Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fjölskyldan uppábúin að hætti liðins tíma. Hjónin Arna Björg Bjarnadóttir, sagnfræðingur og menningarmiðlari og Steingrímur Karlsson, kvikmyndagerðarmaður og ferðaþjónustubóndi, ásamt dætrum sínum, þeim Snædísi (í fangi móður sinnar) og Friðnýju.
Fjölskyldan uppábúin að hætti liðins tíma. Hjónin Arna Björg Bjarnadóttir, sagnfræðingur og menningarmiðlari og Steingrímur Karlsson, kvikmyndagerðarmaður og ferðaþjónustubóndi, ásamt dætrum sínum, þeim Snædísi (í fangi móður sinnar) og Friðnýju.
Mynd / Gunnar Gunnarsson
Líf&Starf 16. október 2018

Hafa byggt upp Óbyggðasetur í skjóli fjallanna á innsta bænum í Fljótsdal

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hjónin Steingrímur Karlsson, kvikmyndagerðarmaður og ferðaþjónustubóndi, og Arna Björg Bjarnadóttir, sagnfræðingur og menningarmiðlari, hafa í nokkur ár unnið að uppbyggingu Óbyggðaseturs á bænum Egilsstöðum í Fljótsdal. Þar er nú komin glæsileg gistiaðstaða í anda fortíðar og boðið upp á veglega tæknivædda sýningu um söguna, sem er mikil upplifun að skoða.
 
Þegar ekið er inn að Fljótsdalsvirkjun fyrir botni Lagarfljóts getur að líta skilti við veginn sem vísar á Óbyggðasetur inn í Norðurdal Fljótsdals. Ekið er út af veglegum vegi með bundnu slitlagi og inn á hefðbundinn malarveg. Ekið er eins og leið liggur til endimarka akvegarins og þá blasir við bærinn Egilsstaðir þar sem Óbyggðasetrið er til húsa. Það er innsta byggða ból í Fljótsdal og í bakgarðinum eru stærstu óbyggðir í Norður-Evrópu. Upplifunin af því að skoða gamla bæinn og sýninguna sem þar er boðið upp á er hreint ótrúleg og kemur sannarlega á óvart. Er sýningin mjög byggð upp á sjónrænni upplifun og auðséð að þar gætir töluverðra áhrifa og reynslu kvikmyndagerðarmannsins Steingríms. 
 
Á jörðinni er gamla íbúðarhúsið sem búið er að gera upp sem gististað með veitingum og búið að setja upp veglega og tæknivædda sýningu í skemmu þar við hliðina. Hjónin Gunnar Jónsson og Bergljót Þórarinsdóttir, bændur á Egilsstöðum, voru þátttakendur í verkefninu með Steingrími og Örnu, en Bergljót er nú látin. Fjölskylda Gunnars hafði búið á Egilsstöðum í um 150 ár.
 
Með stærstu óbyggðir Norður-Evrópu í bakgarðinum
 
Steingrímur segir að hugmyndin að Óbyggðasetrinu hafi fæðst þegar hann og kona hans, Arna Björg Bjarnadóttir, sem ættuð er úr Skagafirði, ráku þaðan 6–10 daga hestaferðir um óbyggðir Austurlands á sumrin. 
 
„Það voru nokkrir samliggjandi þættir sem ollu því að við fórum í að byggja upp þessa aðstöðu á bænum. Hér erum við á innsta byggða bóli í dalnum og í bakgarði okkar eru stærstu óbyggðir í Norður-Evrópu. Það var líka sérstök saga systkinanna sem hér bjuggu og nábýli þeirra við óbyggðirnar sem okkur langaði að fanga. 
 
Ég á hér tengingar og frá því ég var lítill hefur mér alltaf fundist að hér væru mínar rætur og hér vildi ég vera. Ég var á sumrin í sveit hjá móðursystur minni á næsta bæ hér fyrir utan. Þá hafa óbyggðirnar líka alltaf verið mitt áhugamál. Arna Björg, konan mín, var forstöðumaður og byggði upp Sögusetur íslenska hestsins í Skagafirði og bjó því yfir dýrmætri reynslu sem nýttist við uppbygginguna og reksturinn hér.“
 
Að uppbyggingu Óbyggðaseturs fengu þau Steingrímur og Arna Björg fjölda heimamanna og fagfólk sér til aðstoðar við smíðar, tæknilausnir og uppsetningu sýninga. 
 
