Dyggur lesandi !
Á myndinni hér að ofan er Dagbjartur Sigurbrandsson með tálgaða eftirmynd af sér með Bændablaðið í höndunum. Er hún gerð af Reyni Sveinssyni, félaga hans, og ber handbragðið glöggt vitni bæði um nákvæmni og hagleik.
Eru þeir í félagsskap sem hittist vikulega í kaffi í Breiðholtinu og á útgáfudögum Bændablaðsins hefur Dagbjartur það fyrir venju að taka með sér eintök og afhenda félögum sínum.
Er Dagbjartur dyggur lesandi Bændablaðsins, en hann leit við á skrifstofu blaðsins á dögunum til að sækja tölublað sem vantaði í safnið.
Tálgun og útskurður úr tré hefur löngum átt hug hagleiksmanna okkar þjóðar, oftar en ekki úr nytjavið íslenskrar náttúru.
Eru heimildir langt aftur í sögu okkar Íslendinga sem bera vott um haganlega útskorna og tálgaða hluti, allt frá nytjagripum til skrautmuna.