Afkomutjón blasir við
Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum framleiðslunnar. Enn eru garðyrkjubændur að kljást við skerðingu á koltvísýringi.
Í lok september fengu viðskiptavinir Linde Gas enn eina tilkynningu þess efnis að fyrirtækið muni ekki geta tryggt afhendingaröryggi koltvísýrings á næstunni. Á meðan eru garðyrkjubændur beðnir um að draga úr notkun á koltvísýringi eins og kostur er næstu vikurnar. Slíkar tilkynningar hafa borist reglulega frá fyrirtækinu síðustu misseri.
„Það liggur ljóst fyrir að skerðing á koltvísýringi veldur stórtjóni fyrir þá sem stunda ylrækt, sérstaklega á veturna þegar hús eru lokuð og koltvísýringur fellur, bæði uppskerulega séð og markaðslega séð. Framboð af íslensku grænmeti minnkar og afkomutjón blasir við framleiðendum,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna.
„Öruggt aðgengi að heitu og köldu vatni, rafmagni og koltvísýringi, auk vinnuafls, eru grunnþættir garðyrkjuframleiðslu. Skerðing á einhverjum af þessum þáttum bitnar á öllum.“
Bilun í flutningaskipi
Linde Gas er eina fyrirtækið hér á landi sem útvegar garðyrkjubændum koltvísýring. Eins og fram hefur komið í Bændablaðinu hafa bændur ekki fengið afhent það magn af koltvísýringi sem þeir hafa skuldbundið sig til að kaupa frá fyrirtækinu og afhending þess hefur verið gloppótt. Að sögn bænda hefur fyrirtækið vísað í að borhola hér á landi sé ekki að skila því sem vonast er eftir, en nú sé vísað í bilun í flutningaskipi. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 var flutt inn meira magn koltvísýrings til landsins en á ársgrundvelli síðustu ár.
Þrátt fyrir það er afhending ótrygg og vegna skorts á koltvísýringi hafa garðyrkjubændur orðið fyrir uppskerutapi. „Það er slæmt að missa niður framboð á markaði milli vikna út af svona grundvallaratriði,“ nefnir Gunnlaugur sem hefur heyrt af sláandi tölum frá framleiðendum. „Í verstu tilfellunum var uppskeran að fara úr sex brettum í eitt. Það að framleiðendur hafi ekki tryggt aðgengi að koltvísýringi er forsendubrestur fyrir að vera í svona viðskiptum. Þeir verða að hafa afhendingaröryggi,“ segir hann.
Vekur lagalegar spurningar
Eina kolsýruvinnsla landsins er á Hæðarenda í Grímsnesi en Linde Gas á þar verksmiðjuna og allan nýtingarrétt á auðlind á jörðinni til ársloka 2064 samkvæmt leigusamningi. Eigandi jarðarinnar, Sigurður Karl Jónsson, sagði í 15. tbl. Bændablaðsins að umgengni fyrirtækisins við auðlindina og ástand vinnslunnar væri ekki í lagi – en með góðu móti væri hægt að framleiða ríflega landsþörf af koltvísýringi.
Gunnlaugur segir leitt til þess að hugsa að garðyrkjubændur skuli nú þurfa að horfa til þess að flytja inn hráefni sem hægt væri að fá innanlands.
„Þegar nóg er til af þessari vöru í landi Hæðarenda, framúrskarandi hreinu og flottu gasi, spyr maður sig af hverju fyrirtækið hafi ekki getað skaffað vöruna. Þessi samningur sem Linde Gas hefur felst víst í því að enginn megi kaupa þessa vöru úr landi Hæðarenda nema þeir, sem orkar mjög tvímælis. Í stað þess að gera viðeigandi ráðstafanir og nýta þessa frábæru auðlind er verið að sóa gjaldeyri í að flytja kolsýruna inn og það ekki í nægu magni með tilheyrandi tjóni fyrir alla,“ segir Gunnlaugur og leggur til tafarlausa endurskoðun stöðunnar til að koma í veg fyrir enn frekara tjón.
Græða vel á gasinu
Linde Gas á Íslandi skilaði metafkomu árið 2023. Hagnaður félagsins eftir skatta var yfir milljarður króna og hrein eign félagsins í árslok nam rúmum 5 milljörðum króna. Félagið greiddi einn milljarð króna til hluthafa sinna á rekstrarárinu 2022, að því er fram kemur í nýjum ársreikningi félagsins.
Linde Gas er skilgreint í ársreikningi sem lyfja-, matvæla- og iðnaðarfyrirtæki sem framleiðir súrefni, köfnunarefni og koldíoxíð. Þar segir einnig að fyrirtækið flytji inn aðrar gastegundir og búnað fyrir viðskiptavini og að það reki súrefnisverksmiðju í Vogum á Vatnsleysuströnd og koldíoxíðverksmiðju á Hæðarenda í Grímsnesi, auk áfyllingarstöðvar, rannsóknarstofu og skrifstofu sem staðsett er á Búðarhellu í Hafnarfirði.
Í ársreikningnum kemur fram að allt hlutafé félagsins sé i eigu OY Linde Gas Ab í Finnlandi sem er hluti af Linde Group. Endanlegt móðurfélag er Linde plc. sem er skráð félag í Írlandi. Skráðir eigendur Linde Gas á Íslandi eru sænskir, sem og forstjóri þess.
Sölutekjur félagsins námu tæplega 4 milljörðum króna en framleiðslukostnaður nam 975 milljónum. Annar rekstrarkostnaður er skráður tæpar 1,4 milljarðar króna í ársreikningnum.