Skákmánuðurinn janúar
Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði halda mörg skákfélög sín árlegu meistaramót, oft kölluð skákþing.
Skákþing Kópavogs fór fram í byrjun janúar. Taflfélag Reykjavíkur heldur sitt árlega Skákþing Reykjavíkur í janúar, sem reyndar teygir sig líka aðeins inn í febrúar. Skákþing Akureyrar stendur yfir í janúar og líka aðeins inn í febrúar og Skákþing Goðans í Þingeyjarsýslu og Húsavík verður teflt á einni helgi á Húsavík í janúar.
Fyrirkomulag á þessum skákþingum getur verið misjafnt. Sum þeirra eru tefld á einni helgi og með blöndu af atskákum og kappskákum. Önnur eru tefld yfir lengri tíma og eingöngu kappskákir í boði. Dæmi eru um að sum þessara móta séu riðlaskipt og/eða tefld í nokkrum styrkleikaflokkum. Allt fer þetta eftir stærð og hentugleika hvers félags fyrir sig. Félögin reyna oftast að gera það sem þau geta til að tryggja að sem flestir geti verið með og þá er rétt tímasetning stórt atriði.
Það hefur sýnt sig að í janúar er fólk alla jafna ekki mikið á þvælingi, svo skömmu eftir jól og áramót, og það gildir líka um skákmenn. Þess vegna er tilvalið að halda skákmót á „dauðum“ tíma eins og janúar oft er. Febrúar getur líka verið hentugur, en þegar líða tekur nær vori vandast málið. En það er kannski einmitt þess vegna sem janúar er mikill skákmánuður á Íslandi.
Íslenski skákdagurinn er líka haldinn 26. janúar ár hvert. Það er afmælisdagur Friðriks Ólafssonar, sem er fyrsti stórmeistari Íslendinga, en hann verður níræður í ár. Það er því við hæfi að birta eina stöðumynd úr einni af skákum Friðriks.
Ef lesendur Bændablaðsins luma á áhugaverðum skákum geta þeir haft samband. Hermann Aðalsteinsson, lyngbrekku@simnet.is
