Hrossagaukur
Hrossagaukur er meðalstór og nokkuð algengur vaðfugl. Það er áætlað að hér séu yfir 300.000 varppör. Yfirleitt eru fuglarnir stakir og ekkert sérstaklega félagslyndir. Hann fer gjarnan huldu höfði á jörðu niðri, flýgur seint upp og þá nokkuð snögglega með hröðum vængjatökum og miklum skrækjum. Það er hins vegar á flugi sem hann sýnir listir sínar, þá fljúga þeir í hringi yfir óðalinu sínu og hneggja án afláts. Það gera þeir með því að steypa sér niður og mynda loftstraum sem leikur um ystu stélfjaðrirnar. Hann verpir á jörðinni, hreiðrið er iðulega mjög vel falið í grasi og sinu í mólendi og mýrlendi. Hann er að langmestu leyti farfugl en örfáir fuglar hafa haldið sig í opnum eða heitum lækjum og skurðum yfir vetrarmánuðina. Þeir fuglar sem fara af landinu hafa vetursetu í Vestur-Evrópu.