Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Opel Corsa hefur nýlega fengið andlitslyftingu. Breytingarnar eru smávægilegar og sjást helst í breyttum framljósum og grilli.
Opel Corsa hefur nýlega fengið andlitslyftingu. Breytingarnar eru smávægilegar og sjást helst í breyttum framljósum og grilli.
Mynd / ál
Líf og starf 5. júní 2024

Einlæg og sönn hagsýni

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu Opel Corsa Electric í Edition- útfærslu, sem nýlega hefur fengið andlitslyftingu. Þetta er rafmagnsbíll sem reynir ekki að þykjast vera neitt annað en hagkvæmur og lítill borgarbíll.

Ef þú vissir það ekki þá dytti þér aldrei í hug að um rafmagnsbíl sé að ræða við það eitt að skoða hann að utan. Það eina sem kemur upp um bílinn er lítið „e“ á skotthleranum, sem stendur fyrir electric, og það að hvergi er að finna útblástursrör. Að öðru leyti er Opel Corsa Electric nákvæmlega eins og jarðefnaeldsneytisútgáfan af sama bíl. Þrátt fyrir að bíllinn hafi fengið andlitslyftingu er ytra útlitið nánast alveg eins og áður. Framendinn hefur fengið smávægilega uppfærslu þar sem grillinu hefur verið skipt út fyrir nánast heila svarta plötu sem nær á milli endurhannaðra framljósanna.

Hægt er að deila um að breytingin sé framför, enda var eldri bíllinn afar smekklegur. Hliðarnar eru svo gott sem óbreyttar og augljósasta breytingin aftan á ökutækinu er letrið í heiti bílsins.

Það er fátt sem gefur til kynna að þetta sé rafmagnsbíll. Glöggir sjá að það er ekkert útblástursrör og á skotthleranum er lítið „e“.

Ódýr innrétting

Þegar sest er um borð tekur á móti manni einföld og ódýr innrétting. Hurðaspjöldin eru úr hörðu plasti og heyrist tómahljóð þegar bankað er í þau. Ofan á mælaborðinu er aðeins vandaðra plast, en innréttingin er annars meira og minna úr ódýrum efnum. Útlit innréttingarinnar er hvorki ljótt né fagurt – hún gerir bara sitt án þess að angra neinn. Hanskahólfið er stórt og hurðavasarnir rúmgóðir.

Stýrishjólið er klætt mjúku efni og er með takka fyrir helstu skipanir, eins og hraðastilli, hita í stýri, síma og útvarp. Kosturinn er að þetta eru alvöru hnappar af gamla laginu, ekki snertitakkar sem eru oft erfiðir í notkun. Hægt er að draga að sér og velta stýrinu.

Gírstöngin er lítill veltirofi á milli sætanna. Opel hefði getað bætt nýtingu plássins með því að færa veltirofann annað og vera með meira geymslupláss í staðinn. Framan við gírstöngina er lítill bakki sem passar fyrir snjallsíma en þar er engin þráðlaus hleðsla. Skammt fyrir ofan er usb tengi og tólf volta tengi fyrir sígarettukveikjara.

Innréttingin er mjög einföld og ódýr. Margmiðlunarskjárinn er með fáa eiginleika sem hann leysir vel af hendi.

Einfaldur snertiskjár

Margmiðlunarskjárinn í miðju mælaborðinu er afar einfaldur. Hann dugar til að stjórna útvarpinu eða tengjast símanum með Android Auto eða Apple CarPlay á meðan miðstöðinni er stjórnað með tökkum. Leiðsögukerfið er ekki innbyggt, heldur þarf að styðjast við áðurnefndar snjallsímatengingar. Þrátt fyrir að vera ekki leiftursnöggur leysir skjárinn allt sem hann á að gera vel af hendi. Bíllinn er ekki með bakkmyndavél, en er útbúinn fjarlægðarskynjurum að aftan.

Rétt er að nefna að hljómtækin eru ekki af miklum gæðum og ferst þeim illa úr hendi að skila frá sér bassa eða háum röddum. Þá fannst undirrituðum eins og hljóðstyrkur tækjanna færi sjálfkrafa í nokkuð háa stillingu í hvert sinn sem kveikt var á bílnum.
Mjúk sæti

Sætin eru lungamjúk og fara ágætlega með mann. Að auki við helstu stillingar er hægt að breyta hæð sætisins. Hins vegar er ekki hægt að eiga við mjóbaksstuðninginn og má áætla að eftir langa ökuferð verði ökumaðurinn þreyttur í bakinu, á meðan sætin duga vel í allt snatt. Áklæðið er grátt og svart með smá mynstri.

Aftursætin eru ekkert sérlega rúmgóð, en tveir fullorðnir einstaklingar eða þrjú börn ættu að þrauka dvöl þar. Farþegarnir í framsætunum þurfa að gefa eftir nokkra sentímetra af sínu rými til þess að fullvaxta aftursætisfarþegar geti komið fyrir fótum og hnjám. Skottið er af mjög sambærilegri stærð og í öðrum borgarbílum, eða 267 lítrar með sætin uppi. Bíllinn kemur ekki með varadekki, heldur er dekkjaviðgerðarsett undir gólfinu í skottinu.

Aftursætin duga fyrir þrjú börn eða tvo fullorðna. Ekki er mælt með að taka hávaxna farþega í langt ferðalag.
Prýðileg fjöðrun

Þar sem ekki er neitt snertilaust aðgengi þarf að taka bílinn úr lás með takka á fjarstýringunni og ræsa ökutækið með hnappi í mælaborðinu. Á minni hraða er bíllinn prýðilega hljóðlátur, en þegar ekið er úti á þjóðvegum eða stofnbrautum heyrist dekkjadynur sem glymur um farþegarýmið. Ólíkt flestum nýjum bílum heyrist ekkert viðvörunarhljóð í þessum þegar ekið er yfir hámarkshraða, sem verður að teljast mikill kostur.

Mótorinn skilar 136 hestöflum sem dugar ágætlega. Ökumaðurinn getur valið milli tveggja stiga á mótorbremsunni en það er ekki hægt að láta bílinn nema alveg staðar með því einu að sleppa inngjöfinni, heldur þarf alltaf að stíga á bremsuna. Fjöðrunin er býsna mjúk og stenst vel samanburð við marga rafmagnsbíla sem eiga það til að vera hastir.

Bremsufetillinn og inngjöfin eru afar nálægt hvort öðru. Í þessum prufuakstri flækti undirritaður skóna ítrekað undir bremsunni þegar fóturinn var færður af inngjöfinni. Þetta atriði var ekki þannig að það olli hættu en hugsanlegt er að við langa notkun muni skórnir rispast.

Skottið er 267 lítrar með sætin uppi. Undir gólfinu er ekkert geymslupláss fyrir hleðslusnúrur.

Engar óþarfa væntingar

Annars er lítið af akstrinum að segja. Þetta er bara rafmagnsbíll sem keyrir vel og er ekki með neitt vesen. Á margan hátt er upplifunin af notkun bílsins nokkuð gamaldags, en ekki á slæman hátt, heldur er verið að nýta það sem hefur reynst vel til að halda verðinu niðri.

Þessi bíll vekur engar væntingar sem munu svo bregðast. Opel Corsa Electric Edition er ekki lúxusbíll og hann viðurkennir það fúslega. Bíllinn er billegur á einlægan og góðan hátt, á meðan framleiðendur annarra ódýrra bíla reyna að fela aðhaldssemina með því að hlaða ökutækið óþarfa útbúnaði
sem kemur að litlum notum eða er ankannalegur í notkun.

Hægt er að hlaða rafhlöðuna frá 20 prósent upp í 80 prósent með 100 kílóvatta straumi. Batteríið getur geymt 50 kílóvattstundir og er akstursdrægnin samkvæmt framleiðanda 361 kílómetri. Helstu mál eru í millímetrum: Lengd, 4.061; breidd m. speglum, 1.960; hæð, 1.435.

Opel Corsa Electric kemur í tveimur útfærslum og er sú ódýrari til umræðu hér. Hin útgáfan, sem nefnist GS, býður upp á aðeins meiri búnað og akstursdrægni, en er næstum milljón krónum dýrari. Með því glatast helsti kostur þessa bíls, sem er lágt verð.
Opel Corsa Electric Edition kostar frá 4.790.000 krónum með vsk. og 900.000 króna rafbílastyrk. GS útgáfan kostar 5.690.000 krónur með vsk. og rafbílastyrk. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Brimborg, söluaðila Opel á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...