Ólíklegt að veiðar verði heimilaðar
Líklegt þykir að þingsályktunartillaga um veiðar á álft og gæs utan hefðbundins veiðitíma dagi enn einu sinni uppi.
Flutningsmaður þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi, um leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma, er ekki bjartsýnn á framgang málsins. Tillaga þessa efnis er nú flutt í sjötta sinn.
„Málin fá venjulega eina umræðu og inn í nefnd þar sem þau daga uppi,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson (F), fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Bændur hafa ítrekað kallað eftir að leyft verði að veiða ágangsfugla á túnum og kornökrum utan hefðbundins veiðitímabils. Hefur verið lagt til að heimild verði gefin til tímabundinna og skilyrtra veiða fuglanna á tilteknum tímabilum, en þeir valda iðulega miklu tjóni á túnum og kornökrum. Sama máli gegnir um aðra þingsályktunartillögu Þórarins á þingmálaskrá, um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt sem endurflutt er að efni til í fimmta sinn.
„Ég á ekki von á öðru en að málin fari sömu leið og undangengin þing,“ segir hann.