Velgengni upplifunarbýlis
Auðgandi landbúnaður er í forgrunni á Bächlilhof í Sviss. Eigandi þess skilgreinir búið sem upplifunarbýli, en auk matvælaframleiðslu og vinnslu má þar finna bændamarkað, veitingastað og fjölskylduvænan húsdýra- og skemmtigarð sem vel er sóttur alla daga ársins.
Bächlilhof er staðsett í jaðri bæjarins Jona í norðausturhluta Sviss og því í göngufjarlægð fyrir 18.000 íbúa hans. Býlið er hluti af starfsemi Jucker-fjölskyldunnar sem rekur fjögur bú undir merkjum Juckerfarm sem á sér áratugalanga sögu í Sviss.
Velgengni Bächlilhof má helst rekja til útvíkkunar á starfsemi býlisins en á undanförnum fimmtán árum hefur búið farið frá því að vera frumframleiðslubú yfir í stórbýli með margþætta starfsemi frá landbúnaði að viðburðastjórn.
Matvælavinnsla og fjölskyldugarður
David Prevost er bústjóri Bächlilhof. Hann hefur unnið á býlinu síðan árið 2006 og má hann eflaust kalla sig framkvæmdastjóra í dag, en á bænum starfa allt að 75 manns. Á bestu dögum sumars tekur Bächlilhof á móti 12.000 manns en algengt er að um 500 manns eigi þar erindi dag hvern.
Sumir koma til þess að versla á bændamarkaðnum en þar má finna fjölbreytt úrval ferskra afurða úr nágrenninu, ekki eingöngu frá búinu. Einnig er þar bakarí og kaffihús, með hlaðborði kræsinga, sem er vinsæll viðkomustaður vinnandi fólks í hádeginu. Búið er auk þess fjölskylduvænt og vinsælt meðal barna, þar er t.d. lítill húsdýragarður og leikvellir. Bächlilhof rekur einnig matvælavinnslu þar sem framleiddar eru hinar ýmsu vörur, til dæmis sósur, súpur, sýróp og hafradrykkir undir merkjum Junkenfarm. Á haustin er haldin vegleg uppskeruhátíð þar sem graskerskúlptúrar vekja gjarnan mikla lukku. Á kvöldin breytist býlið í veislurými en þar eru haldin bæði brúðkaup og bæjarhátíðir.
Hugsjónastarf án vottunar
Um 6.000 ávaxtatré eru á um fjögurra hektara svæði á býlinu, þar sem má finna 24 afbrigði af eplum og tólf afbrigði af perum, einnig plómur og berjagarð þar sem gestir geta komið og tínt sjálfir í öskjur. Býlið á líka stærra landsvæði í nokkurra kílómetra fjarlægð þar sem stunduð er kornrækt og grænmetisrækt. Þau framleiða m.a. hafra, aspas, grasker, tómata, gúrkur og fleira.
Eigandi Bächlilhof er Stefan Bächli, sem David segir vera mikinn hugsjónarmann. Þannig kjósi hann að fá ekki lífræna vottun, honum finnist það of takmarkandi.
Hins vegar gangi starfsemin oft mun lengra en skilyrði lífrænnar framleiðslu. Hann fylgi hugmyndum um auðgandi landbúnað (e. regenerative agriculture). Sjálfbærni og líffræðilegur fjölbreytileiki eru mikilvægir þættir, notkun á tilbúnum áburði og plöntuvarnarefnum er forðast í lengstu lög. Lögð er áhersla á ræktun sjúkdómaþolinna og harðgerðra afbrigða ávaxta og grænmetis.
Í nafni auðgandi landbúnaðar hafi þeir Stefan og David prófað sig áfram með ýmislegt. Sumt hafi gengið en annað ekki. Hann nefnir sem dæmi að plöntur fái moltute og lífkol, hratið af eplum er nýtt sem áburður. Kjúklingar ráfa um garðana og halda óværum frá.