Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og 19. október undir yfirskriftinni BragðaGarður.
Fyrri daginn var lögð sérstök áhersla á fræðslu og voru haldnar vinnustofur miðaðar við ungmenni á aldrinum 16–20 ára. Á seinni deginum voru fyrirlestrar og umræður um hringrásarhagkerfi matvæla, upprunamerkt lambakjöt, sveppi og villtar og ræktaðar nytjajurtir.
Fræðsla um mat og matartengd málefni
Nemendur úr Hótel- og matvælaskólanum í Menntaskóla Kópavogs fræddu jafnaldra sína á föstudeginum um mat og matartengd málefni ásamt kennurum og meðlimum úr Slow Food Reykjavík-samtökunum.
Því næst var diskósúpa borin á borð, til að vekja athygli á matarsóun og leiðum til að sporna við henni.
Engin uppskrift að diskósúpunni
Gerð diskósúpu hefur verið reglulegur viðburður hjá Slow Food Reykjavík á liðnum árum. Að þessu sinni var það Ægir Friðriksson, matreiðslumeistari og kennari við Hótel- og matvælaskólann, sem hafði veg og vanda að súpugerðinni.
„Við vorum með fræðsludagskrá í morgun fyrir skólakrakka og svo tók diskósúpan við. Hráefnið sem við notuðum í súpuna var frá ýmsum birgjum sem voru með hráefni og vörur sem þeir töldu sig ekki geta selt – og var í raun á leið í ruslagáminn ef við hefðum ekki komið og bjargað því.
Uppskriftin er í raun ekki til, því hún stjórnast af því sem er í boði. Við erum líka að vekja athygli á því að hráefni getur verið gott þótt það eigi ekki marga lífdaga eftir,“ segir Ægir.
Á laugardeginum var svo einnig haldinn matarmarkaður Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli.