Fjölmenningarhátíð í Aratungu
Menning hinna ýmsu landa verða í forgrunni á fjölmenningarhátíð í Aratungu í Bláskógabyggð sunnudaginn 3. nóvember nk.
Þátttakendur munu meðal annars kynna menningu Tékklands, Portúgals, Búlgaríu, Þýskalands, Ungverjalands, Noregs, Eþíópíu, Póllands, Íslands, Chile og Slóvakíu. „Þennan dag munu íbúar sem búa í okkar samfélagi kynna sína menningu með ýmsum hætti. Á hátíðinni verða kynningarbásar þar sem gestir geta fræðst um hin ýmsu lönd, kynnst ólíkum menningararfi og hægt verður að smakka mat og drykk frá ýmsum heimshornum. Á deginum verða líka básar þar sem gestir geta fengið upplýsingar um afþreyingu og kynningu frá félagasamtökum í Uppsveitum,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar. Hátíðin stendur frá kl. 14–17.