Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður búgreinadeildar skógarbænda

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera, trén vaxa svo hægt,“ gæti einhver sagt. Það er þó yfirleitt alltaf þannig að skógurinn vex hvort sem við gefum honum gaum eða ekki.

Hlynur Gauti Sigurðsson

Einn góðan veðurdag verður hann stór. Eða það væri kannski frekar að segja að veðrið skiptir ekki máli þegar hann verður stór, það er nefnilega alltaf gott veður í og við skógana.

Áður en við komum okkur að efninu, framtíðinni, er rétt að renna snöggt yfir fortíðina. Í upphafi skal endinn skoða. Þegar skógarbændur hófu sína rækt höfðu ríkisskógarnir ásamt skógum skógræktarfélaga verið lengi við lýði. Árangur þeirra er aðdáunarverður og reynsla þess starfs dýrmæt. Skógrækt í dag nýtur góðs af því. Í um hálfa öld höfum við komið upp mikilsvirtri skógarstofnun á Mógilsá sem sér um rannsóknir og alls konar gagnasöfnun sem nýtist okkur í fortíð og framtíð. Rannsóknir þeirra og vítt tengslanet um allan heim hefur gefið okkur kost á góðum efniviði til ræktunar. Okkar tré vaxa nú sem ekkert sé. Menntun er einnig grunnur góðrar ræktunar. Skógræktarfélag Íslands hefur gefið út margs konar fræðandi efni og yfir árin má finna ógrynni af forvitnilegu efni í ársritum þeirra. Menntastofnanir hafa sinnt skógaruppeldi á ýmsum stigum og í dag er ekki óalgengt að finna útikennslustofur í skógarrjóðrum víða þar sem kennarar fræða nemendur um allt milli himins og jarðar, úti! Menntaskólinn á Egilsstöðum hélt meira að segja úti námsbraut í skógrækt seint á síðustu öld. Í dag er slíkt nám á herðum Garðyrkjuskólans á Reykjum (Fjölbrautaskóli Suðurlands) ásamt endurmenntun af ýmsum toga. Þar ber hæst að nefna námsbrautirnar Grænni skógar sem skilað hefur bæði góðum vinaböndum milli skógarbænda ekki síður en mikilvægri þekkingu. Loks kennir Landbúnaðarháskóli Íslands þeim sem vilja nema skóginn enn lengra og hefur námið á Hvanneyri meðal annars opnað dyr nemenda út fyrir mörk Íslands stranda.

Já, það er af nógu að taka. Fyrst um sinn snerist skógrækt um friðun birkis, svo að rækta erlendar gagnviðartegundir og loks nú yfir í að bjarga heiminum frá loftslagshörmungum framtíðarinnar. Allar götur hefur viðfangsefni skógræktar vakið aðdáun almennings og þátttaka hans í skógrækt bæði óeigingjörn og uppbyggileg fyrir sál og líkama. Það var að undirlagi frumkvöðla í ungmennafélögum um land allt sem lögð voru drög að skógræktarfélögunum með það að markmiði að efla ræktun lands og lýðs. Ríkið endurspeglar vilja fólksins í landinu og má sjá það á vel reknum skógum landsmanna. Gróðrarstöðvar urðu til fyrir vilja fólksins og það er augljóst að skógurinn er fyrst og fremst kominn til og orðinn til fyrir fólkið í landinu. Allir njóta góðs af trjánum. Það á ekki síður við um húsdýr, svo sem kindur, kýr og hesta. Í skóginum er oftar en ekki næg fæða í skógarbotnum, þökk sé skjóli ofan frá og samstöðu róta og sveppa þar undir.

Nú horfum við til framtíðar. Þegar ástríða og hugsjón ræður för má ná æði langt. Skógrækt er dæmi um það. Skógarbændur hafa tækifæri til að gera land enn ákjósanlegra til búsetu og búsældar en það mögulega var áður. Nytjar skógarins eru svo margar og fjölbreyttar að ekki verður reynt að gera því fyllilega skil hér. Rétt er þó að benda á að viðurinn er orðinn að eftirsóknarverðri vöru. Það er orðinn markaður fyrir íslenskt timbur. Einnig er kominn óvæntur stuðningur við skógrækt vegna breytts hlutfalls efnainnihalds andrúmsloftsins, nefnilega loftslagsmál. Land til skógræktar er orðið eftirsótt til þess eins að binda kolefni, hvað mun það hafa í för með sér fyrir litla þjóð úti í ballarhafi? Er samstaða skógarbænda sem og annarra bænda aldrei eins brýn og nú um stundir? Er þjarmað að fæðuöryggi þjóðarinnar?

Skógarbændur munu ræða þessar hugrenningar ásamt fjölda annarra á komandi málþingi skógarbænda á Laugum í Sælingsdal þann 12. október næstkomandi. Að öðrum gestum ólöstuðum mun forstöðumaður Lands og skógar, Ágúst Sigurðsson, vera með okkur ásamt formanni BÍ, Trausta Hjálmarssyni. Fram undan verða miklar bollaleggingar ... og talandi um bollaleggingar, þá verður vegleg árshátíð um kvöldið 12. október.

Allir skógarbændur eru hvattir til að mæta og vera með. Þetta er upplagt tækifæri til að vera með, á meðan við bíðum eftir að trén vaxi.

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...

Er aukefnunum ofaukið?
Lesendarýni 30. desember 2024

Er aukefnunum ofaukið?

Ég (Anna María) bjó lengi í Danmörku, en eftir að hafa flutt til Íslands fór ég ...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2024

Við áramót

Við áramót er gott tilefni til að hyggja að þeim atriðum sem hæst ber í blóðnytj...

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu
Lesendarýni 27. desember 2024

Flekkur kom úr langferð á jólaföstu

Hér á bæ fæddist svartflekkóttur lambhrútur 14. maí 2021, fremur smár tvílembing...

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...