Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Gengið á rétt bænda með gullhúðun
Fréttir 15. júlí 2024

Gengið á rétt bænda með gullhúðun

Höfundur: Njörður Bruun, laganemi hjá BÍ

Árið 1993 skrifaði Ísland undir milliríkjasamning sem átti eftir að hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf.

Njörður Bruun.

Samningurinn bar heitið „Samningur um Evrópska efnahagssvæðið“ en er gjarnan kallaður EES- samningurinn. Samningurinn fjallar um sameiginlegt efnahagssvæði milli 31 ríkis í Evrópu, en það eru aðildarríki Evrópusambandsins og þrjú aðildarríkja EFTA, Noregur, Ísland og Liechtenstein. Með samningnum fengu EFTA-ríkin aðgang að innri markaði ESB án þess að gerast fullgildir aðilar þess. Helsti ávinningur samstarfsins er fjórfrelsið, þ.e. frjálst flæði vara, vinnuafls, þjónustu og fjármagns, sem nái þá ekki eingöngu til aðildarríkja Evrópusambandsins heldur einnig til EFTA-ríkjanna.

Til að ná fram einsleitu Evrópsku efnahagssvæði er nauðsynlegt að sú afleidda löggjöf (gerðir) sem stofnanir ESB setja, á sviði fjórfrelsisins og tengdum sviðum, sé tekin upp í EES- samninginn. Þegar löggjöfin er tekin upp í samninginn er samningsaðilinn því skuldbundinn til að innleiða hana í landsrétt sinn, s.s. í íslensk lög. Eðlilegt er að þegar aðildarríki taka upp slík lög hafi þau ákveðið svigrúm til þess að aðlaga EES-reglurnar að landsrétti sínum. Það er þó ekki sama hvernig slík aðlögun fer fram og er mikilvægt að þar sé vandað til verka.

Hvað er gullhúðun?

Erindi þessarar greinar er að beina sjónum að fyrirbæri sem kallast gullhúðun. Fyrirbæri þetta kann að hljóma eins og einhver jákvæður hlutur miðað við nafn þess, en það er þó síður en svo. Hugtakið er notað um það þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra og setja meira íþyngjandi ákvæði en gerðar eru lágmarkskröfur um í EES-gerðum við innleiðingu. Samkvæmt EES- reglum er aðildarríkjum vissulega heimilt að gullhúða reglur en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Við innleiðingu eiga stjórnvöld að gera grein fyrir ef gerðar eru meiri kröfur í innleiðingarlöggjöfinni en felst í lágmarkskröfum þeirra gerða sem verið er að innleiða og að auki skal rökstyðja þær auknu kröfur. Gullhúðun á sér nokkrar birtingarmyndir. Það telst þannig vera gullhúðun að:

  • Setja ítarlegri reglur umfram þær lágmarkskröfur sem kveðið er á um í þeirri tilskipun sem verið er að innleiða.
  • Víkka út gildissvið tilskipunar til dæmis með því að nota víðtækara orðalag en það sem kveðið er á um í henni.
  • Nýta ekki til fulls þær undanþágur sem kveðið er á um í tilskipun.
  • Með því að viðhalda innlendum lögum sem kveða á um strangari skilyrði en kveðið er á um í þeirri tilskipun sem verið er að innleiða.
  • Setja viðurlög sem teljast ekki vera í samræmi við venju góðrar lagasetningar þarlendis.
  • Og loks að innleiða tilskipun of snemma miðað við þá dagsetningu sem kveðið er á um í henni.
Niðurstöður starfshóps um gullhúðun

Utanríkisráðherra skipaði starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, en nýlega skilaði þessi starfshópur skýrslu af sér um þær niðurstöður sem komist var að. Þær niðurstöður voru nokkuð sláandi en samkvæmt þeim hafa íslensk stjórnvöld alls ekki staðið sína plikt í að gæta að gullhúðun við innleiðingu EES-reglna og hafa ekki fylgt þeim lögbundnu reglum sem gilda um þegar regluverk er gullhúðað. Fjöldamörg dæmi um gullhúðun er að finna hér og þar í íslensku regluverki sem getur haft mjög íþyngjandi áhrif fyrir hlutaðkomandi aðila.

Á kynningarfundi starfshópsins var sem dæmi nefnt eitt tilfelli gullhúðunar sem skilaði sér í 2 milljarða króna kostnaðifyrirákveðinnhópíslenskra fyrirtækja, vegna þess að gildissvið reglunnar var víkkað út þannig að hún tæki til mun fleiri aðila en EES- reglan kvað á um. Reglan tekur því ekki til hóps fyrirtækja sem telja mætti á fingrum sér, eins og EES-reglan hefði gert, heldur tekur hún nú til hundraða íslenskra fyrirtækja. Tilfelli sem þessi eru í hundruðum talið, að vísu misalvarleg, en engu að síður íþyngjandi. Starfshópurinn lagði fram fimm tillögur til úrbóta sem ættu að tryggja að ekki fari á milli mála hvort gullhúðun sé í innleiðingarlöggjöf og að allir aðilar, allt frá alþingismönnum til almennings, séu meðvitaðir ef tilfelli gullhúðunar skjóti upp kollinum.

Bændasamtök Íslands hafa rekist á ýmis tilfelli gullhúðunar í regluverki landbúnaðarins og hafa síðustu ár lagt mikla áherslu á að þefa þau uppi og benda stjórnvöldum á að hér sé eitthvað sem betur mætti fara. Ekki verður farið nákvæmlega yfir hér hver þau tilfelli eru, enda væri það efni í heila grein fyrir sig. Samtökin fagna þeirri vinnu sem starfshópurinn skilaði af sér og vona að með þeirri vinnu hafi fyrsta skrefið verið tekið í átt að betri og nákvæmari lagasetningu í því flókna ferli sem er innleiðing EES-reglna í landsrétt og jafna samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Íslensk matvælaframleiðsla er óumflýjanlega í samkeppni við hina erlendu og liggur það í augum uppi að ef innlendir matvælaframleiðendur búa við mun strangara og meira íþyngjandi regluverk en samkeppnisaðilar leiði það til ósamkeppnishæfni þeirra fyrrnefndu. Bændasamtökin vilja setja þunga á málaflokk gullhúðunar á komandi mánuðum með það að markmiði að afhúða svokallað gull.

Skylt efni: Réttarfréttir