Lómur
Lómur er náskyldur himbrimanum. Þeir eru báðir af brúsaætt og eru þeir einu tveir brúsarnir sem verpa hérna á Íslandi. Himbriminn er nokkuð stór og getur orðið allt að því 3,5 kg en lómurinn er minnstur í brúsaættinni, eða um 1,7 kg. Þannig að þótt þeir séu náskyldir og að nokkru leyti líkir í útliti, þá er stærðarmunurinn mjög augljós. Hann er að nokkru leyti staðfugl, sumir fljúga til Vestur-Evrópu á haustin á meðan aðrir dvelja á sjó við landið. Þeir verpa við tjarnir, vötn og læki stutt frá sjó. Líkt og aðrir brúsar eru lómar nokkuð sérhæfðar fiskiætur. Þrátt fyrir það sé algengt að þeir verpi við fisklausar tjarnir eða læki, þá er það alltaf þar sem stutt er í fiskauðuga staði. Segja má að lómar séu nokkuð félagslyndir af brúsa að vera. Þeir eiga það til að verpa í dreifðum byggðum þar sem stutt getur verið á milli óðala. Þetta er mjög ólíkt himbrima sem á það til að helga sér mjög stór óðöl, jafnvel heilu vötnin. Fætur lómsins eru mjög aftarlega á búknum sem gerir hann mjög góðan til sunds og fiman kafara, en í staðinn er hann hálfvonlaus á landi og getur ekki gengið heldur spyrnir sér áfram á maganum. Hreiðrin eru því ávallt alveg við vatnsbakka þar sem auðvelt er að renna sér út í vatnið án þess að mikið beri á því.