Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vinsældir poppkornsins jukust mikið þegar bíómyndirnar komu til sögunnar og kvikmyndahúsin tóku að selja popp.
Vinsældir poppkornsins jukust mikið þegar bíómyndirnar komu til sögunnar og kvikmyndahúsin tóku að selja popp.
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en þá hafði poppkornsát verið að ryðja sér til rúms í nokkurn tíma.

Um það bil fjórum árum síðar gaf þýska grúppan The Fantastic Pikes út plötuna The Synthesizer Sound Machine – með laginu Popcorn, en á umslaginu gefur að líta bikiníklædda konu sitjandi í poppkornshrúgu.

Poppkorn var á þessum árum (og er reyndar enn) afar vinsælt fyrir skynfærin, augu, eyru og munn og man blaðamaður vel eftir þeirri gleði sem fyllti hjartað er foreldrarnir skrúfuðu tónlistina í botn og buðu upp á poppkorn í kjölfarið. Lagið var þó víst upprunalega samið af Gershon Kingsley nokkrum og kallað heimsins fyrsti singull raftónlistar.
Lagið Poppkorn hefur síðan haldið velli og verið flutt af aragrúa tónlistarmanna enda afar grípandi.En poppkorn á nú reyndar lengri sögu en spannar lífstíma blaðamanns.

Hér má sjá maískólf þann er fannst í S-Ameríku við uppgröft fornleifafræðinga.

Ævafornar minjar poppkornsáts

Í náttúruminjadeild Smithsonian- safns Bandaríkjanna má finna sýni er fundust við uppgröft fornleifafræðinga í Suður-Ameríku.

Um ræðir maískólfa, hýði og stilka frá því fyrir 6700–3000 árum síðan og er þetta elsta sýni er fundist hefur. Á uppgraftarsvæðum fornleifanna mátti svo finna merki þess að íbúarnir hefðu meðal annars neytt maíssins í formi poppkorns.

Loftslag svæðanna, nálægt borgunum Paredones og Huaca Prieta, er afar þurrt og nánast án regns – en slíkar aðstæður gera það kleift að fornleifar geta varðveist í afar langan tíma, sem útskýrir þessar leifar útblásins maísins. Poppkorn var að auki stór hluti menningar Suður-Ameríkuþjóða, þá sérstaklega hjá indíánaþjóðflokki Asteka sem notuðu það í tilbeiðsluathöfnum auk þess að bera höfuðfat, hálsmen og skraut gerðu úr poppkorni.

Til gamans má geta þess að ekki fyrir löngu fannst fjögur þúsund ára gamall maís í Nýju-Mexíkó sem hægt var að poppa! Ekki fylgdi þó sögunni hvernig bragðaðist. Aðrar sagnir herma að evrópskir landnemar er hófu búskap í Bandaríkjunum forðum daga hafi eitthvað misskilið stöðuna og fengið sér poppkorn til morgunverðar. Þá í skál, með rjóma, ávöxtum og helst sykri. Ekki er vitað hvort um íslenska landnema hafi verið að ræða.

Gegn krabbameini, til skreytinga, möguleikarnir eru endalausir

Poppkorn, sem er í raun trefjaríkt heilkorn maísplöntunnar, er annars afar hollt ef þess er neytt eitt og sér. Í því er afar mikið af andoxunarefninu pólýfenól sem þykir gagnast vel í baráttu við krabbamein en það má einnig finna í rauðvíni, dökku súkkulaði, ávöxtum og grænmeti svo eitthvað sé nefnt.

Þess má geta að til eru um 25 tegundir af maískorni en er sá maís sem poppast eitt afbrigði þess. Hlaut hann nafn sitt vegna hljóðsins sem myndast er maísbaunin springur. Hún inniheldur um 14% vatns sem breytist smám saman í gufu eftir því sem hitinn eykst. Vegna harða hýðisins sem umlykur hana ummyndast sterkja hennar við hitun, þenst út og veldur því að hún „poppar“ með hvelli.

Vinsælt þótti og þykir enn, alveg frá árunum í kringum 1800, að nýta svo poppkorn í hátíðaskreytingar, enda bæði bjart og fagurt auk þess að vera skemmtilega lagað. Poppkornsauglýsingar skutu þó ekki upp kollinum fyrr en í kringum 1840 í Bandaríkjunum, og náðu hámarki í kringum 1860 er þýskir innflytjendur fundu upp á hinum skemmtilegu sætindum er kallaðar eru Cracker Jack. Þá er poppkornið sykur- og karamelluhúðað og sett í bréfpoka ásamt jarðhnetum.

Slagorð fylgdi í kjölfarið sem uppfinningamönnunum fannst tilvalið að fá einkaleyfi á en það hljóðar svo: „The more you eat, the more you want!“ Að auki þótti móðins að kalla upp yfir sig „Thats a crackerjack!“ ef mönnum fannst eitthvað af framúrskarandi gæðum.

Síðar, yfir ártugina, hafa svo allar þjóðir heimsins tekið sig til og blandað ýmsu í poppkorn sitt, nú eða húðað það utan. Má þar helst nefna ostapopp, en einnig er vinsælt að blanda í pokann rúsínukúlum, karamellukúlum, strá lakkrís, chili eða hvítlauksdufti yfir, kókosflögum, truffluolíu nú eða úða það sítrónusafa svo eitthvað sé nefnt.
Einhverjir eru svo hrifnir af því að blanda við kornið hnetusmjöri eða hunangi en segja má að möguleikarnir séu óteljandi.

Eigandi sælgætisverslunar, Charles Cretors nokkur að nafni, fann svo upp fyrstu poppvélina á vagni ef svo má að orði komast og kynnti hana stoltur á heimssýningunni árið 1893. Nokkurt æði hófst um þessar stundir hvað varðaði poppkorn og tóku ljóðskáld sig til og ortu ljóð í miklum mæli um þetta ágæta snarl, samkvæmt vefsíðum er mæra sögu poppkorns.

Sóðalegt eða sæmandi?
Popcorn, áttunda lag plötunnar, eldist afar vel og hefur glatt mörg hjörtu.

Vinsældir poppkornsins jukust mikið þegar bíómyndirnar komu til sögunnar og kvikmyndahúsin tóku að selja popp – enda er poppkorn bæði afar ódýrt og skemmtilegt til átu. Framan af töldu eigendur kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum þó poppkorn bæði sóðalegt og ekki háttvirtum bíógestum sæmandi þar sem yfirlætislegur bragur var á bíóferðum fyrst um sinn. Það breyttist þó í kreppunni í kringum seinni heimsstyrjöldina, en vegna almennrar fátæktar auk sykurskorts var ekki hlaupið að því að selja eins og menn vildu af gosdrykkjum og sætindum. Var þá tekið til þess bragðs að bjóða upp á blásinn maís sem seldur var á niðursettu verði en þó í smörtum umbúðum á borð við kramarhús. Upphaflega voru það þó götusalar sem stóðu fyrir poppkornssölunni, en þeir komu sér gjarnan fyrir fyrir utan kvikmyndahúsin og buðu upp á glaðninginn fyrir örfáar krónur og má segja að eigendur kvikmyndahúsanna hafi ekki séð sér annað fært en að stela hugmyndinni og gleðja gesti sína með hinu sama. Á örfáum árum þrefaldaðist þannig neysla Bandaríkjamanna á poppkorni.

Kemur sumum á óvart!

Poppkornsát okkar Íslendinga hóf sjálfsagt göngu sína á svipuðum tíma, en í dagbaðinu „Frjáls þjóð“, sem gefið var út í nóvember árið 1955, fjallar þar greinarhöfundur nokkur, húsmóðir, um kynni sína af „pop-cornsgerð“.

„Maður setur svolítið smjörlíki i pott (25 g. er meira en nóg, sé potturinn ekki mjög stór) og hitar það, síðan setur maður maís út i, ekki meira en botnfylli, og hlemm yfir pottinn. Eftir stutta stund byrja miklir smellir og skollir í pottinum, en varazt skyldi að taka hlemminn af til að forvitnast um, hvað sé að gerast, þá á maður á hættu að fá allt framan i sig. Hins vegar er gott að skaka pottinn dálítið til að hindra, að festist við botninn. Þegar smellirnir hætta, er potturinn tekinn af vélinni, og nú er óhætt að líta á matseldina. Ég hef sjaldan orðið eins hissa og þegar ég tók hlemminn af fyrsta pottinum – hann var sem sagt fullur, af, hvítu ilmandi poppkorni. Síðan er stráð salti yfir og etið!“

Misbýður öðrum ...

Ekki voru þó allir jafn yfir sig hrifnir af poppkornsáti í bíósölum og Bandaríkjamenn. Í vikublaðinu Fálkanum, sem gefið var út í maí árið 1963, kemur fram kvörtun vegna þess í lesendadálki blaðsins. Þar finnst þeim er skrifar poppkornsát mikill ósiður sem eigendur kvikmyndahúsa ættu að taka fyrir.

„Það er óttalegt að heyra skrjáfið í umbúðunum, kjamsið, ropið og hikstana sem þessu fylgir. Og svo er það iðulega að maður heyrir ekki það sem leikararnir eru að segja vegna þessa hávaða. Að maður nú tali ekki um hvernig húsið lítur oft út eftir sýningar. Gólfið þakið þessum óþverra. Ég skrifa þetta bréf vegna þess hve mér hefur oft sárnað yfir góðri mynd út af þessu og vona að þú birtir þetta bréf því ég veit að margir eru mér sammála. Stjáni.“

Sá er dálknum svarar er svo hreint alveg á sama máli og aukreitis bendir viðkomandi á að einnig sé hvimleitt þegar fólk sé símasandi meðan á sýningunni stendur, eða sé á einhverju róli.

Örbylgjupoppið gleður
Örbylgjupoppkorn er alltaf jafn vinsælt.

Nú, á heimsvísu, þegar poppkorn hafði fest sig í sessi sem misskemmtileg viðbót dag­legs lífs urðu allt í einu afföll í sölunni. Sjónvarpið kom til sögunnar. Ekki leið þó á löngu áður en sala á maísbaunum rauk upp, enda fannst unnendum sjónvarpsgláps ekki verra að hafa eitthvað kunnuglegt að maula þegar horft var á skjáinn. Er örbylgjuofninn kom á almennan markað í kringum 1970 leið ekki á löngu þar til „örbylgjupopp“ svokallað var fundið upp. Eiga margir góðar þriggja mínútna minningar fyrir framan örbylgjuofninn er beðið var eftir því að baunirnar spryngju inni í pokanum og lykt af bráðnu smjöri í bland við salt fyllti vitin.

Þegar farið hefur verið léttilega yfir sögu poppkorns er óhætt að segja að vinsældir þess hafa hvergi dalað nú einhverjum þúsundum ára frá því að neysla þess hófst. Að auki ætti að hafa í huga hversu ríkt það er þeim efnum er minnka líkur á krabbameini – auk þess sem hægt er að gera sér sína eigin persónulegu blöndu, hvort sem viðkomandi hallast frekar að almennu ostapoppi eða einhverju meira framandi.

Skylt efni: poppkorn

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....