Hrútur á Þverhamri
Ellert Már Randversson tók þessa skemmtilegu mynd 28. september á Þverhamri í Breiðdal innarlega í Stöðvardalnum, undir svokölluðum Þúfutindsdal. Hrúturinn vildi ekki sameinast hópi, sem var verið að smala og fór því að verja sig fyrir ofan fossinn.
Skilja þurfti hrútinn eftir en hann náðist í næstu smölun, sem var viku síðar. „Ég er bóndi á Gilsárstekk í Breiðdal en vinn með, sem verktaki í 100% starfi, enda ekki hægt að lifa af því að vera eingöngu bóndi. Ég og konan mín tökum þátt í að smala í Stöðvarfirðinum vegna þess að okkar fé fer úr Gilsárdal yfir Reindalsheiði og yfir í Stöðvardal, þess vegna var ég þarna og náði myndinni af hrútinum og fossinum,“ segir Ellert Már.