á fyrri hluta ársins 2024 en á fyrra ári en framleiðslan hefur verið undir fyrri framleiðslukúrfu síðustu þrjá mánuði samkvæmt upplýsingum frá Auðhumlu. Lægsta vikulega mjólkurinnlegg á árinu var í viku 42 þegar lögð var inn 2,65 millj. lítra en hefur aukist aftur í hverri viku síðan. Alla jafna er lægsta mjólkurinnlegg hvers árs í vikum 41–44.
Alls hafa 59 mjólkurframleiðendur á starfssvæði Auðhumlu klárað greiðslumark sitt og eru farnir að leggja inn umframmjólk. Þessir framleiðendur hafa lagt inn um 1,5 millj. lítra umfram greiðslumark sitt. Á sama tíma í fyrra höfðu 55 mjólkurframleiðendur lagt inn 1,6 millj. lítra umfram greiðslumark.