Hrafnsönd
Hrafnsönd er meðalstór kafönd og er nokkuð auðþekkjanleg frá öðrum andartegundum sem finnast á Íslandi. Steggurinn er gljásvartur og kollan dökkmóbrún. Hrafnsönd er eina öndin í hópi svartanda sem verpur á Íslandi. Stofninn er ekki stór, einungis örfá hundruð og má segja að hún sé fremur sjaldgæf. Þeir fuglar sem verpa hér finnast helst við Mývatn og á örfáum öðrum vötnum. Hún er að langmestu leyti farfugl og eru vetrarstöðvarnar á sjó í Vestur-Evrópu. Einungis litlir hópar af hrafnsöndum hafa haft vetrarsetur á Skjálfanda og við Hvalsnes og Þvottárskriður. Aðrar tegundir af svartöndum hafa ekki orpið á Íslandi en sumar þeirra sjást reglulega á sjó við Íslandsstrendur og þá gjarnan í hópi með æðarfuglum eða hrafnsöndum.