Tjaldur
Tjaldur er stór og auðþekkjanlegur vaðfugl sem finnst um allt land. Tjaldar eru algengastir við ströndina en finnast líka eitthvað inn til landsins við ár og vötn. Þeir eru fremur félagslyndir og algengt að sjá þá í hópum utan varptíma. Þeir verpa helst í möl eða sandi við sjó, ár og vötn. Einnig er nokkuð um að þeir verpi í byggð eða nálægt mannvirkjum eins og vegum, húsþökum eða tjaldstæðum. Þar sem þeir verpa í byggð geta þeir orðið nokkuð gæfir og þiggja jafnvel matargjafir. En þó er rétt að geta þess að fyrir fugla með sérhæft fæðuval eins og t.d. tjalda er alltaf best að þeir finni mat upp á eigin spýtur frekar en að vera háðir matargjöfum. Helsta fæða tjaldsins við ströndina er að grafa eftir sandmaðki og öðrum hryggleysingjum. Inn til landsins notar hann gogginn til að pota ótt og títt í mjúkan jarðveg eftir ánamöðkum. Hann er einnig nokkuð lunkinn við að ná sér í krækling og ber hann m.a. enska heitið Oystercatcher vegna þess hversu laginn hann er að opna skeljar og ná sér í dýrindis fæðu í boði hafsins. Hann er að mestu farfugl en þó dvelja hér nokkur þúsund fuglar veturlangt við ströndina. Þeir tjaldar sem yfirgefa landið á haustin halda til Bretlandseyja líkt og margir aðrir farfuglar sem hér verpa.