Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Burnirót undir Arnarfelli
Burnirót undir Arnarfelli
Fréttir 29. júlí 2022

Ein merkasta lækningajurt landsins

Höfundur: Vilmundur Hansen
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands. Mynd / ÞEÞ

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, leiðir teymi sem fékk styrk úr Tækniþróunarsjóði RANNÍS til rannsókna á burnirót og möguleikum til ræktunar á henni hér á landi. Burnirót er víða komin á válista yfir plöntur í útrýmingarhættu vegna ásóknar í hana sem náttúrulyfs.

Þóra segir að rannsóknin kallist Val og ræktun burnirótar sem hágæðavöru á markaði. „Í verkefninu stendur til að bera saman ólíka stofna burnirótar á Íslandi og er þá meðal annars horft til vistfræði, efnaframleiðslu, erfðafjölbreytni og skyldleika. Plöntur verða settar í tilraunaræktun í tvö ár til að bera saman vaxtarhraða og eiginleika ólíkra stofna og hvernig best er að fjölga plöntum í ræktun.“

Lokamarkmið verkefnisins er að gera ræktun og sölu burnirótar að raunhæfri aukabúgrein fyrir íslenska bændur sem geti leitt til þess að ný og verðmæt afurð komi á markaði sem íslensk fyrirtæki á snyrtivöru-, náttúrulyfja- og fæðubótarefnamarkaði geti nýtt sér.

Einkynja arðstöngull

Burnirót, burn eða blóðrót óx eða var ræktuð á þökum torfbæja hér á landi og notuð til lækninga. Það er einnig gömul trú að plantan komi í veg fyrir bruna.

Rhodiola rosea, eins og plantan kallast á latínu, er fjölær jurt af helluhnoðraætt sem myndar þúfur og vex á norðurslóðum og til fjalla.

Að sögn Þóru Ellenar vex burnirót innan landamæra 29 þjóðríkja á norðurhveli jarðar og í nánast þeim öllum hefur hún verið notuð til hefðbundinna lækninga. Notkun hennar er þekkt frá 1. öld eftir Krist. Í dag er hún notuð í húð- og hárvörur og plantan er markaðssett sem fæðubótarefni og jurtalyf af yfir 40 fyrirtækjum á alþjóðamarkaði en í aðeins örfáum tilfellum er framleiðslan studd birtum vísindarannsóknum.

Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að burnirót sé meðalhá planta, 10 til 30 sentímetrar með mörg og þykk blöð upp eftir stilknum. Blómin mörg saman á stöngulenda og blómgast í júní. Upp af gildum jarðstöngli vaxa hliðarstönglar sem eru 2 til 6 millimetrar að gildleika og þéttsetnir tungulaga blöðum. Blómin mörg saman í greinóttum skúf eða hálfsveip á stöngulendum, einkynja í sérbýli. Karlblómin eru gul en kvenblómin rauðleit.

„Þarna er burnirótin í litlum hópi plantna en af um það bil 450 tegundum íslenskra blómplantna eru aðeins tíu með aðskilin kyn. Þá eru burnirótin og ættingjar hennar flagahnoðri, helluhnoðri og skriðuhnoðri einu innlendu plönturnar sem teljast til þykkblöðunga,“ segir Þóra Ellen.

Á Sauðlauksdalsfjalli milli Patreksfjarðar og Rauðasands.

Vex helst í þurrum sendnum jarðvegi, allt frá láglendi og upp í 1000 metra hæð hér á landi. Burnirót á Íslandi vex þar sem hún fær frið fyrir beit og því aðallega í klettum og gljúfrum.

Burnirót hefur einnig gengið undir nöfnunum greiðurót, höfuðrót, svæfla og munnsviðarót og vísa þessi nöfn í eiginleika jurtarinnar við notkun. Því var trúað að hún yki hárvöxt en til þess þurfti að bera burnirótarte í hár kvölds og morgna í nokkurn tíma. Að auki var holdsveikum ráðlagt á sínum tíma að nota burnirót sér til lækninga.

Þóra Ellen segir að hún hafi sér til skemmtunar verið að reyna að rekja orðsifjar burnirótar. „Svo virðist sem burn eigi sér ekki neina samsvörun í skyldum málum og uppruni heitisins með öllu óljós. Í skandinavísku málunum er plantan kennd við rós, rósarót.“

Algengari fyrr á tímum

Þóra Ellen segir að burnirót hafi áreiðanlega vaxið víðar hér á landi áður fyrr. „Plantan er mjög eftirsótt beitarjurt og hverfur þar sem sauðfjárbeit er stöðug. Hún er líka ein allra verðmætasta lækningaplantan í íslensku flórunni.

Ég held að burnirót hafi eitthvað verið safnað hér á landi síðastliðinn áratug og hún virðist vera horfin á einum stað á miðhálendinu og ég tel líklegra að það sé vegna söfnunar.

Burnirót er algjörlega horfin í Þúfuveri á innan við áratug og þess vegna finnst mér miklu líklegra að hún hafi verið grafin upp frekar en ofanjarðarhlutarnir bitnir. Ég hef séð hóp af fólki þarna með stóra poka að tína fjallagrös. Í nokkur ár voru seld íslensk burnirótarhylki en ég hef ekki séð þau á markaði nýlega.“

Samkvæmt því sem segir á vef Háskóla Íslands um rannsóknina fellur hún vel að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst því sem víkur að hnignun líffræðilegar fjölbreytni og að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Rannsóknin er líka einstaklega hagnýt og segir Þóra að árlegt markaðsvirði afurða burnirótar hafi verið metið yfir 3,5 milljarða króna árið 2015 og að eftirspurn vaxi stöðugt og um 8% á ári.