Sveitungarnir gerðu grín að löngum aðdraganda 
 
„Það liðu fimm ár frá því við fengum þessa hugmynd og þar til við opnuðum. Fyrstu tvö árin fóru meira og minna í heimildar- og rannsóknarvinnu, hönnun og vinnslu viðskiptaáætlunar. Sveitungunum fannst þetta ganga ansi hægt og gerðu grín að okkur á þorrablóti. Þá voru liðin þrjú ár og rétt farnar að sjást breytingar. Sögðu sveitungarnir því að þeir hafi sennilega misskilið þetta. Þetta væri ekki Óbyggðasetrið, heldur óbyggða setrið.“
 
Steingrímur segir að veitinga­staðinn hafi þau ákveðið að útbúa í stíl við gamla eldhúsið. 
 
„Það var gert upp í stíl við upprunalega eldhúsið. Höldurnar á skápunum eru úr hreindýrshornum og hurðirnar á efri glerskáp eru gamlir fjósgluggar. Eldhúsborðið var gert upp úr gamla baðstofuborðinu. Svo er eldað fyrir framan gestina eins og gert var í gamla daga. Við matborðið spinnast svo endalausar umræður þar sem gestir vilja fræðast um sögu og náttúru svæðisins. 
 
Þá notum við hér kjöt frá bænum og silung úr vötnunum. Við erum líka með reykkofa þar sem við reykjum kjöt. Allt brauð og kökur er líka heimabakað og þar byggjum við mikið á gömlum uppskriftum.“
 
 
Margt jákvætt við ferðaþjónustu lengst inni í afdal
 
„Það er bæði hægt að líta á það jákvæðum og neikvæðum augum að vera hér lengst inni á afdal þar sem vegurinn endar. Í því eru þó heilmargir kostir og gæði fyrir gestina okkar að komast hér í fámennið og rólegheitin. Upplifa hér gamla Ísland fremur en að þeysast á milli fjölfarinna ferðamannastaða. Þarna á Austurland mikið inni með allri sinni náttúrufegurð og dýralífi. Það ánægjulega er að flestir okkar gestir stoppa hér í meira en eina nótt. 
 
Það eru ýmis tækifæri fyrir fólk að finna hér bæði frið og ró í náttúrunni. Við bjóðum upp á hestaferðir, fjallahjól og gönguferðir og hér eru merktar gönguleiðir sem fólk getur líka farið um á eigin vegum. Þá endurbyggðum við kláf á eyðibýlinu Kleif hér innar í dalnum og hér er aðstaða fyrir fjallahjólafólk og við erum einnig með vetrarþjónustu á svæðinu. Í fyrra opnuðum við stjörnuskoðunarstöð með tölvustýrðum stjörnuskoðunar­sjónauka sem Stjörnu-Sævar [Sævar Helgi Bragason] setti upp og erum að taka í gagnið heitar laugar með baðhúsi og gufubaði.“
 
Í mikilli veðursæld 
 
„Það hjálpar okkur einnig að hér á svæðinu er mjög veðursælt. Við erum í skjóli frá Vatnajökli og um 100 kílómetra frá sjó. Öll úrkoma er því eiginlega búin að klára úr sér þegar hún kemur hér inn eftir og því er nær snjólaust hér á vetrum. Sem dæmi um það þá áttu karlarnir sem hér bjuggu tvo vélsleða sem þeir urðu að geyma í kofa sem enn stendur hér uppi á fjallsbrún, enda gátu þeir lítið notað sleðana hér niðri í dalnum. Þar sem hálendið er víðfeðmt, þá notuðu þeir sleðana við smalamennsku og veiðar. 
 
Vegna þess hversu snjólétt er hér á vetrum getum við auðveldlega haldið úti heilsársstarfsemi og verið með hestaleiguna opna allt árið. Áður fyrr var það þannig að bændur fengu að reka fé hingað til beitar utan af Héraði á hörðum vetrum. Jafnvel frá þorra og fram undir vor.“
 
Fjölbreytt hlunnindi
 
Steingrímur segir bændur hafa búið við margvísleg hlunnindi sem sum skapist af veðursældinni í dalnum. Beitilönd eru hér afar góð og hér vex líka fjölbreytt flóra berja, eins og krækiber, bláber, hrútaber og villt jarðarber. Hreindýr, gæs og silungur hafa einnig verið góð búbót og fjallagrös  verið tínd hér áður fyrr undir Snæfellinu.
 
