Dagur sauðkindarinnar
Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldinn hátíðlegur.
Fjöldi fólks kom saman í Rangárhöllinni við Hellu með lömb til að láta dæma þau og meta og raða til verðlauna. Mikið var af glæsilegum gripum á sýningunni og einkunnir eftir því háar.
Keppt var um bestu kollóttu gimbrina og bestu hyrndu gimbrina, besta kollótta hrútinn og besta hyrnda hrútinn og síðan völdu áhorfendur litfegursta lamb sýningarinnar. Veitt voru verðlaun fyrir bestu fimm vetra ær, besta veturgamla hrút og ræktunarbú ársins 2023 og voru flest verðlaunin málaðir plattar eftir Gunnhildi Jónsdóttur, en nokkrir þeirra eru farandgripir.