Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Grísk moussaka
Líf og starf 17. janúar 2024

Grísk moussaka

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Í janúar er oftast raunin sú að fólk trappar sig ögn niður eftir veislumatinn sem fylgir hátíðunum og herðir beltið ögn hvað varðar óhóf og ekki síður útgjöldin.

Hakkréttir eru vinsælir á heimilum landsmanna, margir fljóteldaðir og einfaldir í dagsins önn og hráefnið ódýrara en stórsteikurnar. Svo eru til klassískir hakkréttir sem taka ögn lengri tíma ef rétt er farið að en útkoman er líka vel þess virði þegar tími og umhyggja fer í eldamennskuna.

Grísk moussaka er einn þeirra og verður hér fyrir valinu. Það er auðvitað hægt að stytta sér leið og sleppa ýmsu en ég mæli heilshugar með því að fólk fylgi uppskrift og eldunartíma af bestu getu til að hámarka bragðið, og munið að réttinn er tilvalið að gera í meira magni, elda allt og frysta til að nota síðar þegar tíminn er af skornum skammti. Sama á við um aðra hakkrétti svo sem lasagne, undirbúningurinn tekur töluverðan tíma en það munar litlu hvort uppskriftin er stækkuð til að eiga góðan rétt í frystinum sem er fljótlegt að hita í ofni þegar mikið liggur við. Skipulag er allt sem þarf.

Klassísk grísk moussaka er ekki svo ósvipuð lasagne nema að í stað pasta er notað eggaldin og kartöflur í þunnum sneiðum. Hakkið á helst að vera lamba- eða kindahakk, en nautahakk má auðvitað nota líka. Ofan á réttinn er svo sett bechamel-sósa með eggjum sem verður létt og kremuð þegar rétturinn bakast í ofninum.

Kjötsósa
1 dl ólífuolía
2-3 eggaldin, skorin í um 5 mm sneiðar
1 kg lambahakk
2 laukar, skornir í teninga
3-4 hvítlauksrif, söxuð
1 msk. þurrkað oregano
2 tsk. kanil duft
2 lárviðarlauf
1⁄4 tsk. chiliduft
2 dl rauðvín, má sleppa
500 g tómatar úr dós
3 msk. tómat púrre
2 tsk. púðursykur
800 g bökunarkartöflur

Hitið víðan pott, bætið olíu í og steikið hakkið í um 10 mínútur eða þar til það er fallega brúnað, hrærið reglulega í með sleif og losið kekki ef einhverjir eru. Setjið í skál og geymið. Bætið meiri olíu í pottinn og svitið laukinn á lágum hita í um 10 mínútur, athugið að laukurinn á ekki að brúnast heldur verða glær og glansandi!

Bætið við hvítlauk, kanil, lárviðarlaufum og chili. Eldið áfram í 1 mínútu og bætið við hakki og rauðvíni. Sjóðið vínið niður um helming og bætið tómötum, tómatpúrru og púðursykur saman við ásamt 2 dl af vatni. Lækkið hitann og sjóðið án loks og hrærið reglulega í þar til kjötsósan þykknar sem tekur 15-20 mínútur. Smakkið til með salti, pipar og ögn af rauðvínsediki ef þarf.

Á meðan kjötsósan sýður er rétt að undirbúa eggaldin og kartöflur. Hitið pönnu á háum hita, penslið með ólífuolíu og steikið eggaldin í nokkrum skömmtum í um 5 mín. þar til það tekur lit og mýkist. Bætið við olíu ef eggaldinið virðist þurrt. Leggið á fat með eldhúspappír til að taka við umfram olíu.

Skrælið kartöflurnar, skerið í um 5 mm þunnar sneiðar og leggið strax í kalt vatn. Oftast eru kartöflurnar forsoðnar í 5 mínútur í stórum potti í saltvatni og síðan þerraðar áður en þær fara í réttinn, en ef sneiðarnar eru allar passlega þunnar er óhætt að raða þeim beint í réttinn.

Bechamel-sósa með eggjum
40 g smjör
40 g hveiti
500 ml mjólk
50 g Feykir, rifinn fínt múskat
2 egg og 1 eggjarauða

Bræðið smjör í potti og hrærið hveitinu saman við, hrærið yfir hita í 1 mínútu og takið af hellunni. Pískið mjólkinni saman við í skömmtum og pískið kekkina úr. Setjið aftur á hita og sjóðið í rólegum hita í 5 mínútur. Takið af hita, pískið osti saman við og smakkið til með múskati og salti. Brjótið egg í skál og pískið ögn áður en eggjablöndunni er pískað saman við sósuna.

Rétturinn settur saman

Takið stórt eldfast fat og setjið þriðjung af kjötsósunni í botninn, raðið helmingnum af eggaldin og svo kartöflum ofan á. Endurtakið í sömu röð og endið á því að setja sósuna ofan á og sléttið vel úr. Bakið á 180 °C í 50 mínútur, fylgist með og hyljið með álpappír ef sósan brúnast of mikið. Tilvalið að bera fram með góðu grænu salati og eða tómatsalati með feta osti, rauðlauk, ediki og olíu.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...