Uppi á Eyjabökkum vex fjölbreyttur gróður og þar hefur Steingrímur hugmyndir um að geta boðið ferðamönnum upp á kajakróður til að upplifa sérstaka náttúrufegurð votlendisins undir Eyjabakkajökli. Öll þeirra ferðamennska byggist reyndar upp á hugmyndinni um rólegheita ferðamennsku, eða „Slow Travel“. Eigi að síður er þau í samstarfi við ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á ferðir á öflugum fjallajeppum ef fólk vill komast í slíkar aðstæður. 
 
Hvergi er slegið af fagmennskunni í Óbyggðasetri. Meira að segja hljómflutningstækin sem gestir fá þegar gengið er um sýninguna eru handsmíðuð af Steingrími Karlssyni.  Mynd / HKr. 
 
Vistvæn og nýtin í anda systkinanna á bænum
 
„Við viljum þó sjálf aðallega einbeita okkur að minni hópum og vera eins umhverfisvæn í öllu sem við gerum eins og hugsast getur. Það er í anda þeirra sem hér bjuggu sem voru einstaklega nýtin á alla hluti. Endurnýttu allt sem hægt var og spengdu jafnvel saman postulínsdiska sem brotnuðu.“
 
Mikil fyrirhöfn að halda gamaldags útlit
 
Þessa sérstöðu og sérvisku var samt ekki einfalt að uppfylla við endurbyggingu bæjarins. Það kostaði mikla útsjónarsemi og yfirlegu að halda öllu í gamla stílnum um leið og uppfylla þurfti kröfur nútímamannsins og eftirlitsstofnana. Ljósarofar í gömlum stíl var hægt að finna í Þýskalandi en margfalt dýrari en nútímalega rofa. Nýtísku hleðslutengingar fyrir farsíma og myndavélar í baðstofunni eru síðan felldar inn í viðarklæðningu svo þær sjáist ekki. Baðstofan lítur út eins og gamaldags baðstofa með rúmum í fullri stærð í röð undir súð. Þar er líka boðið upp á tvöföld rúm og lokrekkju og hafa ferðamenn hrifist mjög af að geta upplifað þannig gamla tíma. Einnig er boðið upp á gistingu í herbergjum. 
 
Í baðstofunni hafa verið ýmsar uppákomur, eins og tónleikar með KK, og þar hefur Einar Kárason líka verið með upplestur. Þá hefur baðstofan einnig verið nýtt undir brúðkaupsveislu, handverksnámskeið og viðburði.
 
Nútíma eldvarnarhurðir eru skylda í svona húsnæði, en þær eru haganlega felldar inn í gamla útlitið. Eru þær með álímdum fulningum í gömlum stíl svo allt líti út sem upprunalegast. Í baðstofunni voru allir naglar í klæðningum handdúkkaðir og gluggar handsmíðaðir með kítti eins og þekktist í gamla daga. Olíuluktir eru þar líka, en með rafljósi og rafleiðslur kirfilega faldar.   
 
Með gistingu fyrir 36 manns á fyrrum heimili 14 systkina
 
„Í dag erum við ferðaskrifstofa og bjóðum upp á styttri og lengri ferðir héðan, eða frá klukkutíma og upp í tíu daga. Þá er bæði um að ræða tilbúna dagskrá og eins sérsniðna að óskum viðskiptavina. Hér bjóðum við upp á gistingu og erum með gistiaðstöðu fyrir 36 manns. Þá er í raun um að ræða gistingu á safni. Hér eru safnmunir frá tíð systkinanna 14 frá Egilsstöðum og hefur allt verið gert upp í gamla stílnum,“ segir Steingrímur.  
 
Níu af 14 systkinum ílengdust og pipruðu öll á bænum
 
„Hér fæddust 14 systkini frá 1907 til 1927. Fimm þeirra fluttu burt og giftust, en níu systkinanna bjuggu hér og pipruðu öll. Þau voru þekkt um allt Austurland fyrir sitt handverk, skyggnigáfu og hvað þau voru einstaklega listræn. 
 
Einn bróðirinn, Egill Gunnarsson, stjórnaði hreindýra­veiðunum á Íslandi. Tvær systranna, Björg og Begga, fóru oft niður á Reyðarfjörð þar sem þær stunduðu saumaskap og saumuðu mikið, m.a. kjóla á konur á svæðinu.“ 
 
Hagleiksmaðurinn Snorri Gunnarsson
 
„Bróðirinn Snorri Gunnarsson var þó þekktastur í systkinahópnum. Hann var elstur og fæddur 1907. Var hann sérkennilegur í útliti með skegg líkt og hjá Amish-fólki. Hann var líka með nokkuð sérstakt augnaráð sem margir tengdu við skyggnigáfu hans. Enda var hann alltaf að sjá eitthvað sem aðrir sáu ekki. 
 
Snorri saumaði á milli 90 og 100 peysuföt og upphluti. Þá saumaði hann sparikjóla og jakkaföt auk þess sem hann gerði við klukkur. Hér er stór klukka, eins konar Borgundarhólmsklukka, sem hann smíðaði og ein systirin teiknaði skífuna með blýanti. 
 
Snorri ferðaðist m.a. í Vopnafjörð og um Jökuldal og byggði nokkur hús. Á verkstæðinu sem við erum með til sýnis eru mörg verfæri sem systkinin smíðuðu sjálf.  
 
Þannig er þessi sýning hér á Egilsstöðum annars vegar um lífið í óbyggðum með ævintýrum og hrakningum sem þar urðu. Hinn hluti sýningarinnar segir frá systkinunum á bænum og þeirra nábýli við óbyggðirnar.“
 
Systkinin 14 frá Egilsstöðum
 
Systkini Snorra voru Sigríður, fædd 1908, Stefán, fæddur 1910, Sigurður, fæddur 1911, Sigurbjörg, fædd 1913 og var gift Jóni Finnssyni og áttu þau fjögur börn. Þá kom Pétur, fæddur 1915, Egill, fæddur 1916, Björg, fædd 1917 og Ingólfur, sem var fæddur 1919 og giftist Unni Einarsdóttur og átti með henni 3 börn. Síðan kom Bergljót, fædd 1920, Jófríður, fædd 1922 og eignaðist hún einn son sem enn býr á Egilsstöðum. Þá kom Guðfinna, fædd 1924 og Ingibjörg, fædd 1926, en hún giftist Þórarni Bjarnasyni og eignuðust þau tvö börn. Yngst þeirra systkina var svo Þórhalla, en maður hennar var Kjartan Hallgrímsson og eignuðust þau 12 börn.  
 
Kvikmyndakunnáttan og sagnfræðin hafa nýst vel
 
Steingrímur segir að við uppbyggingu Óbyggðaseturs hafi honum nýst vel reynslan af kvikmyndagerð og þekking konunnar á sagnfræði, rekstri og viðburðastjórnun. 
 
„Það má segja að staðurinn sé leikmyndin okkar og starfsfólkið leikararnir sem skapa sanna upplifun byggða á menningu okkar og gefa gestum kost á að upplifa fortíðina.
 
Ferðirnar sem við bjóðum upp á eru byggðar upp á svipaðan hátt. Þar er miðlun sögunnar og náttúrunnar alltaf í forgrunni.
 
Það hefur verið vinsælt  að koma hingað með skólakrakka til að kenna þeim og upplifa hvernig fólk lifði hér áður fyrr.“
 
Steingrímur segir að nú í nóvember sé stefnt að því að opna nýja aðstöðu við bæinn. Þar verður laug með steinhleðslu í kring og baðhús með gufubaði og hvíldaraðstöðu. Allt verður það í þessum gamla stíl og klætt að utan með rekaviði. 
 
„Við ákváðum strax og við fórum í þetta verkefni um Óbyggðasetrið að byggja þetta á faglegum grunni. Við leituðum því eftir víðtæku samstarfi við Þjóðminjasafnið, Vatnajökulsþjóðgarð, Náttúrustofu Austurlands, Jarðfræðisetrið á Breiðdalsvík, Héraðsskjalasafnið, Landmælingar Íslands, Vegagerðina og Minjasafn Austurlands.
 
Setrið er að öllu leyti einkarekstur og ekki kostað af ríkinu þótt við höfum auðvitað sótt um alls konar styrki til að koma þessu áfram. Má nefna að sveitarfélagið hér, Fljótsdalshreppur, sem er eitt hið fámennasta á landinu, hefur styrkt okkur vel til að hjálpa okkur í gang. 
 
Markmið Óbyggðasetursins er að skapa heildstæða upplifun og miðla sögu óbyggða Íslands með lifandi hætti gegnum fjölbreytta þjónustu og afþreyingu. Gisting er í boði allt árið og staðurinn einnig tilvalinn fyrir vina- eða starfsmannahópa. Auðvelt er að finna hér nóg að gera og njóta náttúru og friðsældar,“ segir Steingrímur Karlsson.
 
 
Hluti af sýningunni í Óbyggðasetrinu á Egilsstöðum í Fljótsdal. Haganlega gerð brúða af Snorra Gunnarssyni við eina af mörgum saumavélum sem hann átti.

Sannkallaður þúsundþjalasmiður og snillingur í saumaskap og hönnun

Í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu um Snorra Gunnarsson, sem lést 12. mars 1989, skrifaði Jón Hnefill Aðalsteinsson. Þar segir m.a. að Snorri hafi alist upp á bænum Egilsstöðum og dvalist þar fram á þrítugsaldur. 
 
„Hann var þegar á unga aldri orðlagður hagleiksmaður og lagði snemma jöfnum höndum stund á smíðar og sauma. Snemma á fjórða áratugnum flutti hann sig um set yfir Fljótsdalsheiðina og var næstu árin á Eiríksstöðum á Jökuldal, en þar og á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal taldi Snorri heimili sitt næstu áratugina. Síðustu tuttugu árin eða þar um bil hefur hann síðan átt heima á æskuheimili sínu á Egilsstöðum.
 
Ævistarf sitt vann Snorri á litlu svæði á Efra-Dal og í Fljótsdal. Starfsvettvangur hans var þrískiptur. 
 
Hann stundaði smíðar og má sjá þess stað á mörgum bæjum sem hann húsaði upp, oft að mestu einn, en stundum í samvinnu við aðra smiði. Þau eru nokkuð mörg íbúðarhúsin á þessum slóðum þar sem Snorri á flest handtökin. Hann hefur þannig átt sinn drjúga þátt í því að þessi svæði héldust í byggð á umrótstímum og hvarvetna varbúið í mannsæmandi húsakynnum.“
 
Um saumaskap Snorra ritar Aðalsteinn:
„Ekki varð Snorri atvinnulaus þó að hlé yrði á byggingarframkvæmdum, því að þá settist hann við saumavélina. Einnig í þeirri iðngrein lék allt í höndum hans og hann saumaði jafnt á karla sem konur. Það var Snorra að þakka að bændur á Efra-Dal og í Fljótsdal gengu „eins og höfðingjar í klæðskerasaumuðum fötum“ er þeir komu í aðra landsfjórðunga. Enn rómaðri var þó skerfur hans til kvenbúninga, því að hann saumaði upphluti á mikinn fjölda kvenna út um allt Hérað. Er hann var rúmlega sjötugur héldu þessar konur honum veglegt samsæti og færðu honum forláta kistil að gjöf. Mættu þær allar til hófsins í upphlutum sem Snorri hafði saumað.
 
Vélaviðgerðir var þriðji þátturinn í starfi Snorra. Hann var einstakur snillingur að fást við ýmsar hinar fíngerðari vélar svo sem úr og klukkur. Í félagi við bræður sína gerði hann upp svonefnda Borgundarhólmsklukku árið 1945 og veit ég ekki betur en að hún gangi enn í stofunni á Egilsstöðum. Þá var honum einkar hent að gera upp saumavélar. Átti hann sjálfur talsvert safn saumavéla frá fyrri öldinni sem honum hafði áskotnast er eigendur voru að fleygja þeim. Allar þessar vélar tók Snorri til sín og kom þeim í nothæft ástand. Sagði hann sjálfur að þær væru því betri sem þær væru eldri. 
 
Það liggur í augum uppi hvert hagræði var að geta leitað til slíks manns í strjálbýli ef einhver heimilisvélin bilaði. Þessu er ágætlega lýst í vísu sem Stefán í Merki varpaði fram eftir að Snorri hafði verið þar á bæ í nokkra daga:
 
Eldavélin er sem ný,
engin klukka stendur;
saumavélar sauma, því
svona eru Snorra hendur.
 
Snorri lét sér ekki eingöngu annt um menningarverðmæti á verklega sviðinu, hann var einnig mjög vel heima í hvers kyns þjóðmenntum og kunni kynstrin öll af sögum og vísum. Var eftirlætislestrarefni hans ýmis þjóðlegur fróðleikur. Hann hafði erft náðargáfu formæðra sinna, þeirra Mekkínar og Ingunnar, og var skyggn, enda þótt hann flíkaði því ekki að jafnaði. En ef slík efni bar á góma ræddi hann þau af sama hispurslausa yfirlætisleysi og allt annað.“

 

17 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....