Ennishnjúkur blasir við
Bændablaðinu barst kveðja frá ungum lesanda í Skagafirðinum, henni Bjarkeyju Dalrós, en greinilegt er að hún er efnilegur ljósmyndari. Við gefum henni orðið:
„Ég heiti Bjarkey Dalrós Rúnarsdóttir og ég er 14 ára og bý á Grindum í Deildardal. Mig langaði að senda ykkur mynd sem ég tók í reiðtúr á skagfirsku sumarkvöldi. Fyrir miðju er fjallið Ennishnjúkur og til vinstri við hann er Unadalur og Deildardalur til hægri. Hesturinn aftur á móti heitir Bragur frá Grindum og er 6 vetra gamall :)“
Bjarkeyju þökkum við kveðjuna, en gaman er að geta þess að fjallið Ennishnjúkur sem blasir hér við hátt og tignarlegt, rúmlega 700 metrar, er vinsælt til gönguferða. Fyrir nokkrum árum var sett upplýsingaskilti við upphaf gönguleiðar á Ennishnjúk, en það má finna við bæinn Enni í Unadal. Fjallið er eitt þeirra sem má finna í bókinni Íslensk Bæjarfjöll.