„Vegna þessa hefur ofnýting leitt til hnignunar burnirótarstofna,“ segir Þóra Ellen, „og að burnirót er komin á válista sums staðar, til dæmis í fimm Evrópulöndum og hefur Alþjóðanáttúruverndarráðið (IUCN) og undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna hvatt til ræktunar burnirótar til að stemma stigu við eyðingu villtra stofna.“

Burnirótarbreiða við Arnarfellsmúla.

Garð- og lækningajurt

Að sögn Þóru Ellenar er burnirót ræktuð í nokkrum löndum en ræktun enn í smáum stíl.

„Margir þekkja hana úr görðum sem skrautjurt sem ber bæði fögur gul og rauð blóm.

Burnirót er notuð gegn streitu og þróttleysi og til að auka einbeitingu og úthald. Klínískar rannsóknir virðast styðja við þessa verkun þótt hún sé ekki að fullu sönnuð og þörf sé á ítarlegri rannsóknum. Þá má nefna að burnirót hefur sýnt mótverkandi áhrif gegn veirum og öndunarfærasjúkdómum af þeirra völdum og rannsóknir hafa m.a. beinst að áhrifum hennar á æðasjúkdóma, krabbamein og sykursýki.

Í þessu verkefni sem ég stjórna koma saman aðilar sem vilja finna bestu leið fyrir ræktun burnirótar á Íslandi með afurðum sem markaðssetja má sem sjálfbært framleidda hágæðavöru.“

Fjöldi lífvirkra efna í plöntunni

Þóra Ellen segir að greind hafa verið rúmlega 140 lífvirk efni úr burnirót og verðmætustu þeirra séu virku efnin rosin, rosavin, rosarin og salidroside sem eru einkum í jarðstöngli plöntunnar og því er plantan öll fjarlægð fyrir uppskeru.

„Sala burnirótarafurða í dag byggist að mestu leyti á villtum plöntum. Erlendis hefur skortur á gæðaeftirliti leitt til þess að hráefni og vörur sem seldar eru sem burnirót eru blönduð með öðrum auðfengnari plöntutegundum eða eru alfarið aðrar tegundir sem annaðhvort innihalda alls ekki hin verðmætu virku efni eða aðeins í lágum styrk.

Það er því mikil þörf á að koma á fót sjálfbærri framleiðslu burnirótar sem er stöðluð með tilliti til virkra innihaldsefna og tryggja gæði.
Tilgangurinn með verkefninu okkar er að skapa nýja þekkingu á því hvernig best megi nýta íslenska burnirótarstofninn til ræktunar og framleiðslu verðmæts hráefnis. Niðurstöður rannsóknanna mun skýra hvaða stofn íslenskrar burnirótar framleiðir mest af virkum innihaldsefnum og er hentugastur til ræktunar. Á sama tíma mun skapast þekking á hvaða ræktunarskilyrði eru best og ólíkar leiðir til að fjölga og viðhalda plöntum í ræktun.“

Þverfagleg rannsókn

„Við ætlum að bera saman þrjá ólíka stofna: láglendisstofn í klettum á Suðurlandi, hálendisstofn sem vex í um 600 metra hæð á miðhálendinu og fjallastofn á Vestfjörðum.

Þar munum við meðal annars rannsaka erfðafjölbreytni og skyldleika þessara stofna, vistfræðilega þætti, stærðardreifingu, blómgunartíðni og hvernig lífmassi deilist milli ofanjarðar- og neðanjarðarhluta.
Helstu virku efnin verða greind í jarðstönglinum og styrkur þeirra mældur. Plöntur úr öllum þremur stofnum verða svo fluttar norður í Skagafjörð og ræktaðar þar í tilraunareitum í tvö sumur. Þar verður fylgst með vaxtarhraða, fræframleiðslu og frægæðum.

Við munum líka greina kosti og ókosti þess að fjölga plöntum með því að búta jarðstöngulinn niður og rækta plöntur upp af fræi. Í lok tilraunarinnar verða virku efnin svo mæld aftur. Ein af afurðum verkefnisins verður leiðarvísir um ræktun burnirótar á Íslandi.“

Þóra Ellen telur að verkefnið hafi margháttað mikilvægi.

„Í rafrænum gagnagrunnum fyrir vísindatímarit eru um eitt þúsund greinar um burnirót en þær eru næstum allar tengdar virkum efnum og meintum lækningamætti hennar. Aðeins örfáar rannsóknir hafa verið birtar um líffræði hennar eða vistfræði og við teljum að okkar rannsókn muni bæta við nýrri grunnþekkingu.

Það er að finna burnirótarakrar í nokkrum löndum en við höfum ekki séð að þeir framleiðendur byggi á vísindalegum rannsóknum á virkum efnum. Einn mikilvægur þáttur í okkar verkefni er að veita væntanlegum íslenskum ræktendum traustan gæðastaðal þannig að hægt verði að markaðssetja íslensku burnirótina sem hágæðavöru.“

Að sögn Þóru Ellenar koma auk hennar að verkefninu Snæbjörn Pálsson, prófessor í stofnlíffræði, Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna, og Maonian Xu, sérfræðingur hjá Heilbrigðisvísindastofnun.

Aðrir þátttakendur eru María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson, sem reka Hulduland í Skagafirði, þar sem tilraunaræktun burnirótarinnar mun fara fram og Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiski- og fiskavistfræði við Háskóla Íslands, en hún er frumkvöðull í hagnýtingu náttúruefna.

Skylt efni: Burnirót | lækningajurt

